Bækur og lexíur
Kafli 35: Hlýðni


Kafli 35

Hlýðni

Ljósmynd
An angel appearing to Adam and Eve as they prepare to offer a lamb as a burnt offering. The illustration depicts the angel explaining to Adam and Eve that the animal sacrifice was symbolic of the sacrifice to be made by Jesus Christ.

Við ættum að hlýða Guði af fúsum vilja

  • Hverju munar það að hlýða af fúsum vilja fremur en óviljug?

Þegar Jesús var á jörðu lagði lögvitringur einn fyrir hann þessa spurningu:

’Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?‘

Hann svaraði honum: Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum.

Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.

Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.

Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matt 22:36–40).

Af þessum ritningargreinum lærum við hversu mikilvægt það er að elska Drottin og náunga okkar. En hvernig sýnum við ást okkar til Drottins?

Jesús svaraði þeirri spurningu þannig: „Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum.“ (Jóh 14:21).

Öll ættum við að spyrja okkur sjálf hvers vegna við hlýðum boðorðum Guðs. Er það af ótta við refsingu? Er það af þrá eftir laununum fyrir að lifa góðu lífi? Er það vegna þess að við elskum Guð og Jesú Krist og þráum að þjóna þeim?

Vissulega er betra að hlýða boðorðunum af ótta við refsingu en hlýða þeim alls ekki. En við verðum miklu hamingjusamari ef við hlýðum Guði vegna þess að við elskum hann og viljum hlýða honum. Þegar við hlýðum honum af frjálsum vilja blessar hann okkur fúslega. Hann segir: „Ég, Drottinn … hef unun af að heiðra þá, sem þjóna mér í réttlæti og sannleika allt til enda“ (K&S 76:5). Hlýðnin stuðlar einnig að þroska okkar og gerir okkur líkari himneskum föður. Þeir sem gera ekkert fyrr en þeim er sagt að gera það og eru tregir til að halda boðorðin, glata launum sínum (sjá K&S 58:26–29).

  • Hvernig getum við aukið þrá okkar eftir að vera hlýðin?

Við getum hlýtt án þess að skilja hvers vegna

  • Hvers vegna þurfum við ekki alltaf að skilja tilgang Drottins til þess að vera hlýðin?

Með því að halda boðorð Guðs búum við okkur undir eilíft líf og upphafningu. Stundum þekkjum við ekki ástæðuna fyrir ákveðnu boðorði. En við sýnum trú okkar og traust á Guði þegar við hlýðum honum án þess að vita hvers vegna.

Adam og Evu var boðið að færa Guði fórn. Dag einn birtist engill Adam og spurði hvers vegna hann færði fórn. Adam svaraði og sagði að hann vissi ekki hvers vegna. Hann gerði það vegna þess að Drottinn hafði boðið honum það (sjá HDP Móse 5:5–6 og myndina í þessum kafla).

Engillinn kenndi þá Adam fagnaðarerindið og sagði honum frá frelsaranum sem koma ætti. Heilagur andi kom yfir Adam og hann spáði varðandi íbúa jarðar allt til síðustu kynslóða (sjá HDP Móse 5:7–10; K&S 107:56). Sú vitneskju og þessar miklu blessanir hlaut Adam vegna þess að hann var hlýðinn.

Guð mun greiða veginn

Mormónsbók segir frá því að Nefí og eldri bræðrum hans hafi verið falið að vinna mjög erfitt verk fyrir Drottin (sjá 1 Ne 3:1–6). Bræður Nefís kvörtuðu og sögðu þetta erfitt verk, en Nefí sagði: „Ég mun fara og gjöra það, sem Drottinn hefur boðið, því að ég veit, að Drottinn gefur mannanna börnum engin fyrirmæli án þess að greiða þeim veg til að leysa af hendi það, sem hann hefur boðið þeim“ (1 Ne 3:7). Þegar okkur finnst erfitt að hlýða boðorðum Drottins ættum við að minnast orða Nefís.

  • Hvenær hefur Drottinn greitt ykkur veg til að geta hlýtt honum?

Ekkert boðorð er of smátt eða of stórt til að hlýða því

Stundum teljum við ef til vill að eitthvert boðorð sé ekki mjög mikilvægt. Ritningarnar segja frá manni er Naaman hét sem hugsaði þannig. Naaman var haldinn hræðilegum sjúkdómi. Hann ferðaðist frá Sýrlandi til Ísraels til að biðja spámanninn Elísa að lækna sig. Naaman var mikilsvirtur maður í landi sínu og því móðgaðist hann þegar Elísa kom ekki á fund hans sjálfur, heldur sendi þjón sinn. Naaman varð jafnvel enn reiðari þegar hann fékk boðin frá Elísa um að fara og lauga sig sjö sinnum í ánni Jórdan. „Eru ekki fljótin hjá Damaskus betri en allar ár í Israel? Gæti ég ekki laugað mig í þeim og orðið hreinn?“ sagði hann. Hann fór burt í reiði en þjónar hans spurðu hann: „Ef spámaðurinn hefði skipað þér eitthvað erfitt, myndir þú þá ekki hafa gjört það? Hve miklu fremur þá, er hann hefir sagt þér: Lauga þig og munt þú hreinn verða?“ Naaman var nógu skynsamur til að skilja að mikilvægt var að hlýða spámanni Guðs, jafnvel þótt í smáu væri. Hann fór því, laugaði sig í Jórdan og læknaðist (sjá 2 Kings 5:1–14).

