Bækur og lexíur
Kafli 30: Kærleikur


Kafli 30

Kærleikur

The Good Samaritan holding up a wounded man's head and giving him a drink. A donkey is in the background.

Hvað er kærleikur?

  • Hvernig munduð þið skilgreina kærleika?

Líf frelsarans endurspeglar sanna ást hans til alls mannkyns. Hann gaf jafnvel líf sitt fyrir okkur. Kærleikur er sú hreina ást sem frelsarinn Jesús Kristur ber. Hann hefur boðið okkur að elska hvert annað eins og hann elskar okkur. Ritningarnar segja okkur að kærleikur komi frá hreinu hjarta (sjá 1 Tím 1:5). Við berum hreina ást í brjósti þegar við sýnum öllum systkinum okkar einlæga umhyggju og sú umhyggja kemur beint frá hjartanu.

Kærleikurinn er æðstur allra dyggða

Spámaðurinn Mormón segir okkur: „Haldið þess vegna fast við kærleikann, sem er öllu æðri, því að allt annað hlýtur að falla úr gildi. En kærleikurinn er hin hreina ást Krists og varir að eilífu“ (Moró 7:46–47; sjá einnig 1 Kor 13; 2 Ne 26:30; Moró 7:44–45, 48).

Frelsarinn gaf okkur fordæmi að fylgja með lífi sínu. Hann var sonur Guðs. Hann átti fullkomna ást, og hann sýndi okkur hvernig á að elska. Með fordæmi sínu sýndi hann okkur að andlegar og líkamlegar þarfir meðbræðra okkar eru jafn mikilvægar og okkar eigin. Áður en hann gaf líf sitt fyrir okkur, sagði hann:

„Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.

Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína“ (Jóh 15:12–13).

Moróní sagði við Drottin:

„Ennfremur minnist ég þess, að þú hefur sagt, að þú elskir heiminn, jafnvel svo mjög, að þú fórnir lífi þínu fyrir heiminn. …

Og nú veit ég, að sú elska, sem þú hefur borið til mannanna barna, er kærleikur. Skorti menn þess vegna kærleika, geta þeir ekki erft þann stað, sem þú hefur fyrirbúið þeim í híbýlum föður þíns“ (Eter 12:33–34).

Það verður ef til vill ekki nauðsynlegt fyrir okkur að fórna lífinu eins og frelsarinn gerði. En við getum átt kærleik, ef við gerum frelsarann að kjarna lífs okkar og fylgjum fordæmi hans og kenningum. Eins og frelsarinn, getum við blessað líf bræðra okkar og systra hér á jörðu.

  • Hvers vegna er kærleikurinn æðstur allra dyggða?

Kærleikurinn felur í sér að gefa sjúkum, þjáðum og fátækum

Frelsarinn lét okkur í té margar kenningar í formi sagna og dæmisagna. Dæmisagan um miskunnsama Samverjann kennir okkur, að við eigum að gefa hinum þurfandi, án tillits til þess hvort þeir eru vinir okkar eða ekki (sjá Lúk 10:30–37; sjá einnig James E. Talmage, Jesus the Christ, 3. útg. [1916], 430–32). Í dæmisögunni segir frelsarinn, að maður nokkur var að ferðast til annarrar borgar. Á leiðinni réðust á hann ræningjar. Þeir stálu fötum hans og peningum og börðu hann og skildu síðan eftir hálfdauðan. Prestur kom þar að, sá hann og gekk framhjá. Þar næst bar að Levíta sem leit á hann en hélt sína leið. Samverji nokkur, en þeir voru fyrirlitnir af Gyðingum, kom að og þegar hann sá manninn fann hann til djúprar samúðar (sjá myndina í þessum kafla). Hann kraup við hlið hans, batt um sár hans, tók hann á asna sinn og flutti til gistihúss. Hann greiddi gestgjafanum fyrir umönnun hans þar til honum batnaði.

