84. Kafli
Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Kirtland, Ohio, 22. og 23. september 1832. Þennan septembermánuð tóku öldungarnir að koma heim frá trúboði sínu í eystri fylkjunum og gefa skýrslu um störf sín. Opinberunin var gefin meðan þeir voru samankomnir á þessari gleðistundu. Spámaðurinn nefndi hana opinberun um prestdæmið.
1–5, Nýja Jerúsalem og musterið munu reist í Missouri; 6–17, Prestdæmislína frá Móse til Adams er gefin; 18–25, Æðra prestdæmið hefur lyklana að þekkingu Guðs; 26–32, Lægra prestdæmið hefur lyklana að englaþjónustu og undirbúningi fagnaðarerindisins; 33–44, Menn öðlast eilíft líf fyrir eið og sáttmála prestdæmisins; 45–53, Andi Krists upplýsir menn, og veröldin liggur í synd; 54–61, Hinir heilögu verða að bera vitni um það sem þeir hafa meðtekið; 62–76, Þeir munu prédika fagnaðarerindið, og tákn munu fylgja; 77–91, Öldungar skulu ferðast án pyngju eða mals, og Drottinn mun sjá um þarfir þeirra; 92–97, Plágur og fordæming bíða þeirra sem hafna fagnaðarerindinu; 98–102, Hinn nýi söngur um endurlausn Síonar gefinn; 103–110, Lát sérhvern mann standa í sínu eigin embætti og starfa í sinni eigin köllun; 111–120, Þjónar Drottins skulu boða viðurstyggð eyðingarinnar, sem verður á síðustu dögum.
1 Opinberun Jesú Krists til þjóns hans Josephs Smith yngri og sex öldunga, er þeir sameinuðu hjörtu sín og hófu raust sína til upphæða.
2 Já, orð Drottins varðandi kirkju hans, sem stofnuð var á síðustu dögum til endurreisnar fólks hans, eins og hann hefur talað um fyrir munn spámanna sinna, og til samansöfnunar hans heilögu, sem standa skulu á Síonfjalli, er verða skal borgin Nýja Jerúsalem.
3 Sú borg skal reist, og hefst á musterislóðinni, sem fingur Drottins hefur tilgreint á vesturmörkum Missouriríkis, og Joseph Smith yngri og aðrir, sem Drottinn hefur velþóknun á, hafa helgað.
4 Sannlega er þetta orð Drottins, að hin Nýja Jerúsalemborg skuli byggð með samansöfnun hinna heilögu, og hefjast á þessum stað, já, á musterislóðinni, og skal það musteri reist í tíð þessarar kynslóðar.
5 Því að sannlega mun þessi kynslóð ekki öll líða undir lok fyrr en hús verður reist Drottni, og ský mun hvíla á því, ský sem verða mun sjálf dýrð Drottins, og fylla húsið.
6 Og synir Móse, samkvæmt hinu heilaga prestdæmi, sem hann meðtók af hendi tengdaföður síns Jetró —
7 Og Jetró meðtók af hendi Kalebs —
8 Og Kaleb meðtók það af hendi Elíhú —
9 Og Elíhú af hendi Jeremí —
10 Og Jeremí af hendi Gaðs —
11 Og Gað af hendi Esaja —
12 Og Esaja meðtók það af hendi Guðs.
13 Esaja lifði einnig á dögum Abrahams og hlaut blessun hans —
14 Og Abraham hlaut prestdæmið frá Melkísedek, sem meðtók það um ættlegg feðra sinna, allt til Nóa —
15 Og frá Nóa til Enoks um ættlegg feðra þeirra —
16 Og frá Enok til Abels, sem drepinn var fyrir fláttskap bróður síns og meðtók prestdæmið samkvæmt boði Guðs af hendi föður síns Adams, sem var fyrsti maðurinn —
17 Þetta prestdæmi helst í kirkju Guðs með öllum kynslóðum og er án upphafs daganna eða loka áranna.
18 Og Drottinn veitti einnig Aron og niðjum hans prestdæmi í alla ættliði þeirra. Prestdæmi, sem einnig varir og stenst að eilífu, ásamt því prestdæmi, sem er eftir hinni helgustu reglu Guðs.
19 Og þetta æðra prestdæmi framkvæmir fagnaðarerindið og heldur lyklinum að leyndardómum ríkisins, já, lyklinum að þekkingu Guðs.
20 Í helgiathöfnum þess opinberast því kraftur guðleikans.
