Bækur og lexíur
Kafli 24: Hvíldardagurinn


Kafli 24

Hvíldardagurinn

A congregation gathered in a chapel for sacrament meeting.  They are singing a hymn.

Merking hvíldardagsins

  • Hvað er hvíldardagurinn?

„Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan“ (2 Mós 20:8; sjá einnig K&S 68:29).

Orðið sabbat er hebreskt og merkir hvíld. Fyrir upprisu Jesú Krists, var hvíldardagurinn í minningu hvíldardags Guðs eftir að hann hafði lokið sköpuninni. Hann var tákn fyrir sáttmálann á milli Guðs og lýðs hans. Við lesum í 1. Mósebók að Guð skapaði himin og jörð á sex tímabilum, sem hann kallaði daga: „Guð lauk á hinum sjöunda degi verki sínu, er hann hafði gjört, og hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört. Og Guð blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann“ (1 Mós 2:2–3). Núna er hvíldardagurinn einnig til minningar um upprisu Jesú Krists.

Hvíldardagurinn er sjöunda hvern dag. Hann er helgur dagur, vígður af Guði fyrir okkur til hvíldar frá daglegum önnum og til að tilbiðja Hann.

Tilgangur hvíldardagsins

  • Hvernig munduð þið útskýra tilgang hvíldardagsins fyrir einhverjum sem ekkert veit um hvíldardaginn?

Jesús kenndi að hvíldardagurinn væri mannsins vegna (sjá Mark 2:27). Tilgangurinn með hvíldardeginum er að gefa okkur ákveðinn dag vikunnar til að beina hugsunum okkar og gjörðum að Guði. Hann er ekki einungis til hvíldar frá störfum. Hann er helgur dagur, sem verja á til tilbeiðslu og lotningar. Þegar við hvílumst frá venjubundnum daglegum störfum, verður hugur okkar opinn fyrir andlegum efnum. Á þeim degi ættum við að endurnýja sáttmála okkar við Drottin og næra sálir okkar með því sem andlegt er.

  • Hugleiðið hvað þið getið gert til að hafa tilgang hvíldardagsins í huga þegar þið búið ykkur undir hann í hverri viku.

Saga hvíldardagsins

Sjöundi dagurinn var helgaður af Guði sem hvíldardagur allt frá upphafi jarðar (sjá 1 Mós 2:2–3). Frá fyrstu tíð hafa ýmsir íbúar jarðar viðhaldið þeim sið, að halda sjöunda daginn heilagan. Guð ítrekaði boðorðið um þennan dag fyrir Ísraelsmönnum og sagði: „Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan“ (2 Mós 20:8). Helgun hvíldardagsins var einnig tákn um að Ísraelsmenn væru sáttmálslýður hans (sjá 2 Mós 31:12–13, 16; Jes 56:1–8; Jer 17:19–27).

Sumir leiðtogar Ísraelsmanna settu þó margar ónauðsynlegar reglur varðandi hvíldardaginn. Þeir ákváðu hve langt fólk mætti ganga, hvers konar hnúta það mætti binda og svo framvegis. Þegar nokkrir leiðtogar gagnrýndu Jesú Krist fyrir að lækna sjúka á hvíldardegi, minnti Jesús þá á, að hvíldardagurinn væri til mannsins vegna.

Nefítar í Vesturheimi virtu einnig hvíldardaginn í samræmi við boðorð Guðs (sjá Jarom 1:5).

Nú á tímum hefur Drottinn endurtekið boðorð sitt um að við skulum minnast hvíldardagsins og halda hann heilagan (sjá K&S 68:29).

Dagur Drottins

  • Hvers vegna var hvíldardagurinn færður af sjöunda degi yfir á fyrsta dag?

Fram að upprisu Jesú Krists virtu hann og lærisveinar hans sjöunda dag vikunnar sem hvíldardag. Eftir upprisu hans var sunnudagurinn helgaður sem dagur Drottins í minningu um upprisu hans á þeim degi (sjá Post 20:7; 1 Kor 16:2). Upp frá því hafa fylgjendur hans tilnefnt fyrsta dag vikunnar sem hvíldardag sinn. Í báðum tilvikum eru sex dagar til starfa og einn til hvíldar og helgunar.

Á síðari tímum hefur Drottinn gefið okkur ákveðið boðorð um að heiðra sunnudaginn, dag Drottins, sem hvíldardag okkar (sjá K&S 59:12).

