Bækur og lexíur
Kafli 39: Skírlífislögmálið


Kafli 39

Skírlífislögmálið

Holding hands of a newly married couple.

Til foreldra

Í þessum kafla er ýmislegt sem er ofar skilningi ungra barna. Því er best að bíða með að kenna börnum það, uns þau eru nógu gömul til að skilja kynlíf og getnað. Kirkjuleiðtogar okkar hafa sagt að það sé ábyrgð okkar foreldranna að fræða börn okkar um getnað (hvernig getnaður og fæðing barns verður). Foreldrar verða einnig að kenna þeim skírlífislögmálið, sem útskýrt er í þessum kafla.

Foreldrar geta kennt börnum sínum rétt viðhorf gagnvart líkama sínum strax á unga aldri þeirra. Ef þeir tala hreinskilnislega við börn sín, með lotningu, og nota rétt orð yfir líkamshluta og starfsemi líkamans, munu þau vaxa upp án ónauðsynlegrar feimni varðandi líkama sinn.

Börn eru í eðli sínu forvitin. Þau vilja vita hvernig líkami þeirra starfar. Þau vilja vita hvaðan börnin koma. Ef foreldrar svara öllum slíkum spurningum samstundis og greinilega, þannig að þau skilji, munu þau áfram koma til þeirra með spurningar sínar. Ef foreldrar svara þeim aftur á móti þannig að þau fari hjá sér, fái ekki fullnægjandi svar eða jafnvel alls ekkert, munu þau sennilega leita annað með spurningar sínar og fá ef til vill ranghugmyndir og rangt viðhorf.

Hins vegar er ekki viturlegt eða nauðsynlegt að segja börnum frá öllu þegar í stað. Foreldrar þurfa einungis að veita börnunum þær upplýsingar sem þau hafa spurt um og geta skilið. Á sama tíma og foreldrar svara þessum spurningum geta þeir kennt börnum mikilvægi þess að bera virðingu fyrir eigin líkama og líkama annarra. Foreldrar ættu að kenna börnum að klæðast siðsamlega. Þeir ættu að leiðrétta ranghugmyndir og óheflaðan talsmáta sem börnin læra af öðrum.

Þegar börnin ná þroska ættu foreldrar að ræða hreinskilnislega við þau um getnað. Börnin ættu að vita að sá kraftur er góður og gefinn okkur af Drottni. Hann ætlar okkur aðeins að nota hann innan þeirra marka sem hann hefur sett.

Lítil börn koma til okkar hrein og saklaus frá himneskum föður. Foreldrar ættu að biðja um leiðsögn og Drottinn mun hjálpa þeim að kenna börnum sínum á réttan hátt og réttum tíma.

Getnaðarkrafturinn

  • Hvers vegna ættu foreldrar að fræða börn sín um getnað og skírlífi? Hvernig geta þau gert það á réttan hátt?

Guð bauð öllu sem lifir að fjölga sér, hverju eftir sinni tegund (sjá 1 Mós 1:22). Tímgun var liður í áætlun hans, svo að tilvera alls lífs gæti haldið áfram á jörðu.

Þar næst setti hann Adam og Evu á jörðu. Þau voru ólík öðrum sköpunarverkum hans, því að þau voru andabörn hans sjálfs. Guð gaf Adam og Evu saman í aldingarðinum Eden og bauð þeim að margfaldast og uppfylla jörðina (sjá 1 Mós 1:28). Líf þeirra átti þó að stjórnast af siðferðislögmálum frekar en hvötum.

Guð vildi að andabörn sín fæddust inn í fjölskyldur, svo að þau hlytu rétta umönnun og fræðslu. Við, eins og Adam og Eva, eigum að sjá þessum andabörnum fyrir efnislíkama með kynæxlun. Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin hafa sagt: „Við lýsum því yfir að leiðin til sköpunar jarðlífsins sé guðlega tilnefnd“ („Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Vonarstjarnan, júní 1996, 10). Guð hefur boðið, að aðeins innan hjónabandsins eigi kynlíf að tíðkast. Það boðorð nefnist skírlífislögmálið.

Skírlífislögmálið

  • Hvað er skírlífislögmálið?

Við eigum aðeins að hafa kynmök við löglega vígðan maka okkar. Enginn, hvorki karl né kona, á að hafa kynmök fyrir giftingu. Eftir giftingu eru kynmök aðeins leyfileg við eigin maka.

