Kafli 3
Jesús Kristur, okkar útvaldi leiðtogi og frelsari
Þörf var fyrir frelsara og leiðtoga
-
Hvers vegna þurftum við að yfirgefa návist himnesks föður? Hvers vegna þörfnumst við frelsara?
Þegar áætlunin um sáluhjálp okkar var lögð fyrir okkur í andaheimi fortilverunnar, vorum við svo hamingjusöm að við hrópuðum af gleði (sjá Job 38:7).
Við skildum að við yrðum að yfirgefa himneskt heimili okkar um tíma. Við mundum ekki lifa í návist okkar himneska föður. Á meðan við værum í burtu frá honum, mundum við öll syndga og sum okkar mundu tapa áttum. Himneskur faðir þekkti og elskaði hvert og eitt okkar. Hann vissi að við mundum þarfnast hjálpar, og því skipulagði hann leið til að hjálpa okkur.
Við þörfnuðumst frelsara til að gjalda fyrir syndir okkar og til að kenna okkur hvernig við kæmumst aftur til himnesks föður. Faðir okkar sagði: „Hvern á ég að senda?“ (Abr 3:27). Jesús Kristur, sem var kallaður Jehóva, sagði: „Hér er ég, send mig“ (Abr 3:27; sjá einnig HDP Móse 4:1–4).
Jesús var fús til að koma til jarðar, gefa líf sitt fyrir okkur og taka á sig syndir okkar. Hann, eins og himneskur faðir, vildi að við veldum hvort við mundum hlýða boðorðum himnesks föður. Hann vissi að við yrðum að vera frjáls til þess að sanna hvort við værum verðug upphafningar. Jesús sagði: „Faðir, verði þinn vilji og þín sé dýrðin að eilífu“ (HDP Móse 4:2).
Satan, sem var kallaður Lúsífer, kom einnig og sagði: „Sjá, hér er ég, send mig, ég mun vera sonur þinn og ég mun endurleysa allt mannkyn, svo að ekki glatist ein sál, og vissulega mun ég gjöra það. Veit mér þess vegna heiður þinn“ (HDP Móse 4:1). Satan vildi þvinga okkur öll til að gjöra vilja sinn. Undir hans áætlun hefðum við ekki haft leyfi til að velja. Hann hefði afnumið það valfrelsi sem faðir okkar hafði gefið okkur. Satan vildi hljóta allan heiðurinn af sáluhjálp okkar. Samkvæmt hans skilmálum hefði tilgangur okkar með því að koma til jarðar orðið að engu (sjá Teachings of Presidents of the Church: David O. McKay [2003], 207).
Jesús Kristur varð okkar útvaldi leiðtogi og frelsari
-
Þegar þið lesið þennan hluta, hugsið þá um tilfinningar þær sem þið berið til frelsarans.
Eftir að hafa hlýtt á báða synina tala sagði himneskur faðir: „Ég mun senda þann fyrsta“ (Abr 3:27).
Jesús Kristur varð fyrir valinu og forvígður til að verða frelsari okkar. Margar ritningargreinar segja frá þessu (sjá, til dæmis, 1 Pét 1:19–20; HDP Móse 4:1–2). Ein ritningargrein segir okkur, að löngu áður en Jesús fæddist, hafi hann birst spámanni í Mormónsbók, þekktum sem bróðir Jareds, og sagt: „Sjá. Ég er sá sem fyrirbúinn var frá grundvöllun veraldar til að endurleysa fólk mitt. Sjá. Ég er Jesús Kristur. … Í mér mun allt mannkyn eiga líf og það eilíflega, já, þeir sem á nafn mitt munu trúa“ (Eter 3:14).
Þegar Jesús lifði á jörðu, kenndi hann: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig. … Því sá er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf, og ég mun reisa hann upp á efsta degi“ (Jóh 6:38, 40).
Stríðið á himni
Himneskur faðir valdi Jesú Krist til að vera frelsari okkar og því varð Satan reiður og gerði uppreisn. Það varð stríð á himni. Satan og fylgjendur hans börðust gegn Jesú Kristi og fylgjendum hans. Fylgjendur frelsarans sigruðu [Satan] „fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns“ (Op 12:11).
Í þessari miklu uppreisn var Satan og öllum þeim öndum sem fylgdu honum vísað úr návist Guðs og þeim varpað niður af himni. Þriðjungi herskara himna var refsað fyrir að fylgja Satan (sjá K&S 29:36). Þeim var neitað um þann rétt að meðtaka dauðlegan líkama.
Vegna þess að við erum hér á jörðu og höfum dauðlegan líkama, vitum við að við völdum að fylgja Jesú Kristi og okkar himneska föður. Satan og fylgjendur hans eru líka á jörðinni, en sem andar. Þeir hafa ekki gleymt hver við erum og þeir eru umhverfis okkur daglega, freista okkar og lokka okkur til að gera það sem ekki er himneskum föður okkar að skapi. Í lífi okkar í fortilverunni kusum við að fylgja Jesú Kristi og samþykkja áætlun Guðs. Við verðum að halda áfram að fylgja Jesú Kristi hér á jörðu. Aðeins með því að fylgja honum getum við horfið aftur til okkar himneska heimilis.
-
Með hvaða hætti heldur stríðið á himni áfram í dag?
Við höfum kenningar frelsarans til að fylgja
-
Hugleiðið hvaða áhrif kenningar frelsarans hafa haft á ykkur.
Allt frá upphafi hefur Jesús Kristur opinberað fagnaðarerindið, sem segir okkur hvað við verðum að gera til að komast aftur til himnesks föður. Á tilætluðum tíma kom hann sjálfur til jarðar. Hann kenndi sáluhjálparáætlunina og upphafningu með orði sínu og með lífi sínu. Hann stofnsetti kirkju sína og prestdæmi sitt á jörðu. Hann tók syndir okkar á sig.
Með því að fylgja kenningum hans getum við erft stað í himneska ríkinu. Hann gerði sinn hlut til að hjálpa okkur að komast aftur til okkar himneska heimilis. Það er nú undir hverju og einu okkar komið að gera okkar hlut og reynast verðug upphafningar.
Viðbótarritningargreinar
-
HDP Móse 4:1–4; Abr 3:22–28 (frelsari valinn í fortilverunni)
-
K&S 76:25–29 (stríð á himnum)
-
Op 12:7–9, 11 (fylgjendur frelsarans í stríðinu á himni sigruðu Satan fyrir blóð lambsins og með orði vitnisburðar síns)
-
Jes 14:12–15 (hvers vegna Lúsífer var varpað niður)