Bækur og lexíur
Kafli 47: Upphafning


Kafli 47

Upphafning

Two planets orbiting in a sky where clouds show swirlling movement.

Áætlunin um framþróun okkar

Þegar við lifðum hjá himneskum föður, útskýrði hann fyrir okkur áætlunina um framþróun okkar. Við yrðum honum lík, upphafnar verur. Áætlunin krafðist þess að við færum frá honum og kæmum til jarðar. Sá aðskilnaður var nauðsynlegur til að sannreyna hvort við myndum hlýða boðorðum föðurins, jafnvel þótt við værum ekki lengur í návist hans. Áætlunin gerði ráð fyrir að við yrðum dæmd að jarðlífi loknu og hlytum laun í samræmi við trú okkar og hlýðni.

Af ritningunum lærum við að þrjú dýrðarríki eru á himni. Páll postuli minntist á mann sem var „hrifinn burt allt til þriðja himins“ (2 Kor 12:2). Páll nefnir tvö af ríkjum himins: Það himneska og það yfirjarðneska (sjá 1 Kor 15:40–42). Hið himneska er það æðsta og hið yfirjarðneska er annað í röðinni. Í síðari daga opinberunum lærum við að þriðja ríkið er jarðneska ríkið (sjá K&S 76:81). Við lærum einnig að það séu þrír himnar eða stig innan himneska ríkisins (sjá K&S 131:1).

Upphafning

  • Hvað er upphafning?

Upphafning er eilíft líf, sams konar líf og Guð lifir. Hann lifir í mikilli dýrð. Hann er fullkominn. Hann býr yfir allri þekkingu og allri visku. Hann er faðir andabarnanna. Hann er skapari. Við getum orðið lík himneskum föður okkar. Það er upphafning.

Ef við reynumst Drottni trú, munum við lifa í æðstu dýrð himneska ríkisins. Við verðum upphafin, til að lifa hjá himneskum föður í eilífum fjölskyldum. Upphafning er stærsta gjöfin sem himneskur faðir getur gefið börnum sínum (sjá K&S 14:7).

Blessanir upphafningar

  • Hverjar eru sumar þær blessanir sem fylgja upphafningu?

Himneskur faðir okkar er fullkominn, og hann fagnar þeirri staðreynd að mögulegt sé fyrir börn hans að verða honum lík. Verk hans og dýrð er „að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39).

Þeir sem hljóta upphafningu í himneska ríkinu öðlast sérstakar blessanir. Drottinn hefur lofað: „Allt er þeirra“ (K&S 76:59). Nokkrar þeirra sérstöku blessana, sem fylgja upphafningu manna, eru þessar:

  1. Þeir munu að eilífu lifa í návist himnesks föður og Jesú Krists (sjá K&S 76:62).

  2. Þeir verða guðir (sjá K&S 132:20–23).

  3. Þeir verða að eilífu sameinaðir réttlátri fjölskyldu sinni og munu geta eilíflega bætt við sig.

  4. Þeir öðlast fyllingu gleðinnar.

  5. Þeir munu eiga allt sem himneskur faðir og Jesús Kristur eiga – allt vald, dýrð, yfirráð og þekkingu (sjá K&S 132:19–20). Joseph Fielding Smith forseti ritaði: „Faðirinn hefur lofað, með syninum, að allt sem hann á, verði gefið þeim sem hlýða boðorðum hans. Þekking þeirra, viska og vald mun aukast, þau munu fara frá dýrð til dýrðar, uns fylling hins fullkomna dags mun opnast þeim“ (Doctrines of Salvation, Bruce R. McConkie, tók saman, 3 bindi [1954–56], 2:36; leturbreyting í frumriti).

Skilyrði upphafningar

Tíminn til að uppfylla skilyrðin fyrir upphafningu er nú (sjá Al 34:32–34). Joseph Fielding Smith forseti sagði: „Til þess að öðlast upphafningu verðum við að taka á móti fagnaðarerindinu og öllum sáttmálum þess og taka á okkur þær skyldur sem Drottinn býður. Við verðum að ganga í ljósi og sannleika og ‘lifa eftir hverju því orði sem fram gengur af munni Guðs’“ (Doctrines of Salvation, 2:43).

Til þess að hljóta upphafningu verðum við í fyrsta lagi að setja trú okkar á Jesú Krist og standa staðföst í þeirri trú alla ævi. Trúin á hann verður að vera slík, að við iðrumst synda okkar og hlýðum boðorðum hans.

