Bækur og lexíur
Kafli 12: Friðþægingin


Kafli 12

Friðþægingin

Ljósmynd
Jesus Christ depicted leaning on a rock in the Garden of Gethsemane. The image depicts the Atonement of Christ.

Friðþægingin er nauðsynleg fyrir sáluhjálp okkar

  • Hvers vegna er friðþægingin nauðsynleg fyrir sáluhjálp okkar?

Jesús Kristur „kom í heiminn til þess að vera krossfestur fyrir heiminn, og til að bera syndir heimsins, og til að helga heiminn, og til að hreinsa hann af öllu ranglæti. Svo að fyrir hann gætu allir frelsast“ (K&S 76:41–42). Hin mikla fórn sem hann færði til að greiða fyrir syndir okkar og sigra dauðann nefnist friðþægingin. Hún er þýðingarmesti atburðurinn sem nokkru sinni hefur átt sér stað í mannkynssögunni: „Því að nauðsynlegt er að friðþæging verði gjörð, því að samkvæmt hinum miklu áformum eilífs Guðs verður friðþæging að eiga sér stað, því að annars hlýtur allt mannkyn óhjákvæmilega að farast. Já, allir eru fallnir og glataðir og hljóta að farast án friðþægingar, sem nauðsynlegt er að eigi sér stað“ (Al 34:9).

Fall Adams og Evu færði tvenns konar dauða inn í heiminn: líkamlegan og andlegan dauða. Líkamlegur dauði er aðskilnaður líkama og anda. Andlegur dauði er aðskilnaður frá Guði. Ef friðþæging Jesú hefði ekki sigrað þetta hvort tveggja, hefðu afleiðingarnar orðið tvenns konar: Líkami okkar og andi hefðu orðið aðskilin að eilífu og við hefðum ekki getað lifað aftur hjá himneskum föður (sjá 2 Ne 9:7–9).

En vitur himneskur faðir fyrirbjó undursamlega og miskunnarfulla áætlun, sem frelsa átti okkur bæði frá líkamlegum og andlegum dauða. Hann gerði áætlun um að frelsari kæmi til jarðar til að friðþægja fyrir syndir okkar (leysa okkur frá þeim) og frá dauða. Vegna synda okkar og veikleika dauðlegs líkama gátum við ekki leyst okkur sjálf frá syndum og dauða (sjá Al 34:10–12). Verðandi frelsari okkar varð að vera syndlaus og hafa vald yfir dauðanum.

Jesús Kristur var sá eini sem gat friðþægt fyrir syndir okkar

  • Hvers vegna var Jesús Kristur sá eini sem gat friðþægt fyrir syndir okkar?

Margar ástæður eru fyrir því að Jesús Kristur var sá eini sem gat orðið frelsari okkar. Ein ástæðan er sú, að himneskur faðir valdi hann til þess. Hann var eingetinn sonur Guðs og hafði því vald yfir dauðanum. Jesús útskýrði: „Ég legg líf mitt í sölurnar, svo að ég fái það aftur. Enginn tekur það frá mér, heldur legg ég það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur“ (Jóh 10:17–18).

Jesús var einnig hæfur til að vera frelsari okkar vegna þess að hann var sá eini sem nokkru sinni hafði lifað á jörðu og aldrei syndgað. Það gerði hann að verðugri fórn til að gjalda fyrir syndir annarra.

Kristur þjáðist og dó til að friðþægja fyrir syndir okkar

  • Þegar þið lesið þennan hluta, ímyndið ykkur þá að þið væruð í garðinum Getsemane eða við krossinn og yrðuð vitni að þjáningu Jesú Krists.

Frelsarinn friðþægði fyrir syndir okkar með þjáningum sínum í Getsemane og með því að fórna lífi sínu á krossinum. Okkur er útilokað að skilja til fulls hve Kristur þjáðist fyrir allar okkar syndir. Í garðinum Getsemane olli þungi synda okkar honum slíkri kvöl og hjartans þjáningu, að blæddi úr hverri svitaholu (sjá K&S 19:18–19). Síðar, þegar Jesús hékk á krossinum, leið hann kvalafullan dauða á einhvern þann grimmilegasta hátt sem til er.

Hversu mikið Jesús hlýtur að elska okkur, fyrst hann þoldi slíka andlega og líkamlega kvöl okkar vegna! Hversu mikil hlýtur elska himnesks föður að vera fyrst hann sendi sinn eingetna son til að þjást og deyja fyrir öll önnur börn sín. „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf“ (Jóh 3:16).

Friðþægingin og upprisan færa öllum upprisu

Á þriðja degi eftir krossfestinguna tók Kristur líkama sinn aftur og varð því fyrstur til að rísa upp frá dauðum. Þegar vinir hans leituðu hans, sögðu englar sem gættu grafarinnar: „Hann er ekki hér, hann er upp risinn, eins og hann sagði“ (Matt 28:6). Andi hans hafði aftur sameinast líkama hans og varð aldrei frá honum skilinn aftur.