Drottinn sagði við Ísraelsmenn: „Þú skalt ekki drýgja hór“ (2 Mós 20:14). Ísraelsmönnum sem brutu það boðorð var stranglega refsað. Drottinn hefur endurtekið þetta boðorð á síðari dögum (sjá K&S 42:24).

Okkur hefur verið kennt að skírlífislögmálið nái yfir fleira en aðeins kynmök. Æðsta forsætisráðið varaði unga fólkið við öðrum kynlífssyndum:

„Gerið ekkert sem leyst getur úr læðingi þær sterku tilfinningar sem aðeins má gefa sig á vald innan vébanda hjónabands. Fallið ekki í þá freistni að faðmast og kyssast ástríðuþrungið, liggja þétt upp við hvort annað eða snerta líkama hvors annars á óviðurkvæmilegum stöðum, hvort heldur utan eða innan klæða. Leyfið engum að gera slíkt við ykkur. Leysið slíkar sterkar tilfinningar ekki úr læðingi líkama ykkar“ (Til styrktar æskunni [bæklingur, 2001], 27).

Eins og önnur brot á skírlífislögmálinu eru samkynhneigðar athafnir alvarleg synd. Síðari daga spámenn hafa talað um hættuna af samkynhneigðum athöfnum og um umhyggju kirkjunnar fyrir þeim sem hafa slíkar tilhneigingar. Gordon B. Hinckley forseti sagði:

„Í fyrsta lagi trúum við að hjónaband milli karls og konu sé vígt af Guði. Við trúum að hjónaband geti verið eilíft sé það framkvæmt með krafti hins ævarandi prestdæmis í húsi Drottins.

Fólk spyr um afstöðu okkar til þeirra sem líta á sjálfa sig sem svokallaða homma og lesbíur. Viðbrögð mín eru þau að við elskum þau sem syni og dætur Guðs. Þau kunna að búa yfir ákveðnum tilhneigingum sem eru kraftmiklar og sem erfitt kann að vera að halda í skefjum. Flest fólk hefur tilhneigingar af einu tagi eða öðru á mismunandi tímaskeiðum. Ef það framkvæmir ekkert byggt á þessum tilhneigingum, geta þau haldið áfram eins og allir aðrir kirkjuþegnar gera. Ef þau brjóta skírlífislögmálið og siðferðisstaðla kirkjunnar, eru þau undir ögun kirkjunnar sett, rétt eins og aðrir.

Við viljum hjálpa þessu fólki, styrkja það, aðstoða það í vandamálum þess og hjálpa því í erfiðleikum þess. En við getum ekki litið fram hjá því, ef það tekur þátt í siðlausu athæfi, ef það reynir að viðhalda og verja og lifa í svo kölluðum samkyns samböndum. Að leyfa slíkt mundi vera að gera lítið úr hinum mjög alvarlega og helga grunni hins af Guði helgaða hjónabands og raunverulegum tilgangi þess að ala upp fjölskyldur“ (í Conference Report, okt. 1998, 91; eða Ensign, nóv. 1998, 71).

Satan vill að við brjótum skírlífislögmálið

  • Á hvern hátt freistar Satan fólks til að brjóta skírlífislögmálið?

Áætlun Satans er að tæla eins mörg okkar og hann mögulega getur og koma í veg fyrir að við komumst aftur til himnesks föður. Eitt það skaðlegasta sem hann getur gert er að tæla okkur til að brjóta skírlífislögmálið. Hann er slóttugur og máttugur. Hann vill telja okkur trú um að ekki sé synd að brjóta þetta lögmál. Margir hafa látið blekkjast. Við verðum að vera á verði gegn illum áhrifum.

Satan ræðst á siðgæðismælikvarða okkar. Hann notfærir sér að líkamar okkar eru fagrir og telur okkur þar af leiðandi trú um að eðlilegt sé að sýna þá og láta dást að þeim. Himneskur faðir vill að við hyljum líkama okkar, svo að við vekjum ekki rangar hugsanir hjá öðrum.

