Bækur og lexíur
Kafli 8: Beðið til himnesks föður okkar


Kafli 8

Beðið til himnesks föður okkar

Ljósmynd
A woman sitting at a desk with the scriptures open in front of her. She has her hands clasped and eyes closed in prayer.

Hvað er bæn?

Jesús kenndi: „Þess vegna verðið þér ávallt að biðja til föðurins í mínu nafni“ (3 Ne 18:19).

Bænin er ein mesta blessun sem við njótum á meðan við erum hér á jörðu. Með bæninni getum við haft samskipti við okkar himneska föður og leitað leiðsagnar hans daglega.

Bæn er einlægt, hjartnæmt samtal við okkar himneska föður. Við ættum að biðja til Guðs og til einskis annars. Við biðjum ekki til neinnar annarrar veru né til nokkurs þess sem gert er af mönnum eða Guði (sjá 2 Mós 20:3–5).

Hvers vegna biðjum við?

Bænin hefur verið mikilvægur hluti fagnaðarerindisins frá upphafi heimsins. Engill Drottins bauð Adam og Evu að iðrast og ákalla Guð í nafni sonarins (sjá HDP Móse 5:8). Það boðorð hefur aldrei verið afnumið. Bænin mun hjálpa okkur að komast nær Guði. Bænin hefur áhrif á allar hugsanir okkar, orð okkar og gerðir.

Við ættum að biðja um styrk til að standast freistingar Satans og fylgjenda hans (sjá 3 Ne 18:15; K&S 10:5). Við ættum að biðja til að játa syndir okkar fyrir Guði og biðja hann að fyrirgefa okkur (sjá Al 38:14).

Við ættum að biðja um leiðsögn Drottins og hjálp í okkar daglega lífi. Við þurfum að biðja fyrir fjölskyldu okkar og vinum, nágrönnum okkar, jarðargróðri okkar og dýrum, daglegu starfi okkar og öðrum athöfnum. Við ættum að biðja um vernd frá óvinum okkar (sjá Al 34:17–27).

Við ættum að biðja til þess að láta í ljós ást okkar til himnesks föður, og til að finna að við erum nær honum en áður. Við ættum að biðja til okkar himneska föður til að þakka honum fyrir velferð okkar og vellíðan og fyrir allt sem hann gefur okkur á degi hverjum (sjá 1 Þess 5:18). Við þurfum að biðja til himnesks föður um styrk til að lifa eftir fagnaðarerindinu.

Við ættum að biðja svo að við getum haldið okkur á hinum beina og þrönga vegi sem liggur til eilífs lífs. Við verðum að biðja til Guðs, höfundar alls réttlætis, svo að við megum vera réttlát í hugsunum okkar, orðum og gerðum.

  • Hefur bænin hjálpað ykkur að komast nær himneskum föður?

Hvenær ættum við að biðja?

Við getum beðið hvenær sem við finnum þörf fyrir að hafa samskipti við okkar himneska föður, hvort sem er í hljóði eða upphátt. Stundum höfum við þörf fyrir að vera í næði þar sem við getum úthellt sálu okkar fyrir honum (sjá Matt 6:6). Þar að auki getum við beðið í okkar daglegu athöfnum. Við getum beðið á meðan við erum á kirkjusamkomu, heima við, gangandi niður stíg eða stræti, við matreiðslu eða hvar sem við kunnum að vera og hvað sem við erum að gera. Við getum beðið á hvaða tíma sem er á degi eða nóttu. Við getum beðið þegar við erum ein eða þegar við erum með öðru fólki. Við getum haft himneskan föður okkar í huga öllum stundum (sjá Al 34:27). Við getum „beðið ávallt“ (K&S 10:5).

Stundum langar okkur ekki að biðja. Við kunnum að vera reið eða vonsvikin eða í uppnámi. Á slíkum stundum ættum við að kappkosta sérstaklega að biðja (sjá 2 Ne 32:8–9).

Við ættum öll að biðja einkabænar í það minnsta á hverju kvöldi og hverjum morgni. Ritningarnar tala um að biðja jafnt kvölds og morgna og um miðjan dag (sjá Al 34:21).

