Bækur og lexíur
Kafli 18: Trú á Jesú Krist


Kafli 18

Trú á Jesú Krist

Ljósmynd
Full length profile portrait of Jesus Christ. He is depicted wearing a white robe with a blue belt. He has one hand extended. His other hand is touching His chest.

Hvað er trú?

Trú á Drottin Jesú Krist er fyrsta frumregla fagnaðarerindisins. Hún er andleg gjöf og nauðsynleg fyrir sáluhjálp okkar. Benjamín konungur sagði: „Því að hjálpræðið nær ekki til neins … nema fyrir iðrun og trú á Drottin Jesú Krist“ (Mósía 3:12).

Trú er „von um það, sem eigi er auðið að sjá, en er sannleikur“ (Al 32:21; sjá einnig Hebr 11:1). Trú er framkvæmd og kraftur sem hvetur okkur áfram í daglegum athöfnum okkar.

Mundum við nema og læra ef við tryðuð ekki að við gætum öðlast visku og þekkingu? Mundum við vinna á degi hverjum ef við vonuðumst ekki eftir að afreka eitthvað? Mundi bóndinn sá ef hann byggist ekki við uppskeru? Hvern dag er það vonin sem ræður störfum okkar þegar við sjáum ekki árangurinn fyrir. Það er trú (sjá Hebr 11:3).

Í ritningunum segir víða frá ýmsu stórfenglegu sem vannst með trú.

Með trú smíðaði Nói örkina og bjargaði fjölskyldu sinni undan flóðinu (sjá Hebr 11:7). Móse klauf Rauðahafið (sjá Hebr 11:29). Elía kallaði eld niður af himnum (sjá 1 Kon 18:17–40). Nefí kallaði fram hungursneyð (sjá He 11:3–5). Hann bað einnig Drottin um að binda endi á hungursneyðina (sjá He 11:9–17). Stórsjór hefur verið lægður, sýnir hafa birst og bænum verið svarað, allt fyrir trúarkraft.

Þegar við nemum ritningarnar vandlega verður okkur ljóst að það er hin sterka trú á sannleikann innra með okkur sem hvetur okkur til góðra verka. Því spyrjum við: Á hvern eigum við að trúa?

  • Hugsið um daglegar athafnir ykkar. Hvað er það sem þið vinnið að daglega en sjáið samt ekki til hvers leiðir? Hvernig hvetur trúin ykkur til dáða?

Hvers vegna eigum við að trúa á Jesú Krist?

Miðpunktur trúar okkar verður að vera Drottinn Jesús Kristur.

Að eiga trú á Jesú Krist táknar að treysta honum svo, að við hlýðum hverju því sem hann býður. Þegar við leggjum trú okkar á Jesú Krist, verðum hlýðnir lærisveinar hans, mun himneskur faðir fyrirgefa okkur syndir okkar og búa okkur undir að snúa aftur til hans.

Postulinn Pétur boðaði að „ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss“ (Post 4:12; sjá einnig Mósía 3:17). Jakob sagði að menn yrðu að hafa fullkomna „trú á hinn heilaga Ísraels [Jesú Krist], ella geti þeir eigi frelsast í Guðs ríki“ (2 Ne 9:23). Með trú á frelsarann og iðrun verður friðþæging hans virk í lífi okkar. Með trú getum við einnig hlotið styrk til að sigrast á freistingum (sjá Al 37:33).

Við getum ekki trúað á Jesú Krist án þess að trúa einnig á himneskan föður. Ef við trúum á þá munum við einnig trúa því að heilagur andi, sem þeir senda, muni kenna okkur allan sannleikann og hughreysta okkur.

  • Hvernig getur trú á Jesú Krist haft áhrif á okkur í kirkjuköllunum okkar? í fjölskyldusamböndum? í vinnu okkar? Hvernig hefur trú á Jesú Krist áhrif á von okkar um eilíft líf?

Hvernig getum við aukið trú okkar á Jesú Krist?

Við vitum um þær mörgu blessanir sem verða okkar, ef við iðkum trú á Jesú Krist, og því ættum við að kappkosta að efla trú okkar á hann. Frelsarinn sagði: „Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, … [verður ekkert] yður um megn“ (Matt 17:20). Mustarðskorn er afar smátt en verður að stóru tré.

Hvernig getum við eflt trú okkar? Á sama hátt og við eflum eða þroskum hverja aðra hæfileika. Hvernig aukum við hæfni okkar í útskurði, vefnaði, málun, matseld, leirsmíði eða hljóðfæraleik? Við lærum og þjálfum okkur og vinnum að því. Þegar við gerum það fer okkur fram. Sama gildir um trúna. Ef við viljum efla trú okkar á Jesú Krist verðum við að vinna að því. Spámaðurinn Alma líkti orði Guðs við sáðkorn sem næra verður með trú:

„Ef þið viljið vakna og vekja hæfileika ykkar til lífs með því að gjöra tilraun með orð mín og sýna örlitla trú, jafnvel þótt ekki sé nema löngun til að trúa, látið þá undan þessari löngun, þar til þið trúið nægilega til að gefa hluta orða minna rúm.

