101. Kafli
Opinberun gefin spámanninum Joseph Smith í Kirtland, Ohio, 16. og 17. desember 1833. Á þessum tíma þoldu hinir heilögu, sem safnast höfðu saman í Missouri, miklar ofsóknir. Múgur manns hafði hrakið þá frá heimilum þeirra í Jacksonsýslu og nokkrir hinna heilögu höfðu reynt að koma sér fyrir í Van Buren-, Lafayette- og Raysýslum, en ofsóknirnar fylgdu þeim. Meginhluti hinna heilögu var á þessum tíma í Claysýslu, Missouri. Mörgum meðlimum kirkjunnar var hótað dauða. Hinir heilögu í Jackson sýslu höfðu misst húsbúnað, klæði, búpening og aðrar persónulegar eigur, og mikið af uppskeru þeirra hafði verið eyðilagt.
1–8, Hinir heilögu eru agaðir og aðþrengdir vegna brota sinna; 9–15, Réttlát reiði Drottins mun falla yfir þjóðirnar, en fólki hans mun safnað saman og það verða huggað; 16–21, Síon og stikur hennar verða stofnaðar; 22–31, Lífinu í þúsund ára ríkinu lýst; 32–42, Þá munu hinir heilögu blessaðir og þeim launað; 43–62, Dæmisagan um aðalsmanninn og olífutrén sýnir erfiðleika og endanlega endurlausn Síonar; 63–75, Hinir heilögu skulu halda áfram sameiningu sinni; 76–80, Drottinn stofnsetti stjórnarskrá Bandaríkjanna; 81–101, Hinir heilögu skulu fara fram á miskabætur samkvæmt dæmisögunni um konuna og rangláta dómarann.
1 Sannlega segi ég yður varðandi bræður yðar, sem aðþrengdir hafa verið og ofsóttir og hraktir af erfðalandi sínu —
2 Ég, Drottinn, hef leyft þessum þrengingum að koma yfir þá, en sú þrenging þeirra er afleiðing brota þeirra —
3 Samt eru þeir mínir og verða mínir á þeim degi, er ég kem og raða saman gimsteinum mínum.
4 Þess vegna verður að aga þá og reyna, alveg eins og Abraham, sem boðið var að fórna einkasyni sínum.
5 Því að enginn getur helgast, sem ekki stenst ögunina, en afneitar mér.
6 Sjá, ég segi yður, á meðal þeirra var misklíð, deilur, öfund og ófriður, losti og ágirnd, og þannig vanhelguðu þeir arfleifð sína.
7 Þeir voru tregir til að hlýða rödd Drottins Guðs síns. Þess vegna er Drottinn Guð þeirra tregur til að hlýða á bænir þeirra og svara þeim á erfiðleikatímum þeirra.
8 Á friðartímum mátu þeir ráð mín lítils, en á erfiðleikatímum sínum leita þeir mín af nauðsyn.
9 Sannlega segi ég yður: Þrátt fyrir syndir þeirra er brjóst mitt fullt samúðar með þeim. Ég mun ekki algjörlega vísa þeim burt, og á degi heilagrar reiði mun ég hafa miskunn í huga.
10 Ég hef unnið þess eið, og sú ákvörðun er kunngjörð í fyrra boði mínu til yðar, að ég muni láta sverð réttlátrar reiði minnar falla vegna fólks míns, og það mun verða, já, eins og ég hef sagt.
11 Réttlátri reiði minni verður brátt úthellt takmarkalaust yfir allar þjóðir, og það mun ég gjöra þegar bikar misgjörða þeirra er fullur.
12 Og á þeim degi munu allir frelsast, sem í varðturninum finnast, eða með öðrum orðum, allur Ísraelslýður minn.
13 Og þeim, sem dreift hefur verið, mun safnað saman.
14 Og allir þeir, sem syrgt hafa, munu huggaðir verða.
15 Og allir þeir, sem látið hafa líf sitt vegna nafns míns, munu krýndir verða.
16 Lát því hjörtu yðar huggast vegna Síonar, því að allt hold er í mínum höndum. Hald ró yðar og vitið að ég er Guð.
17 Síon mun ekki haggað úr stað, jafnvel þó að börn hennar séu dreifð.
18 Þeir, sem eftir verða og eru hjartahreinir, munu aftur hverfa að arfleifð sinni, þeir og börn þeirra, syngjandi söngva ævarandi gleði, til að byggja upp eyðistaði Síonar —
19 Og allt þetta til að orð spámannanna rætist.
20 Og sjá, enginn annar staður er útnefndur en sá, sem ég hef útnefnt, né heldur mun annar staður útnefndur en sá, sem ég hef útnefnt fyrir verk samansöfnunar minna heilögu —
21 Þar til sá dagur kemur, er ekki finnst meira rúm fyrir þá, og þá hef ég aðra staði, sem ég mun útnefna þeim, og þeir munu nefnast stikur, fyrir tjalddúka eða styrk Síonar.
