Bækur og lexíur
Kafli 10: Ritningar


Kafli 10

Ritningar

A Chinese woman sitting at a table with scriptures open in front of her.  She is using a highlighter to mark them.

Ritningarnar eru aðgengilegar fyrir okkur í dag

  • Hverjar eru sumar þeirra blessana sem við njótum í dag vegna þess að ritningarnar eru svo aðgengilegar?

Þegar þjónar Drottins tala eða rita undir áhrifum heilags anda, verða orð þeirra ritning (sjá K&S 68:4). Frá upphafi hefur Drottinn boðið spámönnum sínum að skrásetja opinberanir hans og samskipti hans við börn sín. Hann sagði: „Því að ég býð öllum mönnum, bæði í austri og vestri, norðri og suðri og á eyjum sjávar, að færa þau orð í letur, sem ég tala til þeirra, því að af bókum þeim, sem skráðar verða, mun ég dæma heiminn, sérhvern mann af verkum sínum, samkvæmt því sem ritað er“ (2 Ne 29:11).

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu viðurkennir fjórar bækur sem ritningar: Biblíuna, Mormónsbók, Kenningu og sáttmála og Hina dýrmætu perlu. Þessar bækur eru kallaðar helgirit kirkjunnar. Innblásin orð okkar lifandi spámanna eru einnig viðurkennd sem ritning.

Biblían

Biblían er safn helgra rita sem hafa að geyma opinberanir Guðs til manna. Þessi rit ná yfir margar aldir, frá tíma Adams fram yfir þá tíma þegar postular Jesú Krists voru á lífi. Þau voru rituð af mörgum spámönnum sem uppi voru á ýmsum tímum í sögu heimsins.

Biblíunni er skipt í tvo hluta: Gamla testamentið og Nýja testamentið. Margir spádómar í Gamla testamentinu segja fyrir um komu frelsara og endurlausnara. Nýja testamentið segir frá lífi þess frelsara og endurlausnara, sem er Jesús Kristur. Það segir einnig frá stofnsetningu kirkju hans á þeim tíma. „Vér trúum, að Biblían sé orð Guðs, að svo miklu leyti sem hún er rétt þýdd“ (TA 1:8).

Með spámanninum Joseph Smith hefur Drottinn aukið við skilning okkar á nokkrum málsgreinum í Biblíunni. Drottinn blés spámanninum Joseph í brjóst að endurreisa sannleik í Biblíutextanum sem hafði glatast eða verið breytt síðan upphaflegu orðin voru rituð. Þessar innblásnu leiðréttingar eru kallaðar Þýðing Josephs Smith á Biblíunni. Valda hluta úr Þýðingu Josephs Smith er að finna í Leiðarvísi að ritningunum.

Mormónsbók

Mormónsbók er helg heimild um suma þeirra sem lifðu á meginlöndum Ameríku milli u.þ.b. 2000 f.Kr. og 400 e.Kr. Hún geymir fyllingu fagnaðarerindis Jesú Krists (sjá K&S 20:9; 42:12; 135:3). Mormónsbók greinir frá heimsókn Jesú Krists til fólksins í Ameríku skömmu eftir upprisu hans.

Joseph Smith þýddi Mormónsbók yfir á ensku með gjöf og krafti Guðs. Hann sagði að hún væri „réttari en allar aðrar bækur á jörðinni og burðarsteinn trúar okkar, og að maðurinn kæmist nær Guði með því að fara eftir kenningum hennar, fremur en nokkurrar annarrar bókar“ (formáli að Mormónsbók).

Ezra Taft Benson hjálpaði okkur að skilja hvernig Mormónsbók er burðarsteinn trúar okkar. Hann sagði:

„Það er með þrennum hætti að Mormónsbók er burðarsteinn trúar okkar. Hún er burðarsteinn sem vitni fyrir okkur um Krist. Hún er burðarsteinn kenninga okkar. Hún er burðarsteinn vitnisburðar.

Mormónsbók er burðarsteinn sem vitni okkar um Jesú Krist, sem sjálfur er burðarsteinn alls sem við gerum. Hún ber vitni um raunveruleika hans með krafti og af skýrleika. …

[hún] eykur við skilning okkar á kenningum sáluhjálpar. … Mormónsbók … var rituð fyrir okkar tíma. … Í [henni] finnum við hvernig má búa sig undir síðari komuna. …

… Mormónsbók kennir okkur sannleika [og] ber vitnisburð um Krist. … En það er fleira. Það er kraftur í bókinni sem streyma mun inn í líf ykkar frá þeirri stundu er þið af alvöru byrjið að lesa hana. Þið munuð finna aukinn kraft til að standast freistingar. Þið munuð finna kraft til að forðast blekkingar. Þið munuð finna kraft til að halda ykkur á hinum beina og þrönga vegi. Ritningarnar eru kallaðar ‘orð lífsins,’ og hvergi er það sannara heldur en hvað varðar Mormónsbók. … ‘Sérhver Síðari daga heilagur ætti að gera nám í þeirri bók að ævilöngu viðfangsefni’“ (í Conference Report, okt. 1986, 4–7; eða Ensign, nóv. 1986, 5–7; vitnað í Marion G. Romney, í Conference Report, apr. 1980, 90; eða Ensign, maí 1980, 67).