Jesús kenndi að við ættum að fæða hina hungruðu, veita heimilislausum húsaskjól og klæða hina fátæku. Þegar við vitjum sjúkra og þeirra sem í fangelsi eru, erum við í raun að gera honum það. Hann lofar því, að ef við gerum slíkt, munum við erfa ríki hans. (Sjá Matt 25:34–46.)

Við ættum ekki að reyna að ákveða hvort einhverjir eigi í raun skilið að fá hjálp okkar eða ekki (sjá Mósía 4:16–24). Ef við höfum fyrst séð fyrir þörfum fjölskyldunnar, eigum við að hjálpa öllum þeim sem þarfnast hjálpar. Með þeim hætti munum við líkjast föðurnum, sem lætur regn falla á réttláta sem rangláta (sjá Matt 5:44–45).

Thomas S. Monson forseti minnti okkur á að til eru þeir sem þarfnast fleira en efnislegra gæða:

„Leggjum fyrir okkur sjálf spurningarnar: ‘Hef ég drýgt nokkra göfuga dáð í dag? Hef ég huggað í harmi og nauð?’ [Sálmar, nr. 91]. Hvílík uppskrift að hamingju! Hvílíkur lyfseðill fyrir ánægju, fyrir innri frið – að hafa komið til leiðar þakklæti hjá annari mannlegri veru.

Tækifærin, sem við fáum til að gefa af okkur sjálfum, eru vissulega ótakmörkuð, en þau eru einnig hverful. Til eru hjörtu sem gleðja má. Góð orð sem segja má. Gjafir sem gefa má. Dáðir sem drýgja má. Sálir sem frelsa má“ (í Conference Report, okt. 2001, 72; eða Ensign, nóv. 2001, 60).

  • Hvernig munduð þið lýsa þeim sem gengu framhjá særða manninum í dæmisögunni um miskunnsama Samverjann? Hvernig munduð þið lýsa Samverjanum? Með hvaða hætti getum við tileinkað okkur boðskap þessarar dæmisögu í lífi okkar?

Kærleikurinn kemur frá hjartanu

  • Hvernig getum við elskað fólk þrátt fyrir syndir þess og galla?

Jafnvel þótt við gefum hinum þurfandi eigum við ekki kærleika ef við finnum ekki til samúðar með þeim (sjá 1 Jóh 3:16–17). Páll postuli kenndi að þegar við eigum kærleika séum við uppfull af góðvild til allra manna. Við erum þolinmóð og góðsöm. Við erum ekki raupsöm, hrokafull, eigingjörn eða ókurteis. Þegar við eigum kærleika gleymum við og fögnum ekki yfir því illa sem aðrir hafa gert. Ekki gerum við heldur góðverk aðeins af því að það er okkur til hagsbóta. Þess í stað tökum við þátt í gleði þeirra sem lifa eftir sannleikanum. Þegar við eigum kærleika erum við trygg, við trúum því besta um aðra og sýnum þeim góðsemd. Ritningarnar kenna að „kærleikurinn bregst aldrei“ (sjá 1 Kor 13:4–8).

Frelsarinn var okkur fordæmi um hvað okkur á að finnast um aðra og hvernig koma fram við þá. Hann fyrirleit ranglætið, en hann unni syndurunum þrátt fyrir syndir þeirra. Hann hafði samúð með börnum, öldruðum, fátækum og þurfandi. Kærleikur hans var slíkur, að hann gat beðið himneskan föður að fyrirgefa hermönnunum sem ráku naglana gegnum hendur hans og fætur (sjá Lúk 23:34). Hann kenndi okkur að ef við fyrirgefum ekki öðrum, mun faðir okkar á himnum ekki fyrirgefa okkur (sjá Matt 18:33–35). Hann sagði: „Ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður … Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það?“ (Matt 5:44, 46). Við verðum að læra að bera sömu tilfinningar til annarra og Jesús gerði.