22 Sjá, það er vilji minn að allir þeir, sem ákalla nafn mitt og tilbiðja mig samkvæmt hinu ævarandi fagnaðarerindi mínu, skuli safnast saman og standa á helgum stöðum —
23 Og búa sig undir þá opinberun, sem koma skal, þegar hulan, er umlykur musteri mitt í tjaldbúð minni og sem hylur jörðina, verður dregin frá og allt hold mun saman sjá mig.
24 Og allt forgengilegt, bæði manna og dýra merkurinnar eða fugla himinsins eða fiska sjávarins, sem dvelur á yfirborði jarðar, mun eyðast —
25 Einnig munu frumefnin bráðna í brennandi hita og allt verða nýtt, svo að þekking mín og dýrð fái hvílt á allri jörðunni.
26 Og þann dag mun fjandskap manna og fjandskap dýra, já, fjandskap alls holds, linna fyrir augliti mínu.
27 Og á þeim degi mun hvað, sem maðurinn biður um, verða honum gefið.
28 Og á þeim degi mun Satan ekki hafa vald til að freista nokkurs manns.
29 Og engin sorg verður, vegna þess að enginn dauði er til.
30 Á þeim degi mun ungbarn ekki deyja fyrr en það nær gamalsaldri, og aldur þess verður sem aldur trésins —
31 Og þegar það deyr mun það ekki sofa, það er að segja í jörðu niðri, heldur breytast á augabragði og verða hrifið upp, og hvíld þess verður dýrðleg.
32 Já, sannlega segi ég yður, á þeim degi þegar Drottinn kemur, mun hann opinbera allt —
33 Það sem liðið er og það sem hulið er og enginn maður þekkti, það sem jörðina varðar, upphaf hennar, tilgang hennar og endi —
34 Það dýrmætasta, það sem er ofar og það sem er neðar, það sem er í jörðu og á jörðu og á himni.
35 Og allir þeir, sem þola ofsóknir vegna nafns míns og standa stöðugir í trú, þó að þeir séu kallaðir til að fórna lífi sínu mín vegna, þeir verða samt hluttakendur í allri þessari dýrð.
36 Hræðist þess vegna ekki, jafnvel ekki dauðann, því að í þessum heimi er gleði yðar ekki algjör, en í mér er gleði yðar algjör.
37 Hafið þess vegna hvorki áhyggjur af líkamanum né lífi líkamans, heldur hugsið um sálina og líf sálarinnar.
38 Og leitið ásjónu Drottins öllum stundum, svo að þér með þolinmæði fáið varðveitt sálir yðar, og þér munuð öðlast eilíft líf.
39 Þegar menn eru kallaðir til ævarandi fagnaðarerindis míns og gjöra ævarandi sáttmála, teljast þeir sem salt jarðar og selta mannsins —
40 Þeir eru kallaðir til að vera selta mannsins. Ef þess vegna salt glatar seltu sinni, sjá, er það til einskis annars nýtt, en að vera kastað út og fótum troðið af mönnum.
41 Sjá, hér er viska varðandi börn Síonar, já mörg, en ekki öll. Þau voru fundin brotleg, þess vegna verður að aga þau —
42 Sá, sem upphefur sjálfan sig, mun niðurlægður verða, og sá, sem niðurlægir sjálfan sig, mun upphafinn verða.
43 Og nú mun ég sýna yður dæmisögu, svo að þér megið þekkja vilja minn varðandi lausn Síonar.
44 Aðalsmaður einn átti landsvæði, mjög kostum búið, og hann sagði við þjóna sína: Farið í víngarð minn, já, til þessa kostalands, og gróðursetjið tólf olífutré —
45 Og setjið varðmenn umhverfis þau og reisið turn, þaðan sem sjá má landið umhverfis, og setjið varðmann í turninn, svo að olífutré mín verði eigi brotin niður, þegar óvinurinn kemur til að eyðileggja og taka sjálfur ávexti víngarðs míns.
46 Þjónar aðalsmannsins fóru nú og gjörðu sem húsbóndi þeirra bauð þeim og gróðursettu olífutrén og reistu garð umhverfis og settu varðmenn yfir og hófu að reisa turn.
47 Og meðan þeir enn unnu við grunn hans, fóru þeir að segja sín á milli: Hvaða þörf hefur húsbóndi minn fyrir þennan turn?
48 Og þeir réðu ráðum sínum lengi vel og sögðu sín á milli: Hvaða þörf hefur húsbóndi minn fyrir þennan turn, nú á þessum friðartímum?