21 Og án helgiathafnanna og valds prestdæmisins opinberast ekki hinn guðlegi kraftur mönnum í holdinu —
22 Því að án þessa getur enginn maður séð ásjónu Guðs, já, föðurins, og haldið lífi.
23 Þetta kenndi Móse Ísraelsbörnum greinilega í eyðimörkinni og reyndi af kostgæfni að helga þjóð sína, svo að hún mætti líta ásjónu Guðs —
24 En þeir hertu hjörtu sín og fengu ei staðist návist hans, og þess vegna sór Drottinn í heilagri reiði sinni, því að reiði hans var tendruð gegn þeim, að þeir skyldu ekki ganga inn til hvíldar hans meðan þeir væru í eyðimörkinni, þeirrar hvíldar, sem er fylling dýrðar hans.
25 Þess vegna tók hann Móse frá þeim og einnig hið heilaga prestdæmi —
26 En lægra prestdæmið hélst, sem hefur lykilinn að þjónustu engla og undirbúningi fagnaðarerindisins —
27 Og það fagnaðarerindi er boðskapur iðrunar og skírnar og fyrirgefningar syndanna og lögmál hinna holdlegu boðorða, sem Drottinn í heilagri reiði sinni lét haldast í húsi Arons meðal Ísraelsbarna fram á tíma Jóhannesar, sem Guð vakti upp og fylltur var heilögum anda strax frá móðurkviði.
28 Því að hann var skírður meðan hann var enn í bernsku, og engill Guðs vígði hann þessu valdi þegar hann var átta daga gamall, til að kollvarpa ríki Gyðinga og gjöra beinar brautir Drottins frammi fyrir þjóð hans, og búa hana undir komu Drottins, sem allt vald hefur fengið í hendur.
29 Og enn fremur eru embætti öldungs og biskups nauðsynlegir viðaukar hins háa prestdæmis.
30 Og enn fremur eru embætti kennara og djákna nauðsynlegir viðaukar hins lægra prestdæmis, þess prestdæmis, sem veitt var Aron og sonum hans.
31 Eins og ég þess vegna sagði varðandi syni Móse — því að synir Móse og einnig synir Arons skulu færa þóknanlegar gjafir og fórnir í húsi Drottins, því húsi, sem reist verður Drottni með þessari kynslóð, á þeim helgaða stað, sem ég hef útnefnt —
32 Og synir Móse og Arons skulu fyllast dýrð Drottins á Síonfjalli, í húsi Drottins, og þeir synir eruð þér og einnig margir aðrir, sem ég hef kallað og sent til að byggja upp kirkju mína.
33 Því að hver sá, sem af staðfestu hlýtur þessi tvö prestdæmi, sem ég hef talað um, og eflir köllun sína, er helgaður af andanum til endurnýjunar líkama sínum.
34 Þeir verða synir Móse og Arons og niðjar Abrahams, og kirkjan og ríkið og hinir kjörnu Guðs.
35 Og einnig allir þeir, sem taka á móti þessu prestdæmi, taka á móti mér, segir Drottinn —
36 Því að sá, sem tekur á móti þjónum mínum, tekur á móti mér —
37 Og sá, sem tekur á móti mér, tekur á móti föður mínum —
38 Og sá, sem tekur á móti föður mínum, tekur á móti ríki föður míns. Fyrir því mun allt, sem faðir minn á, verða honum gefið.
39 Og þetta er í samræmi við eið þann og sáttmála, sem prestdæminu tilheyra.
40 Allir þeir, sem þess vegna taka á móti prestdæminu, taka á móti þessum eiði og sáttmála föður míns, sem hann getur ekki rofið, né heldur verður því haggað.
41 En hver sá, sem rýfur þennan sáttmála, eftir að hafa tekið á móti honum, og snýr að fullu frá honum, mun hvorki hljóta fyrirgefningu syndanna í þessum heimi né í komanda heimi.
42 Og vei sé öllum þeim, sem ekki koma undir þetta prestdæmi, sem þér hafið veitt viðtöku og ég nú staðfesti yður, sem viðstaddir eruð í dag, með minni eigin rödd frá himnum. Og ég sjálfur hef falið hinum himnesku herskörum og englum mínum ábyrgð á yður.
43 Og nú gef ég yður boð um að gæta yðar og af kostgæfni gefa gaum að orðum eilífs lífs.
44 Því að þér skuluð lifa samkvæmt sérhverju orði, sem fram gengur af Guðs munni.
45 Því að orð Drottins er sannleikur, og það sem er sannleikur er ljós, og það sem er ljós er andi, já, andi Jesú Krists.
