Kafli 34
Þroskun hæfileika okkar
Öll höfum við sérstaka hæfileika og getu
Við höfum öll sérstakar gjafir, hæfileika og getu sem himneskur faðir okkar hefur gefið okkur. Þegar við fæddumst komum við með þessar gjafir, hæfileika og getu með okkur (sjá kafla 2 í þessari bók).
Spámaðurinn Móse var mikill leiðtogi, en hann þarfnaðist Arons, bróður síns, sér til hjálpar sem talsmanns (sjá 2 Mós 4:14–16). Sum erum við góðir leiðtogar eins og Móse eða mælskumenn eins og Aron. Sum syngjum við vel eða leikum á hljóðfæri. Aðrir eru góðir íþróttamenn eða handverksmenn. Aðrir hæfileikar sem við kunnum að búa yfir eru skilningur á öðrum, þolinmæði, glaðlyndi eða hæfileiki til að kenna öðrum.
-
Hvernig hafið þið notið góðs af hæfileikum annarra?
Við eigum að nota hæfileika okkar og bæta þá
-
Hvernig getum við þroskað hæfileika okkar?
Við berum ábyrgð á að þroska þá hæfileika sem okkur hafa verið gefnir. Stundum teljum við okkur ekki búa yfir miklum hæfileikum eða að aðrir hafi verið blessaðir með meiri hæfileikum en við. Stundum notum við ekki hæfileika okkar af ótta við að okkur mistakist eða við verðum fyrir gagnrýni annarra. Við eigum ekki að fela hæfileika okkar. Við eigum að nota þá. Þá geta aðrir séð góð verk okkar og vegsamað himneskan föður (sjá Matt 5:16).
Við þurfum að gera ákveðna hluti til að þroska hæfileika okkar. Í fyrsta lagi verðum við að uppgötva hæfileika okkar. Við ættum að grannskoða okkur sjálf til að finna styrk okkar og hæfileika. Fjölskylda og vinir geta hjálpað okkur við það. Við ættum einnig að biðja himneskan föður um hjálp til að þekkja hæfileika okkar.
Í öðru lagi verðum við að vera fús til að fórna tíma og orku í að þroska þá hæfileika sem við leitum eftir.
Í þriðja lagi verðum við að hafa trú á að himneskur faðir hjálpi okkur, og við verðum að hafa trú á okkur sjálfum.
Í fjórða lagi verðum við að læra það sem þarf til að þroska hæfileika okkar. Við gerum það með því að sækja námskeið, biðja einhvern að kenna okkur, eða læra það af bókum.
Í fimmta lagi verðum við að þjálfa okkur í að nota hæfileika okkar. Það krefst áreynslu og vinnu, hver sem hæfileikinn er. Vinna verður að fullkominni hæfni.
Í sjötta lagi verðum við að deila hæfileikum okkar með öðrum. Við þroskum hæfileikana með því að nota þá (sjá Matt 25:29).
Öll þessi skref verða auðveldari, ef við biðjumst fyrir og leitum hjálpar Drottins. Hann vill að við þroskum hæfileika okkar og hann mun hjálpa okkur.
Við getum þroskað hæfileika okkar þrátt fyrir veikleika okkar
-
Hvernig getum við þroskað hæfileika okkar þrátt fyrir veikleika okkar?
Við erum dauðleg og fallin og því höfum við veikleika. Með hjálp Drottins getum við sigrast á veikleikum okkar og föllnu eðli (sjá Eter 12:27, 37). Beethoven samdi mestu tónsmíðar sínar eftir að hann varð heyrnarlaus. Enok sigraðist á málhelti sinni og varð kraftmikill kennari (sjá HDP Móse 6:26–47).
Sumir bestu íþróttamennirnir hafa orðið að sigrast á bæklun áður en þeim tókst að þroska hæfileika sína. Shelly Mann er gott dæmi um slíkt. „Fimm ára gömul fékk hún lömunarveiki … Foreldrar hennar fóru daglega með hana í sund í von um að vatnið héldi uppi handleggjum hennar þegar hún reyndi að nota þá á ný. Þegar hún gat sjálf lyft handleggnum upp úr vatninu grét hún af gleði. Þá varð takmark hennar að synda þvert yfir laugina, þar næst eftir henni endilangri og síðan nokkrar ferðir. Hún hélt áfram að reyna, synti og þoldi áreynsluna dag eftir dag, uns hún vann [Ólimpísk] gullverðlaun fyrir flugsund – eina allra erfiðustu sundgreinina.“ (Marvin J. Ashton, í Conference Report, apr. 1975, 127; eða Ensign, maí 1975, 86).
Heber J. Grant sigraðist á mörgum veikleikum sínum og breytti þeim í hæfileika. Einkunnarorð hans voru: „Það sem við höldum áfram að gera verður stöðugt auðveldara. Ekki að eðli þess hafi breyst, heldur hæfni okkar aukist til að gera það“ (Teachings of Presidents of the Church: Heber J. Grant [2002], 35).
Drottinn mun blessa okkur ef við notum hæfileika okkar skynsamlega
Joseph F. Smith forseti sagði: „Sérhver sonur og dóttir Guðs hefur fengið einhvern hæfileika og öll verðum við látin gera nákvæma grein fyrir notkun eða misnotkun þeirra“ (Gospel Doctrine, 5. útg. [1939], 370). Hæfileiki er nokkurs konar ráðsmennska (ábyrgð í Guðsríki). Dæmisagan um talenturnar segir okkur, að þegar við sinnum ráðsmennsku okkar vel mun okkur fengin aukin ábyrgð. Ef við þjónum ekki vel, verður ráðsmennskan að lokum frá okkur tekin (sjá Matt 25:14–30).
Okkur er einnig sagt í ritningunum að við verðum dæmd af verkum okkar (sjá Matt 16:27). Þegar við þroskum og notum hæfileika okkar í annarra þágu vinnum við góðverk.
Drottinn er ánægður þegar við notum hæfileika okkar skynsamlega Hann mun blessa okkur ef við notum hæfileika okkar í annarra þágu og til að byggja upp ríki hans hér á jörðu. Meðal þeirra blessana sem við hljótum eru gleði og kærleikur sem fylgja því að þjóna systkinum sínum hér á jörðu. Við lærum einnig sjálfsaga. Allt er þetta nauðsynlegt, ef við ætlum að verða verðug þess að lifa aftur hjá himneskum föður.
-
Vitið þið dæmi um fólk sem hefur aukið hæfileika sína með því að nota þá viturlega? (Íhugið fólk sem þið þekkið eða fólk í ritningunum eða kirkjusögunni.)
Viðbótarritningargreinar
-
Jakbr 1:17 (gjafir eru frá Guði komnar)
-
K&S 46:8–11; 1 Tím 4:14 (þroskun náðargjafa)
-
2 Kor 12:9 (hið veika verður að styrk)
-
Op 20:13; 1 Ne 15:33; K&S 19:3 (dæmd af verkum okkar)
-
Hebr 13:21 (vinna góðverk)