49 Mætti ekki gefa víxlurunum þetta fé? Því að engin þörf er fyrir þetta.
50 Og meðan þeir þráttuðu um þetta, gjörðust þeir mjög hysknir og hlýddu ekki fyrirmælum húsbónda síns.
51 Og óvinurinn kom að nóttu til og braut niður garðinn, og þjónar aðalsmannsins risu skelfdir á fætur og flýðu, og óvinurinn tortímdi verki þeirra og braut niður olífutrén.
52 Sjá, aðalsmaðurinn, herra víngarðsins, kallaði nú á þjóna sína og sagði við þá: Hvers vegna! Hver er orsök þessa mikla illvirkis?
53 Bar yður ekki að gjöra sem ég bauð yður, og — eftir að þér höfðuð gróðursett í víngarðinn og reist garð umhverfis og sett varðmenn á veggi hans — að byggja einnig turn og setja varðmann í turninn og vakta víngarð minn, en ekki falla í svefn, svo að óvinurinn kæmi yfir yður?
54 Og sjá, varðmaðurinn í turninum hefði séð óvininn meðan hann var enn víðs fjarri, og þá hefðuð þér verið reiðubúnir og varnað óvininum að brjóta niður garðinn og bjargað víngarði mínum úr höndum eyðandans.
55 Og herra víngarðsins sagði við einn þjóna sinna: Far og safna saman öðrum þjónum mínum og tak allan styrk húss míns, stríðsmenn mína, hina ungu menn mína, og einnig þá af þjónum mínum, sem miðaldra eru, þá sem eru styrkur húss míns, utan þá, sem ég hef útnefnt til að halda kyrru fyrir —
56 Og farið samstundis í víngarðsland mitt og endurheimtið víngarð minn, því að hann er minn. Ég hef keypt hann fyrir fé.
57 Farið þess vegna samstundis til lands míns, brjótið niður múra óvina minna, fellið turna þeirra og tvístrið varðmönnum þeirra.
58 Og sem þeir safnast saman gegn yður, svo skuluð þér ná rétti mínum á óvinum mínum, svo að smám saman geti ég komið með það, sem eftir er húss míns, og eignast landið.
59 Og þjónninn sagði við húsbónda sinn: Hvenær mun þetta verða?
60 Og hann sagði við þjón sinn: Þegar mér hentar. Far samstundis og gjör allt, sem ég hef boðið yður —
61 Og þetta skal vera innsigli mitt og blessun til yðar — trúr og vitur ráðsmaður í húsi mínu, stjórnandi í ríki mínu.
62 Og þjónn hans fór samstundis og gjörði allt, sem húsbóndi hans hafði boðið honum, og eftir marga daga var allt uppfyllt.
63 Sannlega segi ég yður enn: Ég mun sýna yður visku mína varðandi alla söfnuðina, svo sem þeir eru fúsir til að taka leiðsögn á réttan og sannan hátt, sér til sáluhjálpar —
64 Svo að samansöfnun minna heilögu haldi áfram, og ég megi uppbyggja þá í mínu nafni á helgum stöðum, því að uppskerutíminn er kominn og orð mitt hlýtur að uppfyllast.
65 Þess vegna verð ég að safna saman fólki mínu, samkvæmt dæmisögunni um hveitið og illgresið, svo að safna megi hveitinu í hlöðu og það hljóti eilíft líf og krýnist himneskri dýrð, þegar ég kem í ríki föður míns til að launa sérhverjum manni samkvæmt verkum sínum —
66 En illgresið skal bundið í bindin og bönd þess gjörð sterk, svo að brenna megi það í óslökkvandi eldi.
67 Þess vegna gef ég öllum söfnuðum mínum fyrirmæli um að þeir safnist áfram saman á þeim stöðum, sem ég hef tilgreint.
68 Engu að síður, eins og ég hef sagt yður í fyrra boði, skal samansöfnun yðar hvorki gerast í flaustri né með flótta, heldur skal allt vel undirbúið fyrir yður.
69 Og til þess að allt verði undirbúið fyrir yður, skuluð þér virða þau fyrirmæli, sem ég hef gefið varðandi þetta —
70 Sem segir eða kennir að kaupa skuli allt það land fyrir fé, sem unnt er að kaupa fyrir fé, í héruðunum umhverfis það land, sem ég hef útnefnt sem land Síonar, við upphaf samansöfnunar minna heilögu —
71 Allt land, sem hægt er að kaupa í Jacksonsýslu og í nærliggjandi héruðum, en annað sé lagt í mínar hendur.
72 Sannlega segi ég yður nú: Látið alla söfnuðina safna saman öllu fé sínu og lát þetta gjörast á sínum tíma, en ekki í flaustri. Og gætið þess að allt sé undirbúið fyrir yður.
73 Og heiðvirðir menn séu tilnefndir, já, vitrir menn, og sendið þá til að kaupa þessi lönd.
74 Og þegar söfnuðirnir í austursýslum landsins styrkjast, geta þeir keypt lönd og safnast saman á þeim, vilji þeir hlíta þessum ráðum. Og á þann hátt geta þeir stofnað Síon.