Satan hvetur okkur ekki aðeins til að klæðast ósiðlega, hann hvetur okkur einnig til ósiðsamra og rangra hugsana. Það gerir hann með myndum, kvikmyndum, sögum, alls kyns bröndurum, tónlist og dönsum, sem höfða til siðlausra athafna. Skírlífislögmálið krefst þess að hugsanir okkar séu hreinar jafnt og gerðir okkar. Spámaðurinn Alma sagði, að þegar Guð dæmi okkur „munu hugsanir vorar einnig dæma oss, og í þessu skelfilega ástandi munum vér ekki dirfast að líta upp til Guðs vors“ (Al 12:14).

Jesús kenndi: „Þér hafið heyrt að sagt var: ‘Þú skalt ekki drýgja hór.’

En ég segi yður: Hver sem horfir á konu með girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu“ (Matt 5:27–28).

Gordon B. Hinckley varaði við: „Þið lifið í heimi ógnvænlegra freistinga. Klám, með sinn lítt hjúpaða sora, breiðist út um jörðina eins og hræðileg, umlykjandi flóðbylgja. Það er eitur. Horfið ekki á það eða lesið það. Það mun eyðileggja ykkur ef þið gerið það. Það mun taka frá ykkur sjálfsvirðinguna. Það mun ræna ykkur tilfinningunni fyrir fegurð lífsins. Það mun draga ykkur niður og ýta ykkur út í feril illra hugsana og mögulega illra gjörða. Forðist það. Forðist það eins og illa pest, því það er jafn banvænt og pestin. Verið dyggðug í hugsun og gjörðum. Guð hefur sett í ykkur, í ákveðnum tilgangi, guðlega þörf sem auðveldlega er hægt að umturna til illra og eyðileggjandi áhrifa. Verið ekki í föstu sambandi á unga aldri. Þegar þið komist á giftingaraldur, þá er það tímabært. En þið piltar í miðskóla þarfnist þess ekki, né heldur stúlkur“ (í Conference Report, okt. 1997, 71–72; eða Ensign, nóv. 1997, 51).

Satan nýtir sér stundum tilfinningarnar til að freista okkar. Hann veit þegar við erum einmana, ráðvillt eða niðurbeygð. Hann notar sér þessar veiku stundir og reynir þá að fá okkur til að brjóta skírlífislögmálið. Himneskur faðir getur gefið okkur styrk til þess að komast skaðlaust yfir þær raunastundir.

Ritningin segir okkur frá mjög réttlátum, ungum manni að nafni Jósef, sem naut fyllsta trausts húsbónda síns, Pótifars. Pótifar hafði falið Jósef stjórn á öllu sem hann átti. Eiginkona Pótifars girntist Jósef og freistaði hans til að drýgja hór með sér. Jósef stóðst hana og flúði frá henni (sjá 1 Mós 39:1–18).

Páll kenndi: „Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um að þér fáið staðist“ (1 Kor 10:13). Alma lagði áherslu á að þið „freistist ekki um megn fram“ þegar þið „auðmýkið [ykkur] fyrir Drottni og ákallið hans heilaga nafn, vakið og biðjið án afláts“ (Al 13:28).

  • Hver er skyldleikinn með hófsemi og skírlífi? Hvernig geta foreldrar kennt börnum sínum að vera hófsöm í klæðaburði, málfari og framkomu?

  • Hvernig getum við barist gegn útbreiðslu og áhrifum kláms?

  • Hvaða loforð hefur Drottinn gefið okkur til að hjálpa okkur að sigrast á freistingum Satans?

Brot á skírlífislögmálinu er mjög alvarlegt

Spámaðurinn Alma var harmi sleginn vegna þess að einn sona hans hafði brotið skírlífislögmálið. Alma sagði við son sinn, Kóríanton: „Veistu ekki, sonur minn, að þetta er viðurstyggð í augum Drottins? Já, synd, sem er öllum öðrum syndum viðurstyggilegri að því undanskildu að úthella saklausu blóði eða afneita heilögum anda“ (Al 39:5). Skírlífisbrot gengur næst morði hvað alvöru varðar.

Ef brot á skírlífislögmálinu leiðir til getnaðar, kunna hin seku að freistast til þess að drýgja aðra viðurstyggilega synd, fóstureyðingu. Sjaldan er til afsökun fyrir fóstureyðingu. Kirkjuleiðtogar hafa sagt að nokkrar sérstakar aðstæður geti réttlætt fóstureyðingu, svo sem þegar þungun er afleiðing sifjaspells eða nauðgunar, þegar líf eða heilsa móður er að dómi sérfróðra lækna í alvarlegri hættu, eða þegar fóstrið er að mati sérfróðra lækna alvarlega vanskapað svo að það mun vart lifa af fæðinguna. En jafnvel þessar aðstæður réttlæta ekki sjálfkrafa fóstureyðingu. Jafnvel við þessar aðstæður ætti fólk aðeins að íhuga fóstureyðingu eftir að hafa ráðfært sig við aðra, m.a. biskup sinn eða greinarforseta, og eftir að fengist hefur staðfesting í bæn.

„Þegar karl getur konu barn utan hjónabands, ætti að leggja fulla áherslu á að þau giftist. Þegar líkur á góðu hjónabandi eru litlar vegna aldurs eða annarra aðstæðna, ætti að ráðleggja ógiftum foreldrum að koma barninu í fóstur hjá LDS Family Services til að tryggja að barnið verði innsiglað musteris-verðugum foreldrum“ (Bréf Æðsta forsætisráðsins, 26. júní 2002, og 19. júlí 2002).

Afar mikilvægt er í augum himnesks föður að börn hans hlýði skírlífislögmálinu. Kirkjuþegnar, sem brjóta það lögmál, eða hafa áhrif á aðra til að gera það, kunna að þurfa að sæta kirkjuögun.

Þeir sem brjóta skírlífislögmálið geta fengið fyrirgefningu

Þeir sem brjóta skírlífislögmálið geta öðlast frið. Drottinn segir: „Ef hinn óguðlegi hverfur frá öllum syndum sínum, sem hann hefir drýgt, og heldur öll mín boðorð, … [skulu] öll hans afbrot, sem hann hefir drýgt, honum eigi tilreiknuð verða“ (Esek 18:21–22). Friður fæst aðeins með fyrirgefningu.

Kimball forseti sagði: „Skilyrði eru bundin hverri fyrirgefningu. … Fastan, bænirnar, auðmýktin þurfa hið minnsta að jafnast á við syndina. Það verður að vera sundurkramið hjarta og sáriðrandi andi. … Það verður að vera táraflóð og ósvikin umbreyting hjartans. Viðurkenna verður syndina, láta verður af hinu illa, játa verður villuna fyrir rétt tilnefndum valdhöfum Drottins“ (The Miracle of Forgiveness [1969], 353).

Mörgum er játningin erfiðasti hluti iðrunarinnar. Við verðum ekki aðeins að játa fyrir Drottni, heldur einnig þeim sem við höfum brotið gegn, t.d. eiginmanni eða eiginkonu, og einnig fyrir réttum prestdæmisvaldhafa. Prestdæmisleiðtoginn (biskup eða stikuforseti) mun dæma um stöðu okkar í kirkjunni. Drottinn sagði við Alma: „[Hverjum þeim], sem brýtur gegn mér … játi hann syndir sínar fyrir þér og mér og iðrist af hjartans einlægni, skalt þú fyrirgefa honum, og ég mun einnig fyrirgefa honum“ (Mósía 26:29).

En Kimball forseti varar okkur við: „Jafnvel þótt fyrirgefningu sé svo fúslega lofað, er ekkert loforð að finna né bending um fyrirgefningu fyrir nokkra sál, sem ekki iðrast fullkomlega. … Við getum varla lagt of mikla áherslu á áminningar til fólks um, að það getur ekki syndgað og fengið fyrirgefningu og síðan syndgað aftur og aftur og ætlast til fyrirgefningar“ (The Miracle of Forgiveness, 353, 360). Þeir sem fá fyrirgefningu en endurtaka síðan syndina, eru gerðir ábyrgir fyrir fyrri syndir sínar (sjá K&S 82:7; Eter 2:15).

Þeir sem halda skírlífislögmálið hljóta miklar blessanir

  • Hvaða blessanir hljótum við þegar við höldum skírlífislögmálið?

Þegar við hlýðum skírlífislögmálinu getum við lifað án sektar eða smánar. Við og börn okkar hljótum blessun þegar við höldum okkur hreinum og flekklausum frammi fyrir Drottni. Börnin geta séð fordæmi okkar og fylgt í fótspor okkar.

Viðbótarritningargreinar