Námshjálp
Ísrael


Ísrael

Nafnið Ísrael gaf Drottinn Jakob syni Ísaks og sonarsyni Abrahams í Gamla testamentinu (1 Mós 32:28; 35:10). Nafnið Ísrael getur táknað Jakob sjálfan, afkomendur hans eða ríkið sem þeir afkomendur eitt sinn áttu á tímum Gamla testamentis (2 Sam 1:24; 23:3). Eftir að Móse leiddi Ísrael út úr ánauðinni í Egyptalandi (2 Mós 3–14), voru þeir undir stjórn dómaranna í meir en þrjár aldir. Með Sál konungi upphefst konungdæmi sameinaðs Ísrael sem stendur fram að dauða Salómons þegar tíu ættkvíslir brjótast undan Rehabeam og mynda sérstakt ríki. Eftir skiptingu Ísraels héldu nyrðri ættkvíslirnar stærri hlutanum og nafninu Ísrael en suðurríkið nefndist Júdea. Kanaanland er einnig kallað Ísrael nú á tímum. Í öðrum skilningi merkir Ísrael sannur fylgjandi Krists (Róm 10:1; 11:7; Gal 6:16; Ef 2:12).

Tólf ættkvíslir Ísraels

Sonarsonur Abrahams, Jakob, en nafni hans var breytt í Ísrael, átti tólf sonu. Afkomendur þeirra urðu þekktir sem tólf ættkvíslir Ísraels eða börn Ísraels. Ættkvíslirnar tólf eru þessar: Rúben, Símeon, Leví, Júda, Íssakar og Sebúlon (synir Jakobs og Leu); Dan og Naftalí (synir Jakobs og Bílu); Gað og Asser (synir Jakobs og Silpu); Jósef og Benjamín (synir Jakobs og Rakelar) (1 Mós 29:32–30:24; 35:16–18).

Jakob veitti öllum leiðtogum ættkvíslanna blessun áður en hann dó (1 Mós 49:1–28). Til frekari upplýsingar, sjá nöfn sona Jakobs hvers um sig.

Rúben, frumburður Leu, fyrstu konu Jakobs, missti frumburðarrétt sinn og tvöfaldan erfðarétt vegna siðleysis (1 Mós 49:3–4). Frumburðarrétturinn hvarf þá til Jósefs sem var frumburður Rakelar annarrar konu Jakobs (1 Kro 5:1–2). Leví, en ættkvísl hans hafði Drottinn valið til að þjóna í prestdæminu, hlaut ekki arf vegna sérstakrar köllunar til þjónustu meðal allra ættkvíslanna. Þannig fékk Jósef tvöfaldan arfshlut sem skiptist milli sona hans, Efraíms og Manasse (1 Kro 5:1; Jer 31:9), sem töldust aðskildar ættkvíslir Ísraels (ÞJS, 1 Mós 48:5–6 [Viðauki]).

Ættmenn Júda kynkvíslar áttu að vera leiðtogar þar til Messías kæmi (1 Mós 49:10; ÞJS, 1 Mós 50:24 [Viðauki]). Á síðari dögum hefur ættkvísl Efraíms þau forréttindi að færa heiminum boðskapinn um endurreisn fagnaðarerindisins og safna saman hinni tvístruðu Ísraelsætt (5 Mós 33:13–17). Sá tími kemur að Efraím mun með fagnaðarerindi Jesú Krists verða leiðandi afl til sameiningar allra ættkvísla Ísraels (Jes 11:12–13; K&S 133:26–34).

Tvístrun Ísraels

Drottinn tvístraði og hrjáði hinar tólf ættkvíslir Ísraels vegna óréttlætis þeirra og mótþróa. En um leið lét Drottinn þessa tvístrun sinnar kjörnu þjóðar meðal þjóða heimsins verða þeim þjóðum til blessunar.

Samansöfnun Ísraels

Ísraelsætt mun saman safnað á síðari dögum fyrir komu Krists (TA 1:10). Drottinn safnar saman Ísraelsþjóð sinni þegar hún meðtekur hann og heldur boðorð hans.

Hinar tíu horfnu kynkvíslir Ísraels

Tíu af ættkvíslum Ísraels mynduðu nyrðra konungdæmi Ísraels og voru herleiddar til Assýríu árið 721 f.Kr. Um það leyti fóru þær til „norðlægra landa“ og hverfa úr sögunni. Á síðustu dögum munu þær koma til baka.