Okkur er boðið að hafa fjölskyldubænir svo að fjölskyldur okkar megi blessaðar verða (sjá 3 Ne 18:21). Kirkjuleiðtogar okkar hafa ráðlagt okkur að biðja saman sem fjölskyldur hvern morgun og hvert kvöld.

Við höfum einnig þau forréttindi að fara með bæn til að þakka og biðja um blessanir yfir matinn fyrir hverja máltíð.

Við hefjum og endum allar okkar kirkjusamkomur með bæn. Við þökkum Drottni fyrir blessanir hans og biðjum um hjálp hans, svo að við getum tilbeðið hann á þann hátt sem er honum að skapi.

Hvernig ættum við að biðja?

Hvar sem við kunnum að vera, hvort sem við stöndum eða krjúpum, hvort sem við biðjum upphátt eða í hljóði, hvort sem við biðjum einkabænar eða í nafni hóps, ættum við alltaf að biðja í trú „í hjartans einlægni, með einbeittum huga“ (Moró 10:4).

Þegar við biðjum til okkar himneska föður, ættum við að segja honum hvað okkur finnst raunverulega í hjarta okkar, trúa honum fyrir málefnum okkar, biðja hann fyrirgefningar, þrábiðja hann, þakka honum, láta í ljós ást okkar til hans. Við ættum ekki að endurtaka meiningarlaus orð eða setningar (sjá Matt 6:7–8). Við ættum alltaf að biðja að hans vilji ráði, minnug þess að það sem við þráum kann ef til vill ekki að vera okkur fyrir bestu (sjá 3 Ne 18:20). Við lok bænar okkar, ljúkum við henni í nafni Jesú Krists (sjá 3 Ne 18:19).

Hvernig er bænum svarað?

  • Hvers vegna haldið þið að svör við bænum séu ekki alltaf augljós? Hvers vegna haldið þið að svör við bænum komi ekki alltaf þegar við óskum eða á þann hátt sem við viljum?

Einlægum bænum okkar er alltaf svarað. Stundum kann svarið að vera nei, vegna þess að það sem við báðum um var ekki það besta fyrir okkur. Stundum er svarið já, og við finnum hlýja, þægilega tilfinningu varðandi það sem við ættum að gera (sjá K&S 9:8–9). Stundum er svarið „dokaðu við.“ Bænum okkar er alltaf svarað á þeim tíma og á þann hátt sem Drottinn veit að kemur okkur best.

Stundum svarar Drottinn bænum okkar í gegnum annað fólk Góður vinur, eiginkona eða eiginmaður, foreldri eða annar fjölskyldumeðlimur, kirkjuleiðtogi, trúboði – hverjum sem er þessara einstaklinga kann að vera blásið í brjóst að gera eitthvað sem mun svara bænum okkar. Dæmi um þetta er reynsla ungrar móður hvers barn meiddist í slysi heima fyrir. Hún átti enga möguleika á að koma barninu til læknis. Hún var nýkomin í íbúðahverfið og þekkti enga af nágrönnum sínum. Móðirin unga baðst fyrir um hjálp. Eftir fáeinar mínútur kom nágranni að dyrum hennar, og sagði: „Ég fékk þá tilfinningu að ég ætti að koma og sjá hvort þú þarfnaðist einhverrar hjálpar.“ Nágranninn hjálpaði móðurinni ungu að koma barninu til læknis.

Oft veitir Guð okkur kraftinn til að svara okkar eigin bænum. Þegar við biðjum um hjálp, ættum við að gera allt sem við getum til að koma því í kring sem við þráum.

Þegar við lifum eftir fagnaðarerindi Jesú Krists og biðjum ávallt, munum við finna gleði og hamingju. „Ver auðmjúkur og Drottinn Guð þinn mun leiða þig sér við hönd og svara bænum þínum“ (K&S 112:10).

  • Með hvaða hætti hefur himneskur faðir svarað bænum ykkar?

Viðbótarritningargreinar og aðrar heimildir

Prenta