Þróa með okkur dyggð kærleikans

  • Hverng getum við orðið kærleiksríkari?

Ein leið til að gerast kærleiksríkari er að læra um líf Jesú Krists og halda boðorð hans. Við getum kynnt okkur hvað hann gerði við vissar aðstæður og gert eins þegar við erum í sams konar aðstæðum.

Í öðru lagi getum við beðist fyrir um að verða kærleiksríkari, þegar óvinsamlegar tilfinningar vakna. Mormón hvetur okkur: „Biðjið þess vegna til föðurins, … af öllum hjartans mætti, að þér megið fyllast þessari elsku, sem hann hefur gefið öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists“ (Moró 7:48).

Í þriðja lagi getum við lært að elska okkur sjálf, sem merkir að við skiljum okkar sanna gildi sem börn himnesks föður. Frelsarinn sagði að við yrðum að elska aðra eins og okkur sjálf (sjá Matt 22:39). Til að elska okkur sjálf verðum við að virða og treysta okkur sjálfum. Þetta merkir að við verðum að vera hlýðin reglum fagnaðarerindisins. Við verðum að iðrast allra misgjörða. Við verðum að fyrirgefa okkur sjálfum þegar við höfum iðrast. Við getum aðeins lært að elska okkur sjálf þegar við finnum hina djúpu og hughreystandi fullvissu þess, að frelsarinn elskar okkur í raun og veru.

Í fjórða lagi getum við forðast að telja okkur betri en annað fólk. Við getum tekið göllum þess með umburðarlyndi. Joseph Smith sagði: „Því nær sem við komumst himneskum föður, því sterkari verður samúð okkar með villuráfandi sálum. Við viljum helst taka þær á herðar okkar og varpa syndum þeirra á bak og burt“ (Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith [2007], 428–29).

Í Mormónsbók lesum við um Enos, ungan mann sem þráði að fá vissu um að syndir hans væru fyrirgefnar. Hann segir okkur:

„Sál mína hungraði, og ég kraup niður frammi fyrir skapara mínum og ákallaði hann í máttugri og auðmjúkri bæn fyrir sálu minni, og allan liðlangan daginn ákallaði ég hann. Já, þegar kvölda tók, hrópaði ég enn hátt, svo að rödd mín næði himnum.

Og rödd kom til mín og sagði: Enos, syndir þínar eru fyrirgefnar, og þú munt blessaður verða“ (Enos 1:4–5).

Drottinn útskýrði fyrir Enos, að vegna trúar hans á Krist hafi syndir hans verið fyrirgefnar. Þegar Enos heyrði þau orð hafði hann ekki lengur áhyggjur af sjálfum sér. Hann vissi að Drottinn elskaði hann og myndi blessa hann. Hann fór þess í stað að hugsa um velferð vina sinna og ættingja, Nefítanna. Hann lauk upp sálu sinni fyrir Guði þeirra vegna. Drottinn svaraði og sagði að þau yrðu blessuð í samræmi við trúfestu þeirra við að halda boðorðin sem þeim hefðu þá þegar verið gefin. Elska Enosar jókst enn meir við þessi orð og hann bað heitt og lengi fyrir Lamanítum, sem voru óvinir Nefíta. Drottinn varð við bón hans og Enos eyddi því sem eftir var ævi sinnar við að reyna að frelsa sálir Nefíta og Lamaníta (sjá Enos 1:6–26).

Enos var svo þakklátur fyrir kærleika Drottins og fyrirgefningu að hann reyndi alla ævi að hjálpa öðrum að hljóta þá sömu gjöf. Enos hafði sannarlega orðið kærleiksríkur. Við getum einnig orðið það. Staðreyndin er sú, að við verðum að verða það til að erfa þann stað sem okkur er fyrirbúinn í ríki föður okkar.

Viðbótarritningargreinar