Bækur og lexíur
Kafli 15: Sáttmálsfólk Drottins


Kafli 15

Sáttmálsfólk Drottins

The Old Testament prophet Abraham kneeling in prayer. Abraham is holding a staff in one hand and is looking toward the heavens as he prays. Sarah, the wife of Abraham, is depicted watching and with a look of humor on her face, from a tent portrayed in the background. Abraham and Sarah are depicted as elderly people.

Eðli sáttmála

  • Hvað er sáttmáli? Hvers vegna eru Síðari daga heilagir kallaðir sáttmálsfólk?

Frá upphafi hefur Drottinn gert sáttmála við börn sín á jörðu. Þegar fólk hans gerir sáttmála við hann (eða gefur honum loforð), veit það til hvers hann ætlast af því og hvaða blessunum það má búast við frá honum. Það getur þá betur unnið að verki hans á jörðu. Þeir sem gera sáttmála við Drottin og Drottinn gerir sáttmála við, eru þekktir sem sáttmálsfólk Drottins. Meðlimir kirkjunnar eru hluti af sáttmálsfólki Drottins.

Í fagnaðarerindinu táknar sáttmáli heilagan samning eða gagnkvæmt loforð milli Guðs og manns eða hóps manna. Þegar sáttmáli er gerður lofar Guð blessunum fyrir hlýðni við ákveðin boðorð. Hann setur skilmála sáttmála sinna og opinberar spámönnum sínum á jörðu þá skilmála. Ef við hlýðum skilmálum sáttmálans hljótum við þær blessanir sem heitið er. Ef við veljum að hlýða ekki, dregur hann blessanir sínar til baka og í sumum tilvikum hlýst refsing af.

Við gerum t.d. nokkra sáttmála við Guð þegar við göngum í kirkjuna (sjá kafla 20 í þessari bók). Í skírninni gerum við sáttmála við frelsarann um að taka á okkur nafn hans. Hann lofar að allir sem „skírðir [eru] í mínu nafni, sem er Jesús Kristur, og standa stöðugir allt til enda, þeir skulu hólpnir verða“ (K&S 18:22). Við gerum sáttmála við Drottin þegar við meðtökum sakramentið (sjá kafla 23 í þessari bók). Við lofum að taka á okkur nafn hans, hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans. Okkur er lofað að heilagur andi verði með okkur (sjá K&S 20:77–79). Þegar við meðtökum helgiathafnir musterisins, gerum við aðra helga sáttmála og fáum loforð um upphafningu ef við erum trúföst og hlýðin (sjá K&S 132; sjá einnig kafla 47 í þessari bók).

Guð hefur einnig gert sérstaka sáttmála við ákveðið fólk eða hópa. Hann gerði sérstaka sáttmála við Adam, Enok, Nóa, börn Ísraels, og Lehí (sjá HDP Móse 6:31–36, 52; 1 Mós 9:9–17; 2 Mós 19:5–6; 2 Ne 1). Hann gerði sérstakan sáttmála við Abraham og niðja hans sem blessar kirkjuþegna og allar þjóðir sem nú eru á jörðu.

  • Hugsið um þá sáttmála sem þið hafið gert við Guð og þær blessanir sem hann hefur lofað ykkur fyrir að halda þá sáttmála.

Sáttmáli Guðs við Abraham og niðja hans

  • Hvað er sáttmáli Abrahams?

Abraham, einn spámanna Gamla testamentisins, var mjög réttlátur maður (sjá myndina í þessum kafla). Hann neitaði að tilbiðja skurðgoð föður síns. Hann hélt öll boðorð Drottins. Vegna réttlætis hans gerði Drottinn sáttmála við hann og niðja hans.

Drottinn lofaði Abraham að hann mundi eignast svo marga afkomendur að ekki yrði tölu á komið. Hann lofaði því að þeir skyldu allir eiga rétt á að meðtaka fagnaðarerindið, blessanir prestdæmisins og allar helgiathafnir upphafningar. Þessir afkomendur myndu, með krafti prestdæmisins, flytja fagnaðarerindið til allra þjóða. Fyrir þeirra tilstilli myndu allar fjölskyldur jarðar blessunar njóta (sjá Abr 2:11). Guð lofaði því einnig, að ef þeir yrðu réttlátir, myndi hann gera sáttmála við öll börn Abrahams frá einum ættlið til annars (sjá 1 Mós 17:4–8).

  • Hvernig eiga boðorð og loforð sáttmála Abrahams við okkur? (Hugleiðið hvernig þessi spurning á við í mismunandi samhengi, svo sem heimili, á vinnustað, í samfélaginu eða sem trúboðar.)

Kirkjuþegnar eru sáttmálsfólk

  • Hvaða blessanir og ábyrgðarskyldur koma til sáttmálsfólks Guðs nú á dögum?