46 Og andinn gefur sérhverjum manni ljós, sem í heiminn kemur. Og andinn upplýsir sérhvern mann í heiminum, sem á rödd andans hlýðir.
47 Og sérhver maður, sem á rödd andans hlýðir, kemur til Guðs, já, föðurins.
48 Og faðirinn fræðir hann um sáttmálann, sem hann hefur endurnýjað og staðfest yður, sem veittur er yður yðar vegna, en ekki aðeins yðar vegna, heldur vegna alls heimsins.
49 Og allur heimurinn liggur í synd og stynur undan myrkrinu og undan fjötrum syndarinnar.
50 Og þannig getið þér vitað að þeir eru í fjötrum syndarinnar, að þeir koma ekki til mín.
51 Því að hver sá, sem ekki kemur til mín, er í fjötrum syndarinnar.
52 Og hver sá, sem tekur ekki á móti rödd minni, þekkir ekki rödd mína og er ekki minn.
53 Og þannig getið þér þekkt hinn réttláta frá hinum rangláta og að allur heimurinn stynur undan synd og myrkri, jafnvel nú.
54 Og hugur yðar hefur áður fyrr verið myrkvaður vegna vantrúar og vegna þess að þér hafið farið léttúðlega með það, sem þér hafið meðtekið —
55 En léttúð sú og vantrú hefur leitt alla kirkjuna undir fordæmingu.
56 Og þessi fordæming hvílir á börnum Síonar, já, öllum.
57 Og þau skulu verða undir þessari fordæmingu þar til þau iðrast og minnast hins nýja sáttmála, já, Mormónsbókar og fyrri boða, sem ég hef gefið þeim, ekki aðeins í orðum, heldur einnig breyta samkvæmt því, sem ég hef skrifað —
58 Svo að þeir geti borið ávöxt, sem hæfir ríki föður þeirra. Að öðrum kosti bíður refsing og fordæming, sem úthellt verður yfir börn Síonar.
59 Því að eiga börn ríkisins að saurga heilagt land mitt? Sannlega segi ég yður, nei.
60 Sannlega, sannlega segi ég yður, sem nú hlýðið á orð mín, sem er rödd mín: Blessaðir eruð þér, svo sem þér veitið þessu viðtöku —
61 Því að ég fyrirgef yður syndir yðar með þeim fyrirmælum — að þér með einbeittum huga séuð staðfastir í hátíðleika yðar og bænaranda, og berið öllum heiminum vitnisburð um það, sem yður er gefið.
62 Farið þess vegna út um allan heim. Og þangað sem þér getið eigi farið, skuluð þér senda, svo að vitnisburðurinn fari frá yður út um allan heim til sérhverrar skepnu.
63 Og hið sama og ég sagði postulum mínum, já það segi ég yður, því að þér eruð postular mínir, já, háprestar Guðs: Þér eruð þeir, sem faðirinn hefur gefið mér, þér eruð vinir mínir —
64 Það sem ég þess vegna sagði postulum mínum segi ég einnig yður, að sérhver sál, sem trúir orðum yðar og er skírð í vatni til fyrirgefningar syndanna, skal taka á móti heilögum anda.
65 Og þessi tákn munu fylgja þeim sem trúa:
66 Í mínu nafni munu þeir vinna mörg undursamleg verk —
67 Í mínu nafni munu þeir reka út djöfla —
68 Í mínu nafni munu þeir lækna sjúka —
69 Í mínu nafni munu þeir ljúka upp augum hins blinda og eyrum hins daufa —
70 Og tunga hins dumba mun mæla —
71 Og þó að einhver gefi þeim eitur, mun þá eigi saka —
72 Og eitur nöðrunnar mun ekki hafa kraft til að vinna þeim mein.
73 En boð gef ég þeim, að þeir skulu hvorki hreykja sér af þessu né segja það heiminum, því að þetta er yður gefið til gagns og til sáluhjálpar.
74 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þeir sem ekki trúa orðum yðar og ekki eru skírðir í vatni í mínu nafni til fyrirgefningar synda sinna, svo að þeir geti öðlast heilagan anda, skulu dæmdir verða og eigi koma í ríki föður míns, þar sem faðir minn og ég erum.
75 Og þessi opinberun til yðar, og þetta boðorð, er í gildi frá þessari stundu um allan heim, og fagnaðarerindið er til allra, sem ekki hafa veitt því viðtöku.
76 En sannlega segi ég við alla þá, sem fengið hafa ríkið í hendur — frá yður verður að prédika það fyrir þeim, svo að þeir iðrist fyrri illverka. Því að þeir skulu átaldir fyrir ill og vantrúa hjörtu, og bræður yðar í Síon fyrir uppreisn sína gegn yður, þegar ég sendi yður.
77 Og enn segi ég yður, vinir mínir, því að héðan af kalla ég yður vini: Mér þykir æskilegt að gefa yður þessi fyrirmæli, svo að þér verðið eins og vinir mínir voru á þeim tíma, þegar ég var með þeim og ferðaðist um og prédikaði fagnaðarerindið með krafti mínum —
78 Því að ég leyfði þeim hvorki að hafa pyngju né mal, né heldur tvo kyrtla.
79 Sjá, ég sendi yður til að reyna heiminn, og verður er verkamaðurinn launa sinna.
80 Og sérhver maður, sem fer og prédikar þennan fagnaðarboðskap ríkisins og er áfram trúr í öllu, skal hvorki þreytast eða formyrkvast í huga, né í líkama, limum eða liðamótum. Og ekki skal eitt hár af höfði hans falla til jarðar án þess að eftir því verði tekið. Og þá skal hvorki hungra né þyrsta.
81 Hafið þess vegna ekki áhyggjur af morgundeginum, hvað þér eigið að eta eða hvað þér eigið að drekka eða hverju þér skuluð klæðast.
82 Gefið gaum að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna, og þó eru ríki heimsins í allri dýrð sinni ekki svo búin sem ein þeirra.
83 Því að faðir yðar, sem er á himnum, veit að þér þarfnist alls þessa.
84 Látið þess vegna morgundeginum eftir áhyggjur sínar.
85 Ekki skuluð þér heldur fyrirfram hafa áhyggjur af því hvað þér eigið að segja, heldur varðveitið lífsins orð stöðugt í huga yðar, og einmitt á þeirri stundu munu yður gefin þau þeirra, sem mæld verða hverjum manni.
86 Þess vegna skal enginn yðar á meðal — því að þessi fyrirmæli eru til allra hinna staðföstu, sem Guð kallar í kirkjunni til helgrar þjónustu — sem fer til að kunngjöra fagnaðarerindi ríkisins, taka með sér pyngju eða mal frá þessari stundu.
87 Sjá, ég sendi yður til að ávíta heiminn fyrir öll óréttlát verk hans og fræða hann um dóm, sem í vændum er.
88 Og hjá hverjum þeim, sem veitir yður viðtöku, mun ég einnig vera, því að ég mun fara fyrir yður. Ég mun verða yður til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi minn mun vera í hjörtum yðar og englar mínir umhverfis yður, yður til stuðnings.
89 Hver, sem tekur á móti yður, tekur á móti mér, og sá hinn sami mun gefa yður fæði og klæði og fjármuni.
90 Og sá, sem gefur yður fæði, klæði eða fjármuni, mun í engu glata launum sínum.
91 En sá, sem eigi gjörir slíkt, er ekki lærisveinn minn. Þannig getið þér þekkt lærisveina mína.
92 Farið burt frá þeim, sem ekki veitir yður viðtöku, og laugið fætur yðar í einrúmi, já, með vatni, hreinu vatni, hvort heldur heitt er eða kalt, og berið föður yðar, sem er á himni, vitnisburð um það, og snúið ekki aftur til þess manns.
93 Og gjörið svo í öllum þeim þorpum eða borgum sem þér komið í.
94 Leitið þó af kostgæfni og hlífist ei. En vei sé því húsi, þorpi eða borg, sem hafnar yður eða orðum yðar eða vitnisburði yðar um mig.
95 Vei, segi ég aftur, sé því húsi, þorpi eða borg, sem hafnar yður eða orðum yðar eða vitnisburði yðar um mig —
96 Því að ég, hinn almáttugi, hef lagt hendur mínar yfir þjóðirnar til að refsa þeim fyrir ranglæti þeirra.
97 Og plágur munu herja og þær munu ekki af jörðunni teknar, fyrr en ég hef fullnað verk mitt, sem með hraði skal lokið í réttlæti —
98 Ekki fyrr en allir, sem eftir verða, þekkja mig, já, frá þeim lægsta til hins æðsta, og munu fylltir þekkingu á Drottni og sjá augliti til auglitis, og hefja upp raust sína og einum rómi syngja þennan nýja söng, og segja:
99 Drottinn hefur aftur fært oss Síon,Drottinn hefur endurleyst þjóð sína, Ísrael,samkvæmt náðarkjöri,sem trúin og sáttmáli feðra þeirra kom til leiðar.
100 Drottinn hefur endurleyst þjóð sína,og Satan er bundinn og tíminn ei lengur til.Drottinn hefur sameinað allt í eitt.Drottinn hefur leitt Síon niður ofan frá.Drottinn hefur leitt Síon upp neðan frá.
101 Jörðin hefur haft fæðingarhríðir og borið fram styrk sinn,og sannleikurinn hefur fest rætur í brjósti hennar,og himnarnir hafa brosað við henni;og hún er íklædd dýrð Guðs síns;því að hann stendur mitt á meðal þjóðar sinnar.
102 Dýrð og heiður og vald og mátturtileinkist Guði vorum, því að hann er fullur miskunnar,réttvísi, náðar, sannleika og friðar,alltaf og að eilífu. Amen.
103 Og sannlega, sannlega segi ég yður enn, að æskilegt er að allir þeir, sem fara og kunngjöra ævarandi fagnaðarerindi mitt og fá fé að gjöf og fjölskyldur eiga, sendi þeim það eða noti það í þeirra þágu, eins og Drottinn leiðbeinir þeim, því að slíkt er mér þóknanlegt.
104 Og allir þeir, sem engar fjölskyldur eiga og fá fé, skulu senda það til biskupsins í Síon eða biskupsins í Ohio, svo að hægt sé að helga það til prentunar og birtingar opinberananna, og til uppbyggingar Síonar.
105 Og gefi einhver yðar yfirhöfn eða klæðnað, takið þá hið gamla og gefið það fátækum og haldið fagnandi leiðar yðar.
106 Og sé einhver maður yðar á meðal sterkur í andanum, skal hann taka með sér þann, sem óstyrkur er, svo að hann megi uppbyggjast í fullri hógværð og verða einnig styrkur.
107 Takið þess vegna með yður þá, sem vígðir eru hinu lægra prestdæmi, og sendið þá á undan yður til að setja yður mót, greiða veginn og sækja þau mót, sem þér getið eigi sótt.
108 Sjá, á þennan hátt byggðu postular mínir til forna upp kirkju mína.
109 Lát þess vegna sérhvern mann standa í stöðu sinni og starfa í sinni eigin köllun, og höfuðið skal ekki segja við fæturna, að það þarfnist þeirra ekki, því að hvernig fær líkaminn staðið án fótanna.
110 Líkaminn hefur einnig þörf fyrir hvern lim, svo að allir geti uppbyggst saman og kerfið haldist fullkomið.
111 Og sjá, háprestarnir skulu ferðast og einnig öldungarnir og einnig lægri prestarnir, en djáknarnir og kennararnir skulu tilnefndir til að vaka yfir kirkjunni og vera helgir fastaþjónar kirkjunnar.
112 Og biskupinn, Newel K. Whitney, skal einnig ferðast um meðal allra safnaðanna og leita uppi hina fátæku og annast þarfir þeirra með því að auðmýkja hina ríku og dramblátu.
113 Hann skal einnig ráða erindreka til að annast veraldleg mál undir sinni stjórn.
114 Engu að síður skal biskupinn fara til New York-borgar, einnig til Albany-borgar og einnig til borgarinnar Boston, og aðvara íbúa þessara borga hárri raustu með hljómi fagnaðarerindisins um þá eyðingu og fullkomnu upplausn, sem bíður þeirra, ef þeir hafna þessu.
115 Því að ef þeir hafna því, er dagur dóms þeirra í nánd og hús þeirra mun í eyði lagt.
116 Hann skal setja traust sitt á mig og á engan hátt verða sér til smánar. Og eitt hár á höfði hans mun ekki falla til jarðar án þess að eftir því verði tekið.
117 Og sannlega segi ég við yður, aðra þjóna mína: Farið eftir því sem aðstæður yðar leyfa í hinum ýmsu köllunum yðar, til hinna stóru og markverðu borga og þorpa og ávítið heiminn í réttlæti fyrir alla óréttláta og óguðlega breytni og setjið skýrt og greinilega fram eyðingu viðurstyggðarinnar á síðustu dögum.
118 Því að með yður, segir Drottinn almáttugur, mun ég rífa niður ríki þeirra. Ég mun ekki aðeins hrista jörðina, heldur skal stjörnuhvolfið skjálfa.
119 Því að ég, Drottinn, hef rétt út hönd mína til að koma kröftum himins á hreyfingu. Þér getið eigi séð það nú, en innan tíðar skuluð þér sjá það og vita að ég er, og að ég mun koma og ríkja með þjóð minni.
120 Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Amen.