Bækur og lexíur
Kafli 42: Samansöfnun Ísraelsættar


Kafli 42

Samansöfnun Ísraelsættar

Ljósmynd
The Old Testament prophet Israel (Jacob) with his sons gathered around him. One of the sons (Joseph) is kneeling before his father. Israel has his hand on the son's head as he prepares to give him a priesthood blessing.

Ísraelsætt er sáttmálslýður Guðs

  • Hvaða ábyrgðarskyldur ber sáttmálslýður Guðs gagnvart þjóðum jarðar?

Jakob var mikill spámaður, sem uppi var mörgum öldum fyrir Kristsburð. Vegna trúfestu Jakobs gaf Drottinn honum hið sérstaka nafn Ísrael, sem merkir „sá sem ríkjum ræður með Guði“ eða „látum Guð ríkja“ (Bible Dictionary, “Israel,“ 708). Jakob átti tólf syni. Þessir synir og fjölskyldur þeirra urðu þekkt sem hinar tólf ættkvíslir Ísraels, eða Ísraelsmenn (sjá 1 Mós 49:28).

Jakob var sonarsonur Abrahams. Drottinn gerði ævarandi sáttmála við Abraham og endurnýjaði hann við Ísak og við Jakob og börn hans (sjá 15. kafla þessarar bókar sjá einnig myndina í þessum kafla, sem sýnir Jakob blessa syni sína). Guð lofaði því að Ísraelsmenn yrðu sáttmálslýður hans svo lengi sem þeir héldu boðorð hans (sjá 5 Mós 28:9–10). Þeir myndu færa öllum þjóðum fagnaðarerindið og prestdæmið og verða þeim þannig til blessunar (sjá Abr 2:9–11). Þannig myndu þeir halda sáttmála sinn við Drottin og hann við þá.

Ísraelsþjóð var tvístrað

Hvað eftir annað vöruðu spámenn Drottins Ísraelsætt við því sem verða myndi ef þeir yrðu ranglátir. Móse spáði: „Og Drottinn mun dreifa þér meðal þjóðanna frá einu heimsskauti til annars“ (5 Mós 28:64).

Þrátt fyrir þessa viðvörun brutu Ísraelsmenn sífellt boðorð Guðs. Þeir börðust innbyrðis og klofnuðu í tvö ríki: Norðurríkið, sem nefndist ríki Ísraels, og Suðurríkið, sem nefndist ríki Júda. Tíu af tólf ættkvíslum Ísraels bjuggu í Norðurríkinu. Óvinir þeirra unnu þá í styrjöld og fluttu þá burt í ánauð. Sumir þeirra flúðu síðar til landanna í norðri og týndust heiminum.

Um einni öld eftir hertöku Norðurríkisins, var Suðurríkið sigrað. Höfuðborginni Jerúsalem var tortímt árið 586 f.Kr., og margir úr Ísraelsættkvíslunum tveimur voru herteknir. Síðar sneru sumir af meðlimum þessara ættkvísla til baka og endurbyggðu Jerúsalem. Skömmu áður en Jerúsalem var tortímt yfirgaf Lehí og fjölskylda hans, sem voru af Ísraelsætt, borgina og settust að í Ameríku.

Eftir tíma Krists var Jerúsalem enn tortímt, í þetta sinn af rómverskum hermönnum. Gyðingum var tvístrað út um mest allan heim. Nú má finna Ísraelsmenn í öllum löndum heims. Margir þeirra vita ekki að þeir eru afkomendur hinnar fornu Ísraelsættar.

  • Hvaða hag hafa börn Guðs haft af því að sáttmálslýð hans hefur verið tvístrað um jörðina?

Safna verður Ísraelsætt saman

  • Hvers vegna vill Drottinn að fólki hans sé safnað saman?

  • Hvernig verður Ísraelsætt safnað saman?

Drottinn lofaði að sáttmálslýð hans yrði einhvern tíma safnað saman: „Ég vil sjálfur safna leifum hjarðar minnar saman úr öllum löndum, þangað sem ég hefi rekið þá“ (Jer 23:3).

Guð safnar saman börnum sínum með trúboðsstarfi. Þegar fólk fær vitneskju um Jesú Krist, tekur á móti helgiathöfnum sáluhjálpar og heldur tengda sáttmála, verða þau „börn sáttmálans“ (3 Ne 20:26). Hann hefur mikilvægar ástæður til að safna saman börnum sínum. Hann safnar þeim saman svo að þau geti lært kenningar fagnaðarerindisins og búið sig undir að mæta frelsaranum þegar hann kemur aftur. Hann safnar þeim saman svo að þau muni reisa musteri og framkvæma heilagar helgiathafnir fyrir áana sem dáið hafa án þess að fá slíkt tækifæri. Hann safnar þeim saman svo að þau geti styrkt hvert annað og verið sameinuð í fagnaðarerindinu og hljóti vernd gegn óréttlátum áhrifum í heiminum. Hann safnar þeim saman svo að þau geti búið sig undir að deila fagnaðarerindinu með öðrum.