Beinir afkomendur Abrahams eru ekki þeir einu sem Guð kallar sáttmálsfólk sitt. Þegar Guð talaði við Abraham sagði hann: „Allir þeir, sem meðtaka þetta fagnaðarerindi skulu kenndir við nafn þitt og teljast niðjar þínir [ættkvísl], og skulu rísa á fætur og blessa þig sem föður sinn“ (Abr 2:10). Þannig eru tveir hópar fólks aðilar að sáttmálanum sem gerður var við Abraham: (1) Réttlátir beinir afkomendur Abrahams og (2) þeir sem ættleiddir eru inn í ættkvísl hans við að meðtaka og lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists (sjá 2 Ne 30:2).

Þegar við erum skírð inn í kirkjuna verðum við aðilar að sáttmálanum sem Drottinn gerði við Abraham, Ísak og Jakob (sjá Gal 3:26–29). Ef við erum hlýðin, erfum við blessanir þess sáttmála. Við eigum rétt á að hljóta hjálp og leiðsögn frá heilögum anda. Verðugir karlmenn eiga rétt á prestdæminu. Fjölskyldur geta meðtekið blessanir prestdæmisins. Við getum öðlast eilíft líf í himneska ríkinu. Engar blessanir eru stærri en þessar.

Samfara blessunum sem við hljótum sem sáttmálsþjóð Drottins berum við mikla ábyrgð. Drottinn hét Abraham því, að með niðjum hans yrði fagnaðarerindið boðað um gjörvalla jörðina. Við uppfyllum nú þessa ábyrgð okkar með fastatrúboðsstarfi kirkjunnar og með trúboðsstarfi sem unnið er af meðlimunum. Þetta tækifæri til að boða fagnaðarerindið til alls heimsins tilheyrir kirkju Drottins og sáttmálsfólki hans.

Sem sáttmálsfólk Drottins ættum við að halda boðorð hans. Drottinn sagði: „Ég, Drottinn er bundinn, þegar þér gjörið það sem ég segi, en þegar þér gjörið ekki það sem ég segi, hafið þér engin loforð“ (K&S 82:10). Ef við höfnum sáttmálanum eftir að hafa meðtekið fagnaðarerindið, verður sáttmálinn ógildur og við munum standa dæmd frammi fyrir Guði (sjá K&S 132:4). Hann hefur sagt: „Haldið yður frá synd, svo að þungur dómur falli ekki yfir yður. Því að af þeim, sem mikið er gefið, er mikils krafist. Og sá, sem syndgar gegn stærra ljósi, hlýtur þyngri dóm“ (K&S 82:2–3).

Hinn nýi og ævarandi sáttmáli

  • Hvað lofum við að gera þegar við tökum á móti fagnaðarerindinu? Hvaða blessanir gefur himneskur faðir okkur þegar við höldum þau loforð?

Fylling fagnaðarerindisins kallast hinn nýi og ævarandi sáttmáli. Hann felur í sér sáttmála þá sem gerðir eru í skírninni, við sakramentið, í musterinu og á öllum öðrum tímum. Drottinn kallar hann „ævarandi“ vegna þess að hann er vígður af ævarandi Guði og honum mun aldrei breytt. Hann gaf Adam, Enok, Nóa, Abraham og öðrum spámönnum þennan sama sáttmála. Í þeim skilningi er hann ekki nýr. En Drottinn kallar hann „nýjan“ vegna þess að í hvert sinn sem fagnaðarerindið er endurreist, eftir að hafa verið tekið af jörðu, er hann nýr því fólki sem meðtekur hann (sjá Jer 31:31–34; Esek 37:26).

Þegar við tökum á móti hinum nýja og ævarandi sáttmála, játumst við undir iðrun og skírn og meðtökum heilagan anda og einnig musterisgjöf okkar og hjúskaparsáttmálann í musterinu. Einnig heitum við því að fylgja og hlýða Kristi alla ævi. Er við höldum sáttmála okkar heitir himneskur faðir okkur upphafningu í himneska ríkinu (sjá K&S 132:20–24; sjá einnig kafla 47 í þessari bók).

Erfitt er fyrir dauðlega menn að skilja mikilleik þessa loforðs. Boðorð hans eru gefin okkur til góðs og ef við erum staðföst getum við að eilífu notið blessana og fegurðar himins og jarðar. Við fáum að lifa í návist hans og njóta kærleiks hans, umhyggju, krafts, góðvildar, mikilleiks, þekkingar, visku, dýrðar og yfirráða.

  • Hvernig tengist klæðnaður okkar, breytni og hlýðni við boðorð Guðs, því að við erum sáttmálsfólk Drottins?

Viðbótarritningargreinar og aðrar heimildir

  • 1 Pét 2:9–10 (eignarlýður)

  • K&S 54:4–6 (áhrif sáttmála sem haldnir eru eða rofnir)

  • K&S 132:7 (sáttmálar gerðir af réttum valdhöfum)

  • K&S 133:57–60 (tilgangur sáttmála)

  • K&S 35:24 (loforð gegn hlýðni við sáttmálana)

  • Hebr 8:6 (Jesús Kristur er meðalgöngumaður betri sáttmála)

  • Leiðarvísir að ritningunum, „Sáttmáli.“