Stundum kann okkur að virðast boðorð of erfitt til að hlýða því. Líkt og bræður Nefís kunnum við að segja það erfitt verk, sem við erum beðin að leysa af hendi. Eins og Nefí megum við engu að síður vera viss um að Guð gefur okkur engin boðorð án þess að greiða okkur veg til að hlýða honum.

Það var „erfitt verk“ þegar Drottinn bauð Abraham að fórna ástkærum syni sínum (sjá 1 Mós 22:1–13; sjá einnig kafla 26 í þessari bók). Abraham hafði í mörg ár beðið eftir því að eignast Ísak, soninn sem Guð hafði lofað honum. Hvemig gæti hann misst son sinn með slíkum hætti? Þetta hlýtur að hafa verið Abraham næstum óvinnandi verk. Þó kaus hann að hlýða Guði.

Við ættum einnig að vera fús til þess að gera allt sem Guð biður okkur um. Spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Ég gerði þetta að reglu minni: Þegar Drottinn býður, þá geri ég það“ (Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith [2007], 160). Þetta getur einnig orðið okkar regla.

  • Hvenær hafið þið meðtekið blessanir sem afleiðingu af hlýðni ykkar við boðorð sem virtust lítilvæg?

Jesús Kristur hlýddi föður sínum

  • Hvaða dæmi koma í hugann þegar þið hugsið um að Jesús Kristur hlýddi föður sínum?

Jesús Kristur var göfug fyrirmynd að hlýðni við himneskan föður. Hann sagði: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig“ (Jóh 6:38). Allt líf hans helgaðist af hlýðni við föðurinn, samt var það honum ekki alltaf auðvelt. Hans var freistað á allan hátt líkt og annarra manna (sjá Hebr 4:15). Í Getsemanegarðinum bað hann með þessum orðum: „Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt“ (Matt 26:39).

Með algerri hlýðni sinni við vilja föðurins gerði Jesús sáluhjálpina mögulega fyrir okkur.

  • Hvernig getur hugsunin um fordæmi frelsarans hjálpað okkur að vera hlýðin?

Afleiðingar hlýðni og óhlýðni

  • Hverjar eru afleiðingarnar af að hlýða eða óhlýðnast boðorðum Guðs?

Ríki himins stjórnast af lögmálum og þegar við hljótum einhverja blessun er það fyrir hlýðni við það lögmál, sem sú blessun er bundin við (sjá K&S 130:20–21; 132:5). Drottinn hefur sagt okkur að hlýðnin færi okkur þekkingu og visku (sjá K&S 130:18–19). Við getum einnig vaxið andlega (sjá Jer 7:23–24). Óhlýðnin færir okkur hins vegar vonbrigði og við glötum blessununum. „Hver er ég, segir Drottinn, að ég gefi fyrirheit, en uppfylli þau ekki? Ég gef boðin og menn hlýða ekki. Ég afturkalla og þeir hljóta ekki blessanir. Og þá segja þeir í hjarta sínu: Þetta er ekki verk Drottins, því að fyrirheit hans uppfyllast ekki“ (K&S 58:31–33).

Þegar við höldum boðorð Guðs uppfyllir hann fyrirheitin, eins og Benjamín konungur sagði þegnum sínum: „[Hann krefst] þess að þér gjörið eins og hann hefur boðið yður, og fyrir að gjöra svo blessar hann yður samstundis“ (Mósía 2:24).

Hinir hlýðnu öðlast eilíft líf

Drottinn ráðleggur okkur: „Ef þú heldur boðorð mín og stendur stöðugur allt til enda, skalt þú öðlast eilíft líf, en sú gjöf er mest allra gjafa Guðs“ (K&S 14:7).

Drottinn hefur lýst öðrum blessunum sem þeir hljóta sem hlýða honum í réttlæti og sannleika allt til enda.

„Því að svo mælir Drottinn – ég, Drottinn, er miskunnsamur og náðugur þeim, sem óttast mig, og hef unun af að heiðra þá, sem þjóna mér í réttlæti og sannleika allt til enda.

Mikil verða laun þeirra og eilíf verður dýrð þeirra.

Og þeim mun ég opinbera alla leyndardóma, já, alla hulda leyndardóma ríkis míns, frá fyrstu dögum, og á komandi tímum mun ég kunngjöra þeim hugþekkan vilja minn varðandi allt sem tilheyrir ríki mínu.

Já, jafnvel undur eilífðarinnar skulu þeir þekkja og það sem koma skal mun ég sýna þeim, jafnvel um marga ættliði fram.

Og viska þeirra verður mikil og skilningur þeirra nær til himins …

Því að með anda mínum mun ég upplýsa þá og með krafti mínum mun ég kunngjöra þeim leyndan vilja minn – já, jafnvel það sem augað hefur eigi séð, né eyrað heyrt, né komið hefur enn í hjarta nokkurs manns“ (K&S 76:5–10).

  • Hvaða merkingu leggið þið í orðalagið „að standast allt til enda“?

  • Hvað getum við gert til að fylgja trúföst reglum fagnaðarerindisins líka þegar það er óvinsælt að gjöra svo? Hvernig getum við hjálpað börnum og unglingum að vera trúföst reglum fagnaðarerindisins?

Viðbótarritningargreinar

Prenta