Bækur og lexíur
Kafli 19: Iðrun


Kafli 19

Iðrun

An Hispanic young woman crying.  She is holding a handkerchief.  Tears are rolling down her face.

Öll þurfum við að iðrast

  • Hvað er synd? Hvaða áhrif hafa syndir okkar á okkur?

Trú á Krist leiðir eðlilega til iðrunar. Allt frá tímum Adams og fram á þennan dag hafa menn haft þörf fyrir iðrun. Drottinn sagði við Adam: „Kenn því börnum þínum, að allir menn, hvarvetna, verði að iðrast, ella geti þeir engan veginn erft ríki Guðs, því að ekkert óhreint fær dvalið þar eða dvalið í návist hans“ (HDP Móse 6:57).

Við komum til jarðar til að vaxa og þroskast. Það er lífstíðarverkefni. Á þeim tíma syndgum við öll (sjá Róm 3:23). Við þurfum öll að iðrast. Stundum syndgum við vegna vanþekkingar, stundum vegna veikleika og stundum óhlýðnumst við vísvitandi. Í Biblíunni lesum við: „Enginn réttlátur maður er til á jörðunni, er gjört hafi gott eitt og aldrei syndgað“ (Préd 7:20) og „ef vér segjum: Vér höfum ekki syndgað þá gjörum vér hann að lygara og orð hans er ekki í oss“ (1 Jóh 1:8).

Hvað er synd? Postulinn Jakob sagði: „Hver sem því hefur vit á gott að gjöra, en gjörir það ekki, hann drýgir synd“ (Jakbr 4:17). Jóhannes sagði um syndina: „Allt ranglæti er synd“ (1 Jóh 5:17) og „syndin er lögmálsbrot“ (1 Jóh 3:4).

Þess vegna sagði Drottinn: „Allir menn, hvarvetna, verða að iðrast“ (HDP Móse 6:57). Að undanskildum Jesú Kristi, sem lifði fullkomnu lífi, hafa allir menn syndgað. Af miklum kærleika sínum hefur himneskur faðir gert okkur mögulegt að iðrast synda okkar.

Verða frjáls frá syndum okkar með iðrun

  • Hvað er iðrun?

Iðrun er sú leið sem okkur er veitt til að verða frjáls frá syndum okkar og hljóta fyrirgefningu þeirra. Syndir hægja á andlegum þroska og geta jafnvel stöðvað hann. Iðrun gerir okkur mögulegt að vaxa og þroskast andlega á ný.

Þau forréttindi að iðrast eru möguleg vegna friðþægingar Jesú Krists. Með hætti sem ekki er okkur að fullu skiljanlegur, galt Jesús fyrir syndir okkar. Joseph Fielding Smith forseti sagði um þetta:

„Ég hef fundið sársauka, þið hafið fundið fyrir sársauka, og stundum hefur hann verið nístandi, en ég fæ þó ekki skilið sársauka sem … veldur því að blóð drýpur líkt og sviti af líkamanum. Það var eitthvað ógnþrungið, eitthvað stórfenglegt. …

Enginn maður hefur nokkru sinni fæðst í þennan heim, sem hefði getað staðið undir þunga þeirrar byrðar sem hvíldi á Guðssyninum, þegar hann bar syndir mínar og þínar og gerði okkur mögulegt að losna undan syndum okkar“ (Doctrines of Salvation, Bruce R. McConkie valdi, 3 bindi. [1954–56], 1:130–31; leturbreyting í frumriti).

Iðrun krefst stundum mikils hugrekkis og styrks, margra tára, stöðugra bæna og óþreytandi tilrauna til að lifa samkvæmt boðorðum Drottins.

Reglur iðrunar

  • Hverjar eru reglur iðrunar?

Spencer W. Kimball forseti sagði: „Leiðin til iðrunar er enginn konungsvegur, leiðin til fyrirgefningar enginn forréttindastígur. Allir verða að fylgja hinni sömu braut, ríkir sem fátækir, lærðir sem ólærðir, háir sem lágir, prinsar sem betlarar, konungar jafnt og almúgi“ (Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball [2006], 38; leturbreyting í frumriti).