Kraftinn og valdsumboðið til að stjórna því verki, að safna saman Ísraelsætt, veitti spámaðurinn Móse Joseph Smith er sá fyrrnefndi birtist 1836 í Kirtland-musterinu (sjá K&S 110:11). Þaðan í frá hefur hver spámaður síðari daga haft lyklana að samansöfnun Ísraelsættar og sú samansöfnun hefur verið mikilvægur liður í starfi kirkjunnar. Sáttmálslýðnum er nú safnað saman, þegar menn meðtaka hið endurreista fagnaðarerindi og þjóna Guði Abrahams, Ísaks og Jakobs (sjá 5 Mós 30:1–5).

Sameina á Ísraelsmenn fyrst andlega og síðan líkamlega. Þeim er safnað andlega þegar þeir ganga í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og gera og halda heilaga sáttmála. Sú andlega samansöfnun hófst á tímum spámannsins Josephs Smith og heldur nú áfram um allan heim. Þeir sem snúast til trúar á kirkjuna eru Ísraelsmenn, annað hvort vegna blóðtengsla eða ættleiðingar. Þeir tilheyra fjölskyldu Abrahams og Jakobs (sjá Abr 2:9–11; Gal 3:26–29).

Joseph Fielding Smith forseti sagði: „Fólk af ýmsu þjóðerni er … í kirkjunni. … Það hefur komið vegna þess að andi Drottins hvíldi á því; … það hefur tekið á móti anda samansöfnunarinnar, það hefur yfirgefið allt sakir fagnaðarerindisins“ (Doctrines of Salvation, í samantekt Bruce R. McConkie, 3 bindi. [1954–56], 3:256; leturbreyting í frumriti).

Hin líkamlega sameining Ísraels táknar að Ísraelsmönnum verður „safnað heim til erfðalands síns og þeir setjast að í hinu fyrirheitna landi sínu“ (2 Ne 9:2). Ættkvíslum Efraíms og Manasse mun safnað til heimsálfu Ameríku. Ættkvísl Júda mun snúa aftur til Jerúsalemborgar og svæðanna þar í kring. Týndu ættkvíslirnar tíu munu hljóta sínar fyrirheitnu blessanir með ættkvísl Efraíms (sjá K&S 133:26–34).

Þegar kirkjan var fyrst stofnuð var hinum heilögu safnað til Ohio, síðan Missouri og þar næst til Saltvatnsdalsins. Nútíma spámenn hafa á hinn bóginn sagt að kirkjuþegnar eigi í dag að byggja upp ríki Guðs í sínum eigin löndum. Öldungur Russell M. Nelson sagði: „Valið að koma til Krists snýst ekki um ákveðna staðsetningu, það er spurning um einstaklingsbundna skuldbindingu. Fólk getur verið ‘leitt til þekkingar á Drottni’ [3 Ne 20:13] án þess að það yfirgefi heimaland sitt. Satt er það, að á fyrstu tíð kirkjunnar þýddu trúskipti oft jafnframt brotthvarf úr landi. En núna á samansöfnunin sér stað meðal allra þjóða. … Staðurinn til samansöfnunar brasilískra heilagra er Brasilía; samansöfnunarstaður nígerískra heilagra er Nígería; samansöfnunarstaður kóreskra heilagra er Kórea, og svo framvegis. Síon er ‘hinir hjartahreinu.’ [K&S 97:21.] Síon er hvar sem hinir réttlátu heilögu eru“ (í Conference Report, okt. 2006, 85; eða Ensign, nóv. 2006, bls. 81).

Þessari líkamlegu samansöfnun Ísraelsmanna mun ekki ljúka fyrr en við síðari komu frelsarans og áfram inn í Þúsundáraríkið (sjá Joseph JS – M 1:37). Þá mun fyrirheit Drottins uppfyllast:

„Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma – segir Drottinn – að ekki mun framar sagt verða: Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi,

heldur: Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út úr landinu norður frá og úr öllum þeim löndum, þangað sem hann hafði rekið þá. Og ég mun flytja þá aftur til lands þeirra, sem ég gaf feðrum þeirra.“ (Jer 16:14–15).

  • Með hvaða hætti hefur ykkur verið safnað saman andlega sem sáttmálslýð Drottins?

  • Með hvaða hætti hafið þið tekið þátt í samansöfnun annarra?

Viðbótarritningargreinar

Prenta