Bækur og lexíur
Kafli 23: Sakramentið


Kafli 23

Sakramentið

Ljósmynd
Jesus Christ depicted preparing the sacrament for the Last Supper.

Kristur innleiddi sakramentið

  • Hvað kenna tákn sakramentisins um friðþægingu Jesú Krists?

Frelsarinn vill að við munum hina miklu friðþægingarfórn hans og höldum boðorð hans. Til að minna okkur á það hefur hann boðið okkur að koma oft saman og meðtaka sakramentið.

Sakramentið er heilög prestdæmisathöfn, sem minnir okkur á friðþægingu frelsarans. Við sakramentið neytum við brauðs og vatns. Við gerum það í minningu um hold hans og blóð, sem hann fórnaði okkar vegna. Þegar við meðtökum sakramentið endurnýjum við helga sáttmála við himneskan föður.

Skömmu fyrir krossfestingu sína safnaði Jesús postulum sínum saman í loftsal einum. Hann vissi að hann myndi senn deyja á krossinum. Þetta yrði í síðasta sinn sem hann hitti þessa kæru vini fyrir dauða sinn. Hann vildi að þeir hefðu hann ávallt í huga svo þeir gætu verið sterkir og trúfastir.

Til að hjálpa þeim að muna, innleiddi hann sakramentið. Hann braut brauð í bita og blessaði það. Síðan sagði hann: „Takið og etið. Þetta er í minningu líkama míns, er ég gef sem lausnargjald fyrir yður“ (ÞJS, Matt 26:22). Næst tók hann bikar með víni, blessaði það og gaf postulunum að drekka. Hann sagði: „Drekkið af honum allir. Því að þetta er í minningu blóðs míns sem úthellt er fyrir alla er trúa munu á nafn mitt, til fyrirgefningar synda þeirra“ (ÞJS Matt 26:24; sjá einnig Matt 26:26–28; Mark 14:22–24; Lúk 22:15–20).

Eftir upprisu sína kom Jesús til íbúa Ameríku og þar kenndi hann Nefítum sömu helgiathöfn (sjá 3 Ne 18:1–11; 20:1–9). Eftir að kirkjan var endurreist á síðari dögum, bauð Jesús enn og aftur fólki sínu að meðtaka sakramentið í minningu hans og sagði: „Æskilegt er að kirkjan komi oft saman til að meðtaka brauð og vín í minningu Drottins Jesú“ (K&S 20:75).

Hvernig sakramentinu er útdeilt

Ritningarnar skýra nákvæmlega frá því hvernig þjónusta eigi sakramentið. Kirkjuþegnar koma saman hvern hvíldardag til að tilbiðja Guð og meðtaka sakramentið (sjá K&S 20:75). Sakramentið veita þeir sem hafa til þess nauðsynlegt prestdæmisvald. Prestur eða Melkísedeksprestdæmishafi brýtur brauðið, krýpur og blessar það (sjá K&S 20:76). Djákni eða annar prestdæmishafi útdeilir síðan brauðinu til safnaðarins. Þar næst blessar prestur eða Melkísedeksprestdæmishafi vatnið og því er útdeilt til kirkjuþegna. Jesús gaf lærisveinum sínum vín þegar hann innleiddi sakramentið. Í síðari tíma opinberun hefur hann þó sagt, að það skipti ekki máli hvað við etum eða drekkum við sakramentið, svo fremi að við minnumst hans (sjá K&S 27:2–3). Nú drekka Síðari daga heilagir vatn í stað víns.

Jesús hefur opinberað nákvæmt orðalag beggja sakramentisbænanna. Við ættum að hlusta vandlega á þessar fögru bænir og reyna að skilja hvaða loforð við gefum og hverju er verið að lofa okkur. Hér er bænin sem flutt er til að blessa brauðið:

„Ó Guð, eilífi faðir. Í nafni sonar þíns, Jesú Krists, biðjum vér þig að blessa og helga þetta brauð fyrir sálir allra, er þess neyta; að þau neyti þess til minningar um líkama sonar þíns, og vitni fyrir þér, ó Guð, eilífi faðir, að þau séu fús til að taka á sig nafn sonar þíns og hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans, sem hann hefur gefið þeim, svo að andi hans sé ætíð með þeim. Amen“ (K&S 20:77).