Við verðum að viðurkenna syndir okkar

Til þess að iðrast verðum við að viðurkenna fyrir sjálfum okkur að við höfum syndgað. Ef við viðurkennum það ekki, getum við ekki iðrast.

Alma ráðlagði syni sínum Koríanton, sem hafði verið ótrúr í trúboðsköllun sinni og drýgt alvarlega synd: „[Lát] syndir þínar angra þig með því hugarangri, sem leiðir þig til iðrunar. … Reyndu ekki að afsaka þig sjálfan hið minnsta“ (Al 42:29–30). Ritningarnar ráðleggja okkur ennfremur að réttlæta ekki syndsamlega breytni okkar (sjá Lúk 16:15–16).

Við getum ekki falið breytni okkar fyrir okkur sjálfum eða Drottni.

Við verðum að hryggjast vegna synda okkar

Auk þess að viðurkenna syndir okkar verðum við einnig að finna til einlægrar hryggðar vegna þess sem við höfum gert. Okkur verður að finnast syndirnar hörmulegar. Við verðum að hafa löngun til að losna við þær. Ritningarnar segja okkur: „Allir þeir, sem auðmýkja sig fyrir Guði og þrá að láta skírast, sem koma með sundurkramin hjörtu og sáriðrandi anda, og [hafa] sannlega iðrast allra synda sinna … skulu teknir með skírn inn í kirkju hans“ (K&S 20:37).

  • Nemið 2 Kor 7:9–10 og Morm 2:10–14. Á hvern hátt álítið þið að „hryggð Guði að skapi“ sé frábrugðin því að láta í ljós eftirsjá?

Við verðum að láta af syndum okkar

Einlæg hryggð ætti að fá okkur til að láta af (hætta) syndum okkar. Ef við höfum stolið einhverju, stelum við ekki framar. Ef við höfum logið, ljúgum við ekki framar. Ef við höfum drýgt hór, munum við hætta því algjörlega. Drottinn sagði við spámanninn Joseph Smith: „Þannig getið þér vitað hvort maðurinn iðrast synda sinna, sjá, hann játar þær og lætur af þeim“ (K&S 58:43).

Við verðum að játa syndir okkar

Mjög mikilvægt er að játa syndir sínar. Drottinn hefur boðið okkur að játa syndir okkar. Játningin léttir þungri byrði af syndaranum. Drottinn hefur lofað: „Ég, Drottinn, fyrirgef syndir og er miskunnsamur þeim, sem með auðmjúku hjarta játa syndir sínar“ (K&S 61:2).

Við verðum að játa allar syndir okkar fyrir Drottni. Auk þess verðum við að játa alvarlegar syndir – eins og hórdóm, skírlífisbrot, saurlifnað, misnotkun á maka eða börnum og sölu eða notkun ólöglegra lyfja – sem gæti haft áhrif á stöðu okkar í kirkjunni, fyrir réttum prestdæmisvaldhöfum. Ef við höfum syndgað gagnvart öðrum, eigum við að játa það fyrir þeim sem við höfum brotið gegn. Aðrar minni syndir eru aðeins á milli okkar og Drottins. Þær getum við játað einslega fyrir Drottni.

Við verðum að gera yfirbót

Hluti iðrunar er yfirbót. Það táknar að við verðum að bæta fyrir öll rangindi sem við erum sek um, að því leyti sem mögulegt er. Þjófur skal t.d. skila aftur því sem hann hefur stolið. Lygari kunngera sannleikann. Slúðurberi, sem skaðað hefur einhvern, skal hreinsa mannorð þess sem hann hefur skaðað. Þegar við gerum svo, mun Guð, þá er hann dæmir okkur, ekki minnast á syndir okkar (sjá Esek 33:15–16).

Við verðum að fyrirgefa öðrum.

Nauðsynlegur hluti iðrunar er að fyrirgefa þeim sem syndgað hafa gegn okkur. Drottinn mun ekki fyrirgefa okkur, ef hjarta okkar er ekki að fullu laust við allt hatur, beiskju og illvilja í garð annarra (sjá 3 Ne 13:14–15). „Fyrir því segi ég yður, að þér eigið að fyrirgefa hver öðrum, því að sá sem ekki fyrirgefur bróður sínum misgjörðir hans, stendur dæmdur frammi fyrir Drottni, því að í honum býr hin stærri synd“ (K&S 64:9).

