Bækur og lexíur
Kafli 7: Heilagur andi


Kafli 7

Heilagur andi

Heilagur andi kom til Adams og Evu

  • Hvers vegna þörfnuðust Adam og Eva leiðsagnar heilags anda?

Eftir að Adam og Eva yfirgáfu aldingarðinn Eden, hófu þau að yrkja jörðina og vinna önnur störf sér til lífsframfæris. Þau eignuðust mörg börn, og synir þeirra og dætur giftust einnig og áttu börn (sjá HDP Móse 5:1–3). Þannig hófu andabörn okkar himneska föður að yfirgefa návist hans og koma til jarðar eins og þeim hafði verið lofað (sjá Abr 3:24–25). Þegar þau komu til jarðar var minningin um himneskt heimili þeirra tekin frá þeim. En faðir okkar útilokaði þau ekki frá áhrifum sínum. Hann sendi heilagan anda til að hugga öll andabörn sín og leiðbeina þeim.

Adam og Eva ávörpuðu himneskan föður í bæn. Hann talaði við þau og gaf þeim boðorð, sem þau hlýddu. Engill Drottins kom og kenndi Adam og Evu sáluhjálparáætlunina. Drottinn sendi heilagan anda til að vitna um föðurinn og soninn og til að kenna Adam og Evu fagnaðarerindið (sjá HDP Móse 5:4–9).

Með krafti heilags anda hóf Adam „að spá varðandi allar fjölskyldur jarðarinnar og sagði: Blessað sé nafn Guðs, því að vegna brots míns hafa augu mín lokist upp, og í þessu lífi mun ég gleði njóta, og í holdinu mun ég aftur sjá Guð“ (HDP Móse 5:10). Vegna vitnisburðar heilags anda til Evu, sagði hún: „Ef ekki væri fyrir brot okkar, hefðum við aldrei eignast afkvæmi og aldrei þekkt gott frá illu, né gleði endurlausnar okkar og eilíft líf, sem Guð gefur öllum þeim, sem hlýðnast“ (HDP Móse 5:11).

  • Hvernig líkist þörf okkar fyrir leiðsögn heilags anda þörf Adams og Evu?

Eiginleikar heilags anda

  • Á hvern hátt er heilagur andi frábrugðinn föðurnum og syninum? Hvers vegna er sá mismunur mikilvægur fyrir okkur?

Heilagur andi er meðlimur Guðdómsins (sjá 1 Jóh 5:7; K&S 20:28). Hann er „andavera“ (K&S 130:22). Hann getur verið á aðeins einum stað í einu en áhrifa hans getur gætt hvarvetna á sama tíma.

Himneskur faðir, Jesús Kristur og heilagur andi nefnast Guðdómurinn. Þeir eru sameinaðir í tilgangi. Hver um sig hefur mikilvægu hlutverki að gegna í sáluhjálparáætluninni. Himneskur faðir okkar er faðir okkar og stjórnandi. Jesús Kristur er frelsari okkar. Heilagur andi er afhjúpari og sá sem vitnar um allan sannleik.

Heilagur andi er sendiboði okkar himneska föður og er sérstök gjöf til okkar (sjá kafla 21 í þessari bók).

Hlutverk heilags anda

  • Hver eru sum þeirra sannleiksatriða sem heilagur andi afhjúpar fyrir okkur?

Hlutverk heilags anda er að bera vitni um föðurinn og soninn og um sannleiksgildi allra hluta.

Heilagur andi mun bera okkur vitni um að Jesús er frelsari okkar og lausnari (sjá 3 Ne 28:11; K&S 20:27). Hann mun opinbera okkur að himneskur faðir er faðir anda okkar. Hann mun hjálpa okkur að skilja að við getum orðið upphafin eins og himneskur faðir (sjá Róm 8:16–17). Spámenn Drottins hafa lofað: „Fyrir kraft heilags anda getið þér fengið að vita sannleiksgildi allra hluta“ (Moró 10:5).

Án heilags anda, gætum við ekki vitað að Jesús er Kristur. Páll postuli ritaði: „Enginn getur sagt: Jesús er Drottinn! nema af heilögum anda“ (1 Kor 12:3). Frelsarinn sagði sjálfur: „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist“ (Jóh 17:3). Það er með krafti heilags anda að við fáum skilið og lifað eftir fagnaðarerindi Jesú Krists.

Sannfæringarkraftur heilags anda er svo mikill, að enginn efi kemst að um að það sem hann afhjúpar okkur sé satt. Joseph Fielding Smith, forseti sagði:

„Þegar maðurinn fær staðfestingu frá heilögum anda, hefur það óafmánleg áhrif á sál hans, nokkuð sem ekki verður svo auðveldlega afmáð. Það er andinn að tala við anda og það gerist með sannfærandi krafti. Staðfesting frá engli, eða jafnvel frá syni Guðs sjálfum, mundi hrífa augað og hugann, og að lokum myrkvast, en áhrifin frá heilögum anda sökkva dýpra inn í sálina og þau er erfiðara að afmá“ (Answers to Gospel Questions, í samantekt Joseph Fielding Smith Jr., 5 bindi. [1957–66], 2:151).

Smith forseti sagði einnig: „Með heilögum anda er sannleikurinn ofinn inn í hvern þráð og hverja sin líkamans svo að hann getur ekki gleymst“ (Doctrines of Salvation, í samantekt Bruce R. McConkie, 3 bindi. [1954–56], 1:48).

Sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu ættum við að gera okkur sjálf verðug þess að taka á móti þessum sérstaka sendiboða og vitni um himneskan föður okkar og Jesú Krist.

  • Hugsið um þær stundir þegar heilagur andi hefur hjálpað ykkur að vaxa í vitnisburði ykkar. Deilið einhverju af þessari reynslu með nemendum eða fjölskyldumeðlimum, eftir því sem við á.

Viðbótarritningargreinar