Hér er bænin sem flutt er til að blessa vatnið:

„Ó Guð, eilífi faðir. Í nafni sonar þíns, Jesú Krists, biðjum vér þig að blessa og helga þetta vín [vatn] fyrir sálir allra, er það drekka; að þau gjöri svo til minningar um blóð sonar þíns, sem úthellt var fyrir þau, og vitni fyrir þér, ó Guð, eilífi faðir, að þau hafi hann ávallt í huga svo að andi hans sé með þeim. Amen“ (K&S 20:79).

Framkvæmd sakramentisins er einföld og lotningarfull.

  • Farið gætilega yfir sakramentisbænirnar. Hugsið um merkingu hverrar setningar.

Sáttmálarnir sem við endurnýjum með sakramentinu

  • Hvaða sáttmála endurnýjum við með sakramentinu? Hvaða blessunum lofar Drottinn okkur ef við höldum þessa sáttmála?

Í hvert sinn sem við meðtökum sakramentið endurnýjum við sáttmálana við Drottin. Sáttmáli er heilagt loforð milli Drottins og barna hans. Sáttmálarnir sem við gerum eru greinilega settir fram í sakramentisbænunum. Mikilvægt er að vita hverjir þeir sáttmálar eru og hvað þeir tákna.

Við gerum sáttmála um að taka á okkur nafn Jesú Krists. Á þann hátt sýnum við að við erum fús til þess að vera kennd við hann og kirkju hans. Við skuldbindum okkur til að þjóna honum og meðbræðrum okkar. Við lofum því að leiða aldrei smán eða minnkun yfir það nafn.

Við gerum sáttmála um að muna ávallt Jesú Krist. Hann og starf hans mun hafa áhrif á allar hugsanir okkar, tilfinningar og gjörðir.

Við lofum að halda boðorð hans.

Við tökum á okkur þessar skyldur þegar við látum skírast (sjá K&S 20:37; Mósía 18:6–10). Þannig, að þegar við meðtökum sakramentið, endurnýjum við sáttmálana sem við gerðum þegar við vorum skírð. Jesús gaf okkur ferilinn er við meðtökum sakramentið (sjá 3 Ne 18:1–12) og sagði að þegar við fylgjum þeim ferli, iðrumst synda okkar og trúum á nafn hans, munum við öðlast fyrirgefningu synda okkar (sjá ÞJS Matt 26:24).

Drottinn lofar, að ef við höldum sáttmála okkar, munum við ávallt hafa anda hans með okkur. Sá sem leiddur er af andanum hlýtur þekkingu, trú, kraft og réttlæti til að öðlast eilíft líf.

  • Hvað getum við gert til að minnast þessara loforða yfir vikuna?

Viðhorf okkar þegar við meðtökum sakramentið

  • Hvernig getum við búið okkur undir að meðtaka sakramentið? Hvað getum við hugsað um á meðan sakramentinu er útdeilt sem minnir okkur á friðþægingu frelsarans?

Áður en við meðtökum sakramentið eigum við að undirbúa okkur andlega. Drottinn hefur lagt áherslu á að enginn óverðugur eigi að meðtaka sakramentið. Það merkir að við verðum að iðrast synda okkar áður en við tökum sakramentið. Ritningarnar segja: „Hafi einhver samt sem áður brotið af sér, skuluð þér ekki leyfa honum að meðtaka það, fyrr en hann hefur gjört yfirbót“ (K&S 46:4). Drottinn gaf tólf Nefíta lærisveinum sínum fyrirmæli: „Að þér vísvitandi leyfið engum óverðugum að þiggja hold mitt og blóð, þegar þér veitið það. Því að hver sá, sem óverðugur etur og drekkur hold mitt og blóð, etur og grekkur sálu sinni til fordæmingar“ (3 Ne 18:28–29).

Við sakramentið eigum við að tæma hugann af öllum veraldlegum hugsunum. Við eigum að vera bænheit og lotningarfull. Við eigum að hugsa um friðþægingu frelsara okkar og vera þakklát fyrir hana. Við ættum að skoða líf okkar og leita að leiðum til úrbóta. Við ættum einnig að styrkja ákvörðun okkar um að halda boðorðin.

Við þurfum ekki að vera fullkomin áður en við meðtökum sakramentið, en við verðum að vera iðrandi í hjarta. Viðhorf okkar er við meðtökum sakramentið hefur áhrif á reynslu okkar í sambandi við það. Ef við meðtökum sakramentið með hreinu hjarta, hljótum við þær blessanir sem Drottinn hefur lofað.

  • Hvers vegna haldið þið að það að meðtaka sakramentið auki andlegan styrk okkar?

Viðbótarritningargreinar

Prenta