  • Hvernig getur minning okkar um upprisuna haft áhrif á tilbeiðslu okkar á hvíldardeginum?

Halda hvíldardaginn heilagan

  • Hvað merkir það að halda hvíldardaginn heilagan?

Í fyrsta lagi biður Drottinn okkur að helga hvíldardaginn. Í opinberun til Josephs Smith 1831 bauð Drottinn hinum heilögu að fara í hús bænarinnar og færa sakramenti sín, hvílast frá erfiði sínu og votta hinum æðsta hollustu sína (sjá K&S 59:9–12).

Í öðru lagi biður hann okkur að hvílast frá daglegu starfi. Það táknar að við eigum ekki að vinna neitt það starf sem beinir athygli okkar frá andlegum efnum. Drottinn sagði við Ísraelsmenn: „Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar“ (2 Mós 20:10). Spámenn okkar hafa sagt, að við ættum ekki að versla, veiða, sækja íþróttakeppni eða taka þátt í einhverju þvílíku þann dag.

Spencer W. Kimball forseti hefur samt varað okkur við því, að ef við slæpumst aðeins og gerum ekkert á hvíldardeginum, höldum við hann ekki heilagan. Hvíldardagurinn kallar á uppbyggjandi hugsanir og athafnir. (Sjá Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball [2006], 170.)

Hvað megum við gera á hvíldardegi? Spámaðurinn Jesaja bendir okkur á að hætta að seðja eigin geðþótta og „kalla hvíldardaginn feginsdag, hinn helga dag Drottins heiðursdag“ (Jes 58:13).

Við ættum að hugleiða þá réttlátu hluti sem við getum gert á hvíldardeginum. Við getum til dæmis haldið hvíldardaginn heilagan með því að sækja kirkjusamkomur; lesa í ritningunum og orð kirkjuleiðtoga; vitja sjúkra, aldraðra og ástvina okkar; hlusta á upplyftandi tónlist og syngja sálma; biðja til himnesks föður af tilbeiðslu og þakklæti; sinna kirkjuþjónustu; vinna að ættfræði og eigin sögu; segja trúarstyrkjandi sögur og bera vitnisburð okkar til fjölskyldunnar og deila andlegri reynslu með þeim; skrifa bréf til trúboða og ástvina; fasta í ákveðnum tilgangi og verja tímanum með börnum okkar og öðrum á heimilinu.

Þegar við ákveðum önnur störf á hvíldardeginum ættum við að spyrja okkur sjálf: Mun það byggja mig upp og veita anda mínum innblástur? Ber það vott um virðingu fyrir Drottni? Beinir það huga mínum að honum?

Fyrir getur komið að til þess sé ætlast að við vinnum á hvíldardeginum. Við ættum að forðast það ef mögulegt er, en sé það alger nauðsyn, getum við samt að vissu marki viðhaldið anda og helgi hvíldardagsins í hjarta okkar.

  • Hugsið um eitthvað sem þið getið gert til að bæta viðleitni ykkar til að halda hvíldardaginn heilagan. Ef þið eruð foreldri, afi eða amma, hugsið um eitthvað sem þið getið gert til að hjálpa börnum ykkar eða barnabörnum að skilja merkingu hvíldardagsins.

Blessanir fyrir að virða hvíldardaginn

  • Hverjar eru sumar þær blessanir sem við meðtökum þegar við höldum hvíldardaginn heilagan?

Ef við heiðrum hvíldardaginn, getum við meðtekið miklar andlegar og stundlegar blessanir. Drottinn hefur sagt að ef við höldum hvíldardaginn heilagan með þakklátu geði og glöðu hjarta, munum við fyllast fögnuði. Hann hefur lofað:

„Sem þér gjörið þetta, svo verður fylling jarðarinnar yðar hvort heldur er til fæðu eða klæðis, húss eða hlöðu, til aldingarða, matjurtagarða eða víngarða.

Já, allt sem af jörðu kemur, hvert á sínum þroskatíma, er ætlað manninum til heilla og gagns, bæði til að þóknast auganu og gleðja hjartað –

Já, til fæðu og klæðis, til bragðs og ilms, til að styrkja líkamann og lífga sálina.“ (K&S 59:16–19).

Viðbótarritningargreinar