Kafli 6
Fall Adams og Evu
Adam og Eva voru þau fyrstu sem komu á þessa jörð
-
Hvað er okkur helst til vitnis um að Adam og Eva voru hugdjarfir andar?
Guð undirbjó þessa jörð sem heimili fyrir börn sín. Adam og Eva voru valin til að verða fyrsta fólkið sem lifði á jörðunni (sjá HDP Móse 1:34; 4:26). Hlutverk þeirra í áætlun föður okkar var að færa dauðleika inn í heiminn. Þau áttu að verða fyrstu foreldrarnir (sjá K&S 107:54–56).
Adam og Eva voru meðal göfugustu barna föður okkar. Í andaheiminum var Adam nefndur Míkael erkiengill (sjá K&S 27:11; Júd 1:9). Hann var valinn af okkar himneska föður til að leiða hina réttlátu í stríðinu á himni gegn Satan (sjá Op 12:7–9). Adam og Eva voru forvígð til að verða frumforeldrar okkar. Drottinn hét Adam miklum blessunum: „Ég hef sett þig fremstan, og frá þér mun koma fjöldi þjóða og þú ert höfðingi þeirra að eilífu“ (K&S 107:55).
Eva var „móðir allra lifenda“ (HDP Móse 4:26). Guð gaf Adam og Evu saman í hjónaband vegna þess að „eigi er gott að maðurinn sé einsamall“ (HDP Móse 3:18; sjá einnig 1 Kor 11:11). Hún deildi ábyrgðinni með Adam og mun einnig deila með honum eilífum blessunum.
-
Hvað getum við lært af fordæmi Adams og Evu?
Aldingarðurinn Eden
-
Við hvaða aðstæður bjuggu Adam og Eva í aldingarðinum Eden?
Þegar Adam og Eva voru sett í aldingarðinn Eden, voru þau ekki enn orðin dauðleg. Í því ástandi, „hefði [þeim] ekki orðið barna auðið“ (2 Ne 2:23). Það var enginn dauði. Þau höfðu efnislegt líf vegna þess að andar þeirra voru hýstir í efnislíkama gerðum úr dufti jarðar (sjá HDP Móse 6:59; Abr 5:7). Þau höfðu andlegt líf vegna þess að þau voru í návist Guðs. Þau höfðu ekki ennþá valið milli góðs og ills.
Guð bauð þeim að eignast börn. Hann sagði: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið hana ykkur undirgefna og drottnið yfir … öllu, sem lifir og hrærist á jörðunni“ (HDP Móse 2:28). Guð sagði þeim að þeim væri frjálst að eta af öllum trjám í garðinum utan einu, skilningstré góðs og ills. Varðandi það tré sagði Guð: „Á þeim degi sem þú etur af því, munt þú örugglega deyja“ (HDP Móse 3:17).
Satan, sem ekki þekkti huga Guðs en reyndi að eyðileggja áætlun hans, kom til Evu í aldingarðinum Eden. Hann freistaði hennar til að eta af ávexti skilningstrés góðs og ills. Hann fullyrti við hana að hún og Adam mundu ekki deyja, heldur „verðið [þið] sem guðir, vitið skyn góðs og ills“ (HDP Móse 4:11). Eva lét undan freistingunni og át ávöxtinn. Þegar Adam komst að því hvað gerst hafði, valdi hann að eta líka. Breytingarnar sem komu yfir Adam og Evu vegna þess að þau átu ávöxtinn eru nefndar fallið.
Aðskilnaður Adams og Evu frá Guði
-
Hvaða líkamlegar og andlegar breytingar urðu á Adam og Evu sem afleiðing af broti þeirra?
Vegna þess að Adam og Eva höfðu etið af ávexti skilningstrés góðs og ills, vísaði Drottinn þeim út úr aldingarðinum Eden og inn í heiminn. Líkamlegt ástand þeirra breyttist sem afleiðing af því að eta hinn forboðna ávöxt. Eins og Guð hafði lofað, urðu þau dauðleg. Þau og börn þeirra mundu reyna sjúkdóma, sársauka og líkamlegan dauða.
Vegna brots þeirra, liðu Adam og Eva einnig andlegan dauða. Þetta þýddi að þau og börn þeirra gátu ekki gengið með Guði og talað við hann augliti til auglitis. Adam og Eva og börn þeirra voru aðskilin frá Guði bæði líkamlega og andlega.
Brotið leiddi til mikilla blessana
-
Hvernig færir fallið okkur tækifæri til að verða lík okkar himneska föður?
Sumir álíta að Adam og Eva hafi drýgt alvarlega synd þegar þau átu af skilningstré góðs og ills. Á hinn bóginn hjálpa síðari daga ritningar okkur að skilja, að fall þeirra var nauðsynlegt skref í áætlun lífsins og mikil blessun fyrir okkur öll. Vegna fallsins erum við blessuð með efnislegum líkama, réttinum til að velja milli góðs og ills og tækifærinu til að öðlast eilíft líf. Ekkert þessara forréttinda væru okkar hefðu Adam og Eva dvalið áfram í garðinum.
Eftir fallið sagði Eva: „Ef ekki væri fyrir brot okkar, hefðum við aldrei eignast afkvæmi og aldrei þekkt gott frá illu, né gleði endurlausnar okkar og eilíft líf, sem Guð gefur öllum þeim, sem hlýðnast“ (HDP Móse 5:11).
Spámaðurinn Lehí útskýrði:
Og sjá. Hefði nú Adam ekki brotið af sér, hefði hann ekki fallið, heldur dvalið um kyrrt í aldingarðinum Eden. Og allt, sem skapað var, hefði orðið að haldast í óbreyttri mynd, frá því sem varð eftir sköpunina. …
„Og þeim hefði ekki orðið barna auðið og hefðu þannig haldið áfram í sakleysi án nokkurrar gleði, þar eð þau þekktu enga vansæld. Og þau hefðu ekkert gott gjört, þar eð þau þekktu enga synd.
En sjá. Allt hefur verið gjört af visku þess, sem allt veit.
Adam féll svo að menn mættu lifa. Og menn lifa, svo að þeir megi gleði njóta“ (2 Ne 2:22–25).
-
Hvers vegna teljið þið að mikilvægt sé að vita um fallið og hver áhrif það hefur á okkur?
Viðbótarritningargreinar
-
1 Ne 5:11; 2 Ne 2:20 (Adam og Eva frumforeldrar, fjölskylda)
-
2 Ne 2:14–21 (andstæður og fallið; lífið reynslutími)
-
2 Nei 2:22–26 (fallið hluti af sáluhjálparáætluninni)