Við verðum að halda boðorð Guðs

Til að iðrun okkar sé fullkomin verðum við að halda boðorð Drottins (sjá K&S 1:32). Við iðrumst ekki að fullu ef við greiðum ekki tíund, höldum ekki hvíldardaginn heilagan eða hlýðum ekki Vísdómsorðinu. Við erum ekki iðrandi ef við styðjum ekki valdhafa kirkjunnar og elskum ekki Drottin og meðbræður okkar. Ef við biðjum ekki og erum ekki góð við aðra erum við vissulega ekki iðrandi. Þegar við iðrumst breytist líf okkar.

Kimball forseti sagði: „Fyrst iðrast maðurinn. Þegar hann hefur svo náð því stigi, verður hann að lifa eftir boðorðum Drottins til að halda þeim ávinningi. Það er nauðsynlegt til að tryggja fyrirgefninguna fullkomlega“ (Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball, 43).

  • Á hvern hátt er kennsluefni þessa hluta frábrugðið þeirri fölsku hugmynd, að iðrun sé að fylgja lista af einföldum skrefum eða hefðbundnum aðgerðum?

Hvernig iðrun hjálpar okkur?

  • Á hvern hátt hjálpar iðrun okkur?

Þegar við iðrumst tekur friðþægingar Jesú Krists að gæta til fulls í lífi okkar og Drottinn fyrirgefur syndir okkar. Við losnum úr fjötrum syndanna og finnum hamingju og gleði.

Alma miðlaði okkur af reynslu sinni, þá er hann iðraðist fyrri synda sinna:

„Sál mín var hrjáð [áhyggjufull] til hins ýtrasta og kvalin af öllum syndum mínum.

Já, ég minntist allra synda minna og misgjörða og var þeirra vegna altekinn kvölum vítis. Já, ég sá, að ég hafði risið gegn Guði mínum og hafði ekki haldið heilög boðorð hans.

… Já, og svo miklar höfðu misgjörðir mínar allar verið, að hugsunin ein um að komast í návist Guðs míns fyllti sál mína ólýsanlegri skelfingu.

… Og svo bar við, að meðan ég … hrjáðist af endurminningunni um hinar mörgu syndir mínar, sjá, þá minntist ég einnig þess að hafa heyrt föður minn spá … að Jesús nokkur Kristur, sonur Guðs, mundi koma og friðþægja fyrir syndir heimsins.

Þegar hugur minn náði nú tökum á þessari hugsun, hrópaði ég í hjarta mínu: Ó Jesús, þú sonur Guðs, vertu mér miskunnsamur. …

Og sjá. Þegar ég hugleiddi þetta, gleymdi ég kvölum mínum. …

Og ó, hvílík gleði, hve undursamlegt ljós ég sá! Já, sál mín fylltist gleði, jafn yfirþyrmandi og kvalir mínar höfðu áður verið.

… Ekkert getur verið jafn óviðjafnanlegt og ljúft og gleði mín var“ (Al 36:12–14, 17–21).

  • Hvernig færði iðrun og fyrirgefning Alma gleði?

Hætturnar af að slá iðrun okkar á frest

  • Hverjar eru sumar mögulegar afleiðingar þess að slá iðrun okkar á frest?

Spámennirnir hafa sagt: „Þetta er tími mannanna til að búa sig undir að mæta Guði“ (Al 34:32). Við eigum að iðrast núna, hvern dag. Þegar við förum á fætur á morgnana ættum við að skoða huga okkar, hvort andi Guðs sé með okkur. Á kvöldin, áður en við förum að sofa, ættum við að endurskoða orð okkar og gerðir þann dag og biðja Drottin að sýna okkur hvers við þurfum að iðrast. Með því að iðrast dag hvern og fá fyrirgefningu Drottins á syndum okkar, fetum við daglega í átt að fullkomnun. Hamingja okkar og gleði getur orðið unaðsleg, eins og hjá Alma.

Viðbótarritningargreinar