Nú skulum við líkja orðinu við sáðkorn. Ef þið gefið rúm í hjarta ykkar, þannig að gróðursetja megi sáðkorn þar, sjá, sé það sáðkorn sannleikans, eða gott sáðkorn, og þið varpið því eigi burt vegna vantrúar ykkar, og standið eigi gegn anda Drottins, sjá, þá mun það fara að þenjast út í brjóstum ykkar. Og þegar þér finnið þessar vaxtarhræringar, munuð þér segja með sjálfum ykkur: Þetta hlýtur að vera gott sáðkorn, eða að orðið sé gott, því að það er farið að víkka sálarsvið mitt. Já, það er farið að upplýsa skilning minn. …

Sjá, mundi þetta ekki auka trú ykkar?“ (Al 32:27–29).

Þannig getum við eflt trú okkar á Guð með því að fylgja þeirri þrá, okkar að trúa á hann.

Við getum aukið trú okkar með því að biðja til himnesks föður varðandi vonir okkar, þrár og þarfir (sjá Al 34:17–26). Við megum þó ekki ætla, að það eina sem við þurfum að gera sé að biðja. Okkur er sagt í ritningunum: „Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin“ (Jakbr 2:17). Eftirfarandi saga er um mann sem sýndi trú í verki.

Þessi maður vildi læra ritningarnar en hann kunni ekki að lesa. Hann bað til himnesks föður síns um hjálp til að læra að lesa. Er tímar liðu kom kennari til þorpsins og hann bað kennarann að hjálpa sér. Hann lærði stafrófið. Hann nam hljóðin og lærði að setja stafina saman og mynda með þeim orð. Innan skamms las hann einföld orð. Því meir sem hann æfði sig, því meira lærði hann. Hann þakkaði Drottni fyrir að senda kennarann og hjálpa sér að læra að lesa. Þessi maður hafði eflt trú sína, auðmýkt og þekkingu að því marki, að hann þjónar nú sem greinarforseti í kirkjunni.

Spencer W. Kimball forseti sagði: “Verkin verða að fylgja trúnni. Hve heimskulegt það væri, að biðja Drottin að gefa okkur þekkingu, en hve skynsamlegt að biðja um hjálp Drottins til að afla okkur þekkingar, til að læra á raunhæfan hátt, til að hugsa skýrt og festa sér í minni það sem lært er“ (Faith Precedes the Miracle [1972], 205; leturbreyting í frumtexta).

Trúin felur í sér að gera allt sem við getum til að það sem við vonum og biðjum um verði að veruleika. Kimball forseti sagði: „Í trú gróðursetjum við sáðkornið og brátt sjáum við kraftaverk blómgunarinnar. Menn hafa oft misskilið þetta og snúið atburðarrásinni við.“ Hann útskýrði þetta með því að segja að mörg viljum við eiga góða heilsu og styrk án þess að fylgja heilbrigðislögmálum. Við viljum velgengni án þess að greiða tíund. Við viljum vera nærri Drottni en viljum ekki fasta og biðja. Við viljum fá rigningu á réttum tíma og búa við frið í landinu, án þess að halda hvíldardaginn heilagan og án þess að halda önnur boðorð Drottins (sjá Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball [2006], 142).

Mikilvæg leið til að efla trú okkar er að hlusta á orð Drottins og læra þau. Við heyrum orð Drottins á kirkjusamkomum okkar. Við getum lesið orð hans í ritningunum. „Og þar eð ekki eiga allir trú, skuluð þér af kostgæfni leita vísdómsorða og kenna þau hver öðrum. Já, leitið að vísdómsorðum í hinum bestu bókum. Sækist eftir fræðslu með námi og einnig með trú“ (K&S 88:118).

  • Hvaða samband sjáið þið á milli trúar okkar og athafna?

Hverjar eru sumar þær blessanir sem fylgja trú?

Með gjöf trúar, eru kraftaverk unnin, englar birtast, aðrar gjafir andans veitast, bænum er svarað og menn verða synir Guðs (sjá Moró 7:25–26, 36–37).

„Þegar trúin birtist færir hún … postula, spámenn, guðspjallamenn, hirða, kennara, náðargáfur, visku, þekkingu, kraftaverk, lækningu, tungutal, túlkun tungumála o.s.frv. Allt þetta birtist þegar trúin birtist á jörðu og hverfur um leið og hún hverfur af jörðu, því að þetta eru áhrif trúarinnar. … Og sá sem á hana getur með henni öðlast alla nauðsynlega þekkingu og visku, uns hann þekkir Guð og Drottin Jesú Krist, sem hann hefur sent – en að þekkja þá er hið eilífa líf“ (Lectures on Faith [1985], 83).

  • Hvaða sögur í ritningunum segja frá fólki sem hefur styrkst vegna trúar sinnar á Jesú Krist? Hvernig hafið þið séð þetta gerast í ykkar eigin lífi?

Viðbótarritningargreinar

Prenta