Kenning og sáttmálar

Kenning og sáttmálar er safn nútíma opinberana. Í kafla 1 í Kenningu og sáttmálum opinberar Drottinn að bókin sé gefin út til íbúa jarðarinnar til að búa þá undir komu hans:

„Rödd Drottins nær þess vegna til endimarka jarðar, svo að allir fái heyrt, sem heyra vilja:

Búið yður, búið yður undir það sem koma skal, því að Drottinn er í nánd“ (K&S 1:11–12).

Þessi bók inniheldur opinberanir varðandi Kirkju Jesú Krists eins og hún hefur verið endurreist á þessum síðstu dögum. Nokkrir kaflar bókarinnar útskýra skipulagningu kirkjunnar og skilgreina embætti prestdæmisins og hvernig þau virka. Aðrir kaflar, svo sem kaflar 76 og 88, innihalda dýrðlegan sannleika sem var glataður heiminum í hundruð ára. Enn aðrir, svo sem kaflar 29 og 93, varpa ljósi á kenningar í Biblíunni. Auk þess innihalda sumir kaflar, svo sem kafli 133, spádóma um ókomna atburði. Guð hefur boðið okkur að nema opinberanir hans í þessari bók: „Kannið þessi boð, því að þau eru sönn og áreiðanleg og spádómarnir og fyrirheitin, sem í þeim felast, munu öll uppfyllast“ (K&S 1:37).

Hin dýrmæta perla

Hin dýrmæta perla hefur að geyma Bók Móse, Bók Abrahams, og nokkur innblásin rit eftir Joseph Smith. Bók Móse geymir frásögn af sumum af sýnum og skrifum Móse, opinberað spámanninum Joseph Smith. Hún útskýrir kenningar og kennslu sem hafði glatast úr Biblíunni og veitir auknar upplýsingar viðvíkjandi sköpun jarðar.

Bók Abrahams er þýðing spámannsins Josephs Smith af papírus handriti sem tekið var úr egypskum katakombum. Sú bók geymir verðmætar upplýsingar um sköpunina, fagnaðarerindið, eðli Guðs og prestdæmið.

Rit Josephs Smith geyma hluta af innblásinni þýðingu Josephs Smith af Biblíunni, úrval úr riti hans History of the Church [Saga kirkjunnar], og Trúaratriðin.

  • Hvaða sögur úr ritningunum hafa veitt ykkur innblástur? Hvaða kenningar í þessum bókum ritninganna hafa hjálpað ykkur?

Orð okkar lifandi spámanna

Til viðbótar þessum fjórum bókum ritninganna hafa innblásin orð lifandi spámanna orðið okkur ritning. Orð þeirra berast okkur frá ráðstefnum, með Líahóna eða Ensign tímaritunum, og leiðbeiningum til staðarleiðtoga prestdæmisins. „Vér trúum öllu, sem Guð hefur opinberað, öllu, sem hann nú opinberar, og vér trúum að hann muni enn opinbera margt stórfenglegt og mikilvægt varðandi Guðs ríki“ (TA 1:9).

  • Hvar getum við fundið orð lifandi spámanna okkar?

Nema ritningarnar

  • Hvaða blessanir getum við hlotið þegar við nemum ritningarnar?

Við ættum hvert og eitt að nema ritningarnar á hverjum degi. Við ættum að deila þessum sannleika með börnum okkar. Við ættum að lesa helgiritin með börnum okkar svo að þau geti lært að elska þau og nota þau vegna þess sannleika sem í þeim er að finna.

Ef við þráum að forðast það sem illt er í heiminum, verðum við að næra huga okkar á þeim sannleik og því réttlæti sem við finnum í ritningunum. Við munum vaxa nær Guði og hvert öðru þegar við lesum og ígrundum ritningarnar saman.

Þegar við lesum, ígrundum, og biðjum varðandi ritningarnar og biðjum Guð um skilning, mun heilagur andi vitna fyrir okkur um sannleik þessara hluta. Við munum hvert um sig vita fyrir okkur sjálf að þetta er sannleikur. Við munum ekki láta blekkjast (sjá JS – M 1:37). Við getum fengið þá sömu tilfinningu og Nefí lét í ljós þegar hann sagði: „Sál mín hefur unun af öllu, sem Drottin snertir. Og hjarta mitt ígrundar án afláts það, sem ég hef séð og heyrt“ (2 Ne 4:16).

  • Hvernig getum við haldið þá skuldbindingu að nema ritningarnar dag hvern? Íhugið að skipuleggja tíma og stað til að nema ritningarnar dag hvern.

Viðbótarritningargreinar