75 Jafnvel nú þegar er nægilegt í birgðum, já, jafnvel gnægð, til að endurleysa Síon og byggja upp eyðistaði hennar, sem ei munu framar niður rifnir, ef allir þeir söfnuðir, sem nefna sig mínu nafni, væru fúsir til að hlýða rödd minni.
76 Og enn segi ég yður: Það er vilji minn að þeir, sem óvinirnir hafa dreift, haldi áfram að þrábiðja um bætur, og lausn, af þeim, sem settir eru stjórnendur og valdsmenn yðar —
77 Samkvæmt lögum þjóðarinnar og stjórnarskrá, sem ég hef látið gjöra, og tryggja skal rétt og vernd alls holds, samkvæmt réttum og helgum reglum —
78 Að sérhver maður geti með tilliti til kenninga og reglna starfað framvegis í samræmi við það siðferðislega sjálfræði, sem ég hef gefið honum, svo að sérhver maður verði ábyrgur fyrir sínar eigin syndir á degi dómsins.
79 Þess vegna er ekki rétt að einhver maður sé í annars ánauð.
80 Og í þeim tilgangi hef ég sett stjórnarskrá þessa lands með vitrum mönnum, sem ég vakti einmitt í þeim tilgangi, og endurheimt landið með úthellingu blóðs.
81 Nú, við hvað skal ég líkja börnum Síonar? Ég mun líkja þeim við dæmisöguna um konuna og rangláta dómarann, því að menn ættu ávallt að biðja og ekki láta hugfallast, en þar segir:
82 Í borg einni var dómari, sem hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann.
83 En í borg þeirri var ekkja, og hún kom til hans og sagði: Lát mig ná rétti gagnvart mótstöðumanni mínum.
84 Og hann vildi það ekki um hríð, en að lokum sagði hann við sjálfan sig: Þótt ég óttist ekki Guð né skeyti um nokkurn mann, vil ég samt láta ekkju þessa ná rétti sínum, þar eð hún gjörir mér ónæði, og til þess að hún sé ekki ávallt að koma og þreyta mig.
85 Við þetta vil ég líkja börnum Síonar.
86 Þau skulu krefjast miskabóta fyrir dómaranum —
87 Og sinni hann þeim ekki, skulu þau leggja þær fyrir fylkisstjórann —
88 Og sinni fylkisstjórinn þeim ekki, skulu þau leggja þær fyrir forsetann —
89 Og sinni forsetinn þeim ekki, mun Drottinn hefjast handa og fram stíga úr skýli sínu og í reiði sinni hrella þjóðina —
90 Og í mikilli vanþóknun sinni og brennandi reiði mun hann á sínum tíma útiloka þessa ranglátu, ótrúu og óréttlátu ráðsmenn og útnefna þeim hlut sinn meðal hræsnara og vantrúaðra —
91 Jafnvel í ystu myrkrum, þar sem er grátur og kvein og gnístran tanna.
92 Biðjið þess vegna að eyru þeirra ljúkist upp fyrir ákalli yðar, svo að ég geti verið þeim miskunnsamur og þetta komi ekki yfir þá.
93 Það sem ég hef mælt til yðar hlýtur að verða, svo að allir menn verði án afsökunar —
94 Að vitrir menn og stjórnendur megi heyra og vita það, sem þeir hafa aldrei hugleitt —
95 Og ég fái haldið áfram iðju minni, minni sérstæðu iðju, og vinna mitt verk, mitt sérstæða verk, svo að menn fái greint milli hinna réttlátu og hinna ranglátu, segir Guð yðar.
96 Og enn segi ég yður, að það er andstætt boði mínu og vilja, að þjónn minn Sidney Gilbert selji óvinum mínum í hendur forðabúr mitt, sem ég hef útnefnt fólki mínu.
97 Lát ekki óvini mína vanhelga það, sem ég hef útnefnt með samþykki þeirra, sem kenna sig við nafn mitt —
98 Því að þetta er mikil og alvarleg synd gegn mér og gegn fólki mínu, vegna þess sem ég hef ákvarðað og bráðlega hendir þjóðirnar.
99 Þess vegna er það vilji minn, að fólk mitt gjöri kröfu og haldi fast við hana um það, sem ég hef útnefnt þeim, þó að það fái ekki leyfi til að dveljast þar.
100 Þó segi ég ekki, að það skuli ekki dvelja þar, því að beri það ávöxt og vinni verk er hæfa ríki mínu, skal það dvelja þar.
101 Þeir munu byggja og aðrir skulu ekki erfa það. Þeir munu gróðursetja víngarða og skulu neyta ávaxtar þeirra. Já, vissulega. Amen.