Kristur sigraði þannig líkamlegan dauða. Vegna friðþægingar hans munu allir sem fæðast á þessari jörð rísa upp (sjá 1 Kor 15:21–22). Á sama hátt og Jesús reis upp munu andar okkar sameinast líkamanum, „þannig að þeir geta ekki dáið“ … , og verða aldrei framar sundur skildir“ (Al 11:45). Það ástand kallast ódauðleiki. Allir menn sem lifað hafa munu rísa upp, „aldnir sem ungir, ánauðugir sem frjálsir, karlar sem konur, ranglátir sem réttlátir“ (Al 11:44).

  • Hvernig hefur þekking ykkar á upprisunni hjálpað ykkur?

Friðþægingin gerir þeim sem trúa á Krist mögulegt að frelsast frá syndum sínum

  • Hugsið um hvernig dæmisagan í þessum hluta hjálpar okkur að skilja friðþæginguna. Hverja í lífi okkar táknar fólkið í dæmisögunni?

Friðþæging frelsarans gerir okkur mögulegt að sigrast á andlegum dauða. Þótt allir menn muni rísa upp í líkama af holdi og beinum, munu aðeins þeir sem taka á móti friðþægingu Krists frelsast frá andlegum dauða (sjá TA 1:3).

Við tökum á móti friðþægingu Krists með því að trúa á hann. Með þeirri trú iðrumst við synda okkar, erum skírð, meðtökum heilagan anda og hlýðum boðorðum hans. Við gerumst trúfastir lærisveinar Jesú Krists. Við hljótum fyrirgefningu, verðum hreinsuð af synd og undir það búin að snúa aftur til himnesks föður og lifa hjá honum að eilífu.

Frelsarinn segir okkur: „Því að sjá, ég, Guð, hef þolað þetta fyrir alla, svo að þeir þurfi ekki að þjást eins og ég“ (K&S 19:16-17). Kristur gerði sinn hluta til fyrirgefningar synda okkar. Til að friðþægingar hans gæti til fulls í lífi okkar, verðum við að kappkosta að hlýða honum og iðrast synda okkar.

Boyd K. Packer, forseti í Tólfpostulasveitinni, sýndi á eftirfarandi hátt hvernig friðþæging Krists gerir okkur mögulegt að frelsast frá synd ef við gerum okkar hluta.

„Leyfið mér að segja ykkur sögu – dæmisögu.

Einu sinni var maður sem þráði eitthvað mjög heitt. Það virtist mikilvægara en nokkuð annað í lífi hans. Við að eignast það komst hann í mikla skuld.

Hann hafði verið varaður við að stofna til svo mikillar skuldar og sérstaklega við lánardrottninum. En það virtist honum svo mikilvægt að gera það sem hann vildi gera og fá það sem hann vildi fá þegar í stað. Hann var viss um að hann gæti borgað það seinna.

Hann undirritaði því samning. Hann mundi greiða skuldina einhvern tíma síðar meir. Hann hafði ekki af því miklar áhyggjur, gjalddaginn virtist langt undan. Hann átti það sem hann langaði í og það virtist skipta mestu máli.

Lánardrottinn hans var samt alltaf einhvers staðar í hugarfylgsnum hans og hann sýndi lit með því að greiða af og til, en virtist þó telja að dagur reikningsskila mundi í raun aldrei renna upp.

En dagurinn kom, eins og alltaf verður, og samningurinn féll allur í gjalddaga. Skuldin hafði ekki verið greidd að fullu. Lánardrottinn hans birtist og krafðist fullrar greiðslu.

Ekki fyrr en þá varð honum ljóst að lánardrottinn hans gat ekki aðeins náð eignarhaldi á öllum eigum hans, heldur gat hann líka látið varpa honum í fangelsi.

‘Ég get ekki borgað þér, ég á ekki fyrir því’ viðurkenndi hann.

‘Þá förum við eftir samningnum,’ sagði lánardrottinn hans, ‘tökum eigur þínar og þú ferð í fangelsi. Þú samþykktir það. Það var þín ákvörðun. Þú undirritaðir samninginn og nú verður honum fullnægt.’

‘Geturðu ekki framlengt hann eða gefið mér upp skuldina?’ spurði skuldunauturinn bænarrómi. ‘Komið því einhvern veginn svo fyrir að ég geti haldið því sem ég á og þurfi ekki að fara í fangelsi? Þú hlýtur að hafa trú á miskunn. Viltu ekki sýna miskunnsemi?’

Lánardrottinn svaraði: ‘Miskunn er alltaf einhliða. Hún mundi aðeins þjóna þér. Ef ég sýni þér miskunn fæ ég enga greiðslu. Ég krefst réttlætis. Trúir þú á réttlæti?’

‘Ég hafði trú á réttlætinu þegar ég undirritaði samninginn,’ sagði skuldunauturinn. ‘Það var mín megin þá, því að ég hélt að það mundi vernda mig. Ég þurfti ekki á miskunnsemi að halda þá, né taldi að ég þyrfti hennar nokkru sinni með. Réttlætið taldi ég að mundi þjóna okkur báðum jafnt.’

‘Það er réttlætið sem krefst þess að þú greiðir samninginn eða takir afleiðingunum ella,’ svaraði lánardrottinn hans. Þannig eru lögin. Þú hefur samþykkt það og þannig verður það að vera. Miskunnsemin getur ekki rænt réttvísina.’

Þannig stóðu þeir: Annar hélt fram réttlætinu, hinn bað um miskunn. Hvorugur gat sigrað nema á kostnað hins.

‘Ef þú getur ekki gefið upp skuldina er um enga miskunn að ræða,’ sagði skuldunauturinn.

‘Ef ég geri það er ekki um neitt réttlæti að ræða,’ var svarið.

Svo virtist sem hvorugu lögmálinu væri hægt að þjóna. Þar er um tvær eilífar hugmyndir að ræða, sem virðast í andstöðu hvor við aðra. Er engin leið til að þjóna réttlætinu að fullu og jafnframt sýna miskunn?

Til er leið! Hægt er að uppfylla réttlætislögmálið algerlega og einnig auðsýna fulla miskunn – en til þess þarf þriðja aðilann. Og það gerðist í þessu tilviki.

Skuldunauturinn átti vin. Hann kom til hjálpar. Hann þekkti skuldunautinn vel. Hann vissi að hann var skammsýnn. Hann taldi hann hafa hagað sér heimskulega með því að koma sér í slíkar ógöngur. Engu að síður vildi hann hjálpa honum, því honum þótti mjög vænt um hann. Hann gerðist málamiðlari, sneri sér að lánadrottninum og bar fram þetta boð.

‘Ég skal greiða skuldina, ef þú vilt leysa skuldunaut þinn undan samningnum, svo að hann geti haldið eigum sínum og losnað við fangelsi.’

Meðan skuldareigandinn hugleiddi boðið, bætti málamiðlarinn við: ‘Þú krafðist réttlætis. Þó að hann geti ekki borgað, mun ég gera það. Þá hefur þú notið réttlætis og getur ekki farið fram á meira. Það væri ekki réttlátt.’

Lánardrottinn samþykkti.

Málamiðlarinn sneri sér þá að skuldaranum. ‘Ef ég greiði skuld þína viltu þá viðurkenna mig sem lánardrottinn þinn?’

‘Ó já, já,’ hrópaði skuldnauturinn. ‘Þú bjargar mér frá fangelsi og sýnir mér miskunn.’

‘Þá munt þú greiða mér skuldina og ég set fram skilmálana,’ sagði góðgerðarmaðurinn. ‘Það verður ekki auðvelt, en það er hægt. Ég mun sjá þér fyrir leið til þess. Þú þarft ekki að fara í fangelsi.’

Og þannig fékk skuldareigandinn greitt að fullu. Hann naut réttlætis. Enginn samningur hafði verið rofinn.

Jafnframt hafði skuldunautnum verið sýnd miskunn. Báðum lögmálunum var fullnægt. Vegna málamiðlarans hafði réttlætinu verið fullnægt, og miskunnsemin samt náð fram að ganga“ (í Conference Report, apr. 1977, 79–80; eða Ensign, maí 1977, 54–55).

Syndir okkar eru andlegar skuldir. Án Jesú Krists, sem er frelsari okkar og málamiðlari, yrðum við öll að greiða fyrir syndir okkar með andlegum dauða. En vegna hans getum við, ef við höldum skilmála hans um að iðrast og halda boðorðin, komist aftur til himnesks föður og lifað hjá honum.

Það er dásamlegt að Kristur hefur séð okkur fyrir leið til að læknast af syndum okkar. Hann sagði:

„Sjá, ég er kominn í heiminn til þess að … frelsa heiminn frá synd.

Þess vegna mun ég taka við hverjum þeim sem iðrast og kemur til mín sem lítið barn, því að slíkra er Guðs ríki. Sjá, fyrir slíka hef ég fórnað lífi mínu og tekið það aftur. Iðrist því, komið til mín frá endimörkum jarðar og látið frelsast“ (3 Ne 9:21–22).

  • Ígrundið hvernig þið getið sýnt þakklæti fyrir gjöf friðþægingarinnar.

Viðbótarritningargreinar

Prenta