Hann bauð okkur öllum að meðtaka ákveðnar helgiathafnir:

  1. Við verðum að láta skírast.

  2. Við verðum að meðtaka handayfirlagningu til að vera staðfest sem þegnar Kirkju Jesú Krists og meðtaka gjöf heilags anda.

  3. Bræður verða að meðtaka Melkísedeksprestdæmið og efla kallanir sínar í prestdæminu.

  4. Við verðum að taka á móti musterisgjöfinni.

  5. Við verðum að hljóta hjónavígslu fyrir alla eilífð, annað hvort í þessu lífi eða því næsta.

Auk þess að meðtaka nauðsynlegar helgiathafnir, býður Drottinn okkur öllum að:

  1. Elska Guð og náunga okkar.

  2. Halda boðorðin.

  3. Iðrist misgjörða okkar.

  4. Leita að látnum ættingjum og meðtaka frelsandi helgiathafnir fagnaðarerindisins fyrir þá.

  5. Sækja kirkjusamkomur eins reglulega og við getum svo við getum endurnýjað skírnarsáttmála okkar með því að taka sakramentið.

  6. Elska fjölskyldumeðlimi okkar og styrkja þau á vegum Drottins.

  7. Hafa fjölskyldu- og einkabænir dag hvern.

  8. Kenna fagnaðarerindið öðrum í orði og með fordæmi.

  9. Nema ritningarnar.

  10. Hlusta á innblásin orð spámanna Drottins og hlýða þeim.

Að lokum verðum við öll að taka á móti heilögum anda og hvert fyrir sig læra að fylgja leiðsögn hans.

  • Hvernig búa helgiathafnir og sáttmálar okkur undir upphafningu?

  • Hvernig hjálpar trú á Jesú Krist okkur til að hlýða boðorðunum?

  • Hvers vegna verðum við að læra að fylgja leiðbeiningum heilags anda til að öðlast upphafningu?

Eftir að við höfum verið trúföst og staðið stöðug allt til enda

  • Hvað gerist þegar við höfum staðið stöðug allt til enda sem trúfastir lærisveinar Krists?

Drottinn hefur sagt: „Ef þú heldur boðorð mín og stendur stöðugur allt til enda, skalt þú öðlast eilíft líf, en sú gjöf er mest allra gjafa Guðs“ (K&S 14:7). Joseph Fielding Smith forseti sagði: „Ef við höldum áfram í Guði, það er, höldum boðorð hans, tilbiðjum hann og lifum eftir sannleik hans, þá mun sú stund koma að við verðum böðuð fyllingu sannleikans, sem verða mun skærari og skærari þar til hinn fullkomna dag“ (Doctrines of Salvation, 2:36).

Spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „Þegar við göngum upp stiga verðum við að byrja neðst og stíga upp þrep af þrepi, uns við náum toppnum og þannig er það með reglur fagnaðarerindisins – við verðum að byrja á þeirri fyrstu og halda áfram uns við höfum lært allar reglur upphafningar. En löng stund mun líða, eftir að við höfum farið í gegnum huluna [dáið], áður en við höfum lært þær. Þetta skilst ekki allt í þessum heimi; það verður mikil vinna að læra sáluhjálp okkar og upphafningu jafnvel handan grafarinnar“ (Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith [2007], 268).

Joseph Smith kenndi: „Það er frumregla fagnaðarerindisins að þekkja með vissu eiginleika Guðs. … Hann var eitt sinn maður eins og við … Guð sjálfur, faðir okkar allra, dvaldi á jörðu, eins og Jesús Kristur sjálfur gerði“ (Teachings of the Prophet Joseph Smith, Joseph Fielding Smith valdi [1976], 345–46).

Himneskur faðir þekkir erfiðleika okkar, veikleika okkar og syndir. Hann sýnir okkur samúð og miskunn. Hann vill að okkur vegni vel eins og honum.

Ímyndið ykkur gleði okkar allra, þegar við snúum aftur til himnesks föður, ef við getum sagt: „Faðir, ég lifði í samræmi við vilja þinn. Ég hef verið trú/r og haldið öll boðorð þín. Ég gleðst yfir að vera komin/n heim.“ Þá munum við heyra hann segja: „Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns“ (Matt 25:23).

  • Farið yfir Matt 25:23. Hugsið um hvernig ykkur mundi líða ef þið heyrðuð frelsarann segja þessi orð við ykkur.

